Hoppa yfir valmynd
2. desember 2007 Innviðaráðuneytið

FÍB stofnað af framsýnum mönnum

Félag íslenskra bifreiðaeigenda fagnaði fyrir helgina 75 ára afmæli sínu. Auk aðalfundarstarfa var efnt til ráðstefnu um umferðaröryggismál sem félagið hefur haft á stefnuskrá sinni frá upphafi.

Kristján L. Möller flytur ávarp á afmælisráðstefnu FÍB.
Kristján L. Möller flytur ávarp á afmælisráðstefnu FÍB.

Í upphafi ráðstefnunnar var Árni Sigfússon, fráfarandi formaður FÍB, sæmdur heiðursmerki félagsins. Nýr formaður FÍB er Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík.

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar og sagði að með stofnun félagsins hefðu framsýnir menn séð að slíkt félag hefði verk að vinna varðandi akstur og umferð. Strax hefði komið í ljós að öryggismál væru á verkefnaskrá FÍB og svo hefði alltaf verið. ,,Þetta er einmitt kjarninn í umferðarmálum okkar. Samgönguráðuneytið hefur á sinnu könnu yfirumsjón með þróun og lagningu vega og það hefur líka umferðaröryggi á sinni könnu. Í samgönguáætlun hverju sinni eru lykilorðin greiðar, öruggar og hagkvæmar samgöngur,? sagði ráðherra.

Ráðherra minnti á að umferðaröryggismál væru hluti af samgönguáætlun og að þeim væri lagt til ákveðið fjármagn til að unnt væri að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum aðgerðum. Árin 2007 til 2010 renna 1,7 milljarðar króna til aðgerða í umferðaröryggi eða rúmlega 400 milljónir króna á ári.

Samgönguráðherra sagði einnig að hafa yrði vakandi auga fyrir því sem væri best, öruggast og hagkvæmast í hönnun mannvirkja, fyrir því að stunda víðtæka upplýsingasöfnun og vandaðar rannsóknir á því sem aflaga færi í umferðinni með slysaskráningu og rannsóknum og að nauðsynlegt væri að uppfræða vegfarendur frá fyrsta degi þeirra í umferðinni og halda því áfram ævina út.

Meðal ræðumanna á afmælisráðstefnunni var Saul Billingsley, en hann er meðal frumkvöðla umferðaröryggisátaksins Make Roads Safe. Fjallaði hann um ógnvænlegar afleiðingar umferðarslysa fyrir samfélög og þjóðir, ekki síst fyrir þróunarlönd og hvernig unnt væri að bregðast við þeim vanda.

Þá flutti Ólafur Kr. Guðmundsson verkefnisstjóri erindi um umhverfi vega og slysakort og mat Eurorap verkefnisins á vegum, Sævar Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, fjallaði um rannsóknir á slys við útafakstur, Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, ræddi öryggisúttektir á jarðgöngum og Steinþór Jónsson, formaður Samstöðu, talaði um slysalausa sýn.

Sjá má ávarp samgönguráðherra hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum