Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Verðmætur liður í flugsögunni

Flugvélar á og yfir Íslandi er nafn bókar Baldurs Sveinssonar flugvélaljósmyndara sem Mál og menning hefur gefið út. Baldur afhenti Kristjáni L. Möller samgönguráðherra eintak í dag en í bókinni eru yfir 500 myndir af flugvélum sem teknar hafa verið síðustu 44 árin.

Samgönguráðherra skoðar myndabók um flugvélar
Samgönguráðherra skoðar myndabók um flugvélar

Myndirnar eru af öllum gerðum flugvéla sem hafa haft viðdvöl hérlendis um lengri eða skemmri tíma og er meginhluti myndanna af vélunum á lofti með íslenskt landslag í bakgrunni. Bókinni er skipt í sex kafla og í tveimur viðaukum eru myndir af flugvélategundum á Íslandi og síðan tæknilegar og sögulegar upplýsingar um þær.

Kristján L. Möller sagði þegar hann tók við bókinni hjá Baldri að þetta væri áhugaverð bók og nauðsynleg. Hún væri verðmætur liður í flugsögunni og hrósaði hann Baldri fyrir framtakið öll þessi ár og að hafa safnað efninu saman í þessa bók.

Baldur valdi myndirnar úr safni þúsunda mynda sinna og segir í formála bókarinnar að valið hafi verið eitt erfiðasta verkefni sem hann hafi komist í, hann hafi orðið að sleppa hundruðum mynda. Flestar myndanna eru teknar af flugvélunum á flugi og hefur Baldur notið aðstoðar fjölda flugmanna sem farið hafa með hann í myndatökuflug.

Samgönguráðherra skoðar myndabók um flugvélar
Baldur Sveinsson sýnir Kristjáni L. Möller bókina en hún hefur að geyma yfir 500 ljósmyndir hans af flugvélum sem flestar eru teknar á flugi yfir Íslandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum