Hoppa yfir valmynd
18. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 47/2021. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 7. mars 2022
í máli nr. 47/2021:
Gleipnir verktakar ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Verktækni ehf.

Lykilorð
Málskostnaður.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu varnaraðila Verktækni ehf. um greiðslu málskostnaðar þar sem skilyrði 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 voru ekki talin uppfyllt.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. nóvember 2021 kærði Gleipnir verktakar ehf. útboð Reykjavíkurborgar (hér eftir vísað til varnaraðila) nr. 15323 auðkennt „Þróttur – Laugardal. Æfingavellir – Gervigras. Jarðvinna og lagnir“. Kærandi krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun varnaraðila frá 11. nóvember 2021 um að velja tilboð Verktækni ehf. í hinu kærða útboði. Til vara krafðist kærandi þess að kærunefnd útboðsmála léti í ljós álit sitt vegna skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Kærandi krafðist jafnframt í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

Varnaraðila og Verktækni ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili krafðist þess í greinargerð sinni 25. nóvember 2021 að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar yrði aflétt hið fyrsta og að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Verktækni ehf. krafðist þess í greinargerð sinni 22. nóvember 2021 að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði sem fyrst að félagið væri hæft til að sinna verkefninu og að nefndin úrskurðaði um hver skyldi bera kostnað félagsins vegna gagnaöflunarinnar, og teldi jafnframt eðlilegt að sá kostnaður félli á kæranda.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. desember 2021 var stöðvun samningsgerðar, sem komist hafði á með kæru í málinu, aflétt að kröfu varnaraðila.

Með tölvupósti til kærunefndar útboðsmála þann 2. febrúar 2022 upplýsti kærandi að hann og varnaraðili Reykjavíkurborg ættu í viðræðum um að kærandi tæki að sé umrætt verk, en lægstbjóðandi í hinu kærða útboði, Verktækni ehf., hefði fallið frá því að taka verkið að sér. Var óskað eftir fresti til þess að leggja fram frekari gögn í málinu, enda væru aðilar að reyna að ná samningum. Samningar tókust ekki og fór svo að varnaraðili valdi annan aðila til að sinna verkinu, en sá hafði átt þriðja lægsta tilboðið í umræddu útboði. Með tölvupósti þann 7. febrúar 2022 tilkynnti kærandi að hann félli frá gerðum kröfum og dró til baka kæru sína í máli þessu, enda hefði varnaraðili tekið nýja ákvörðun í málinu. Um leið var hin nýja ákvörðun kærð til kærunefndar útboðsmála. Fékk sú kæra nýtt málsnúmer hjá nefndinni.

Í ljósi kröfugerðar Verktækni ehf. um greiðslu kostnaðar vegna kæru í málinu óskaði kærunefnd útboðsmála eftir upplýsingum frá umboðsmanni félagsins um hvort þessari kröfu yrði haldið til streitu í ljósi þess að kæra málsins hefði verið dregin til baka. Með tölvupósti þann 10. febrúar, sbr. og ítrekun 15. febrúar 2022, krafðist Verktækni ehf. þess að úrskurðað yrði um málskostnað í máli þessu. Kærandi lagði fram athugasemdir vegna kröfu varnaraðila með tölvupósti þann 25. febrúar 2022.

Niðurstaða

Eina krafan sem er til úrlausnar í máli þessu er krafa varnaraðila Verktækni ehf. um að kærandi greiði þann kostnað sem féll á félagið vegna gagnaöflunar vegna kæru kæranda. Skilja verður kröfu þessa sem svo að varnaraðili Verktækni ehf. krefjist þess að kærandi greiði málskostnað í skilningi 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016.

Í lögum nr. 120/2016 er ekki mælt fyrir um heimild til handa kærunefnd til þess að úrskurða varnaraðila málskostnað úr hendi kæranda. Hins vegar er í 2. málsl. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 mælt fyrir um að ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja mál fyrir framgangi opinberra innkaupa geti kærunefnd úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð. Þótt kærandi hafi dregið til baka kæru sína og gerðar kröfur í máli þessu verður ekki litið svo á, í ljósi málatilbúnaðar hans, að kæra í málinu hafi verið bersýnilega tilefnislaus eða höfð upp í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Er umræddri kröfu varnaraðila Verktækni ehf. því hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu varnaraðila, Verktækni ehf., um greiðslu málskostnaðar er hafnað.


Reykjavík, 7. mars 2022


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum