Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 39/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 39/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21120011

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21040060, dags. 26. ágúst 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. apríl 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 30. ágúst 2021. Hinn 6. september 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og endurupptöku málsins. Hinn 4. nóvember 2021 synjaði kærunefnd kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa í máli sínu með úrskurði kærunefndar í málum nr. KNU21090017 og KNU21090074. Hinn 9. desember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun hinn 13. desember 2021 og stoðdeild ríkislögreglustjóra hinn 17. desember 2021. Athugasemdir og frekari gögn bárust frá kæranda dagana 21. desember 2021 og 21., 27. og 31. janúar 2022. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd ásamt móður sinni og fjórum systkinum og var úrskurður vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd kveðinn upp samhliða úrskurði kærunefndar í málum þeirra. Þá er beiðni kæranda um endurupptöku lögð fram af fjölskyldunni í heild með sameiginlegri greinargerð. Úrskurðir fjölskyldunnar varðandi beiðni þeirra um endurupptöku voru unnir samhliða og kveðnir upp samdægurs, sbr. úrskurð nr. 40/2022.

Af beiðni kæranda um endurupptöku máls hans má ráða að hún byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur m.a. fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 8. desember 2020 og að hann hafi ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 12 mánaða sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með hliðsjón af atvikum máls telur kærandi að tafir á flutningi hans til Grikklands verði ekki raktar til hans, enda væri það bersýnilega ósanngjarnt af stjórnvöldum að halda því fram. Kærandi telur að skilyrði framangreinds ákvæðis séu uppfyllt í máli hans og því skuli umsókn hans tekin til efnismeðferðar hér á landi.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 8. desember 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti hinn 8. desember 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda sé á hans ábyrgð, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun hinn 13. desember 2021 varðandi fyrirspurnir um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda kom fram að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild hafi kærandi ekki viljað fara af landi brott og margsinnis neitað því að fara í sýnatöku. Útlendingastofnun liti því svo á að kærandi hafi tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í svari frá stoðdeild sem barst kærunefnd hinn 17. desember 2021, kemur fram að kærandi hafi hinn 19. nóvember 2021 neitað að skrifa undir og merkja við eyðublaðið Tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands. Þá kom fram að lögmaður kæranda myndi ræða við hann um efni tilkynningarinnar. En tilkynningin hafi verið kynnt fyrir kæranda með aðstoð Language Line.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 17. desember 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd hinn 21. desember 2021. Í svari kæranda kemur fram að ljóst sé að lögreglan hafi samþykkt að lögmaður hans myndi ræða við hann um efni tilkynningarinnar og því verði að telja það verulega ósanngjarnt að líta svo á að hann hafi ekki skrifað undir skjölin samdægurs hinn 19. nóvember 2021, sem feli í sér tafir í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að lögreglan hafi hinn 19. nóvember 2021 verið upplýst um að lögmaður hans myndi verða við framangreindri beiðni og fara yfir efni tilkynningarinnar með þeim strax eftir helgi þ.e. hinn 22. nóvember 2021, sem hafi svo verið gert. Jafnframt hafi lögreglan verið upplýst þann sama dag að beiðni hafi verið send til heilsugæslunnar um að afla bólusetningarvottorða fyrir kæranda og fjölskyldu hans vegna fyrirhugaðs flutnings þeirra til Grikklands í samræmi við beiðni lögreglu. Þá hafi verið handskrifaður texti á tilkynningunni frá sama lögreglufulltrúa að ekki væri gerð krafa um Covid-19 sýnatöku heldur einungis óskað eftir bólusetningarvottorði frá kæranda. Í samræmi við beiðni lögreglu hafi kærandi óskað eftir bólusetningarvottorði frá heilsugæslunni Firði hinn 22. nóvember 2021. Þá vísar kærandi til þess að ekki sé að finna leiðbeiningar um hvar hann skuli sækja vottorðið og hafi hann sjálfur þurft að afla þessara upplýsinga. Þar sem engin svör bárust frá heilsugæslunni ítrekaði kærandi beiðni sína um að fá bólusetningarvottorðið afhent vegna fyrirhugaðs flutnings hans úr landi hinn 25. nóvember 2021 en fékk þau svör að erindi hans væri móttekið og væri í vinnslu hjá lækni. Þrátt fyrir framangreind svör hafi kærandi leitað eftir frekari aðstoð frá félagsráðgjafa sínum sem hafi gefið honum aðrar upplýsingar um hvert hann ætti að sækja vottorðið, þ.e. hjá Göngudeild sóttvarna. Vegna misvísandi upplýsinga, að teknu tilliti til þess að kærandi sé bundinn í hjólastól og að ávallt hafi verið pantaður bíll fyrir hann til að sinna erindum utan heimilis og þess að hann þurfti að sækja skjalið í eigin persónu hafi verið óskað eftir frekari aðstoð frá Hafnarfjarðarbæ um að skipuleggja ferð kæranda þangað. Kærandi og fjölskylda hans hafi fengið tölvubréf, dags. 30. nóvember 2021, þar sem þeim hafi verið greint frá því að Hafnarfjarðarbær skyldi hafa samband við lögregluna og skoða þetta með þeim. Kærandi hafi enn ekki fengið frekari upplýsingar frá yfirvöldum um næstu skref í máli sínu og hafi sjálfur ítrekað gengið eftir samvinnu við yfirvöld til að liðka fyrir flutningi hans úr landi. Kærandi hafni því sem fram komi í svari Útlendingastofnunar að hann hafi ekki viljað fara af landi brott og margsinnis neitað því að fara í sýnatöku. Kærandi gerir athugasemd við það að stoðdeild hafi veitt Útlendingastofnun þessar röngu upplýsingar. Þá telur kærandi ólögmætt af hálfu stofnunarinnar að líta svo á að ef einhver úr fjölskyldunni hafi ekki sagst vilja fara úr landi, að afstaða þess kæranda sé jafngild afstöðu allra kærenda. Með vísan til framangreinds telur kærandi að tafir á flutningi hans úr landi verði ekki raktar til hans og það sé bersýnilega ósanngjarnt að Útlendingastofnun og stoðdeild haldi því fram. Til vara óskar kærandi eftir því að í mesta lagi hafi verið um þriggja daga töf að ræða vegna samráðs hans við lögmann sinn en hann hafi strax að því loknu leitast með virkum hætti við að fá óskir stjórnvalda uppfylltar.

Líkt og áður kom fram hélt kærandi því fram hinn 19. nóvember 2021 að hann væri bólusettur og gæti aflað vottorðs um það. Hinn 19. janúar 2022 óskaði kærunefnd eftir staðfestingu frá kæranda um að hann væri bólusettur, líkt og hann hélt fram við framkvæmd flutnings, og þá hvenær sú bólusetning hefði farið fram, svo hægt væri að leggja mat á það hvort tafir á afgreiðslu umsóknar hans hafi verið á hans ábyrgð. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust kærunefnd hinn 21. janúar 2022. Þar kemur m.a. fram að kærandi mótmæli því nú harðlega að hafa verið spurður af lögreglu hvort hann væri bólusettur en kærandi hafi upplýst lögreglu um að hann hafi fengið Covid-19 sýkingu. Kærandi telur að misræmi sé í svörum stjórnvalda til nefndarinnar um ástæður þess að hann hafi tafið mál sitt. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi gert tilraun til að afla bólusetningarvottorðs í samræmi við beiðni og ósk lögreglunnar og það án þess að valda töfum. Kærandi hafi talið að öflun á slíku skjali myndi upplýsa um hvort hann væri bólusettur eða ekki. Þá vísar kærandi til þess að hefði beiðni hans til heilsugæslunnar um afhendingu vottorðsins verið afgreidd án dráttar hefði strax orðið ljóst hvort hann þyrfti á bólusetningarvottorði eða öðru vottorði að halda. Í tölvubréfi frá heilsugæslunni Firði, dags. 20. janúar 2022, hafi fyrst komið fram að kærandi gæti ekki fengið slíkt vottorð þar sem bólusetning hans varðaði ekki Covid-19. Kærandi telur það bersýnilega ósanngjarnt að meta það svo að tafir í málinu séu á hans ábyrgð enda ljóst að hefði hann fengið þessar upplýsingar innan tíðar hefði hann óskað eftir öðru og viðeigandi vottorði. Þá hafi lögreglan ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga en kæranda hafi hvorki verið leiðbeint um hvert hann ætti að fara til að afla slíks vottorðs né hafi lögreglan orðið við loforði sínu um að aðstoða við öflun vottorðsins. Kærandi telur að hefði hann fengið aðstoð við að komast á afhendingarstað hefði komið í ljós hvort hann þyrfti bólusetningarvottorð eða önnur vottorð. Þá byggir kærandi á því að miðað við málsmeðferð kærunefndar í öðrum sambærilegum málum geri nefndin mun strangari kröfur til hans við mat á því hvort hann hafi tafið mál sitt eða ekki. Kærandi fjallar um jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og vísar til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21110035 frá 25. nóvember 2021, KNU21100053 og KNU21100054 frá 18. nóvember 2021, KNU21080029, KNU21090040 og KNU21090066 frá 14. október 2021. Þá óskar kærandi eftir frestun á framkvæmd, sbr. 5. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið boðun frá lögreglu til Grikklands auk þess sem Covid-19 heimsfaraldurinn hafi farið versnandi frá því að úrskurður í máli hans var kveðinn upp. Jafnframt vísar kærandi til þess að hann sé einstaklingur í áhættuhópi og því væri það andstætt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 að vísa honum til Grikklands án þess að hafa fengið viðeigandi vernd gegn Covid-19.

Eftir að viðbótarathugasemdir kæranda bárust kærunefnd óskaði nefndin m.a. eftir upplýsingum frá stoðdeild hinn 26. janúar 2022 um það hvort kærandi hafi verið spurður að því hvort hann væri bólusettur og hverju hann hefði svarað. Í svari stoðdeildar, dags. 27. janúar 2022, kemur fram að kærandi hafi verið spurður að því hvort hann væri bólusettur, sem hann hafi svarað játandi, auk þess sem hann hefði greint frá því að ætla sér ekki að framvísa bólusetningarvottorði. Kæranda hafi verið leiðbeint hvernig hægt væri að nálgast bólusetningarvottorð á heilsugæslunni í Mjódd. Þá hafi kærandi jafnframt verið upplýstur um það að lögreglan hefði ekki heimild til að útvega bólusetningarvottorð hans. Í svari frá stoðdeild kom jafnframt fram að lögmaður kæranda hafi verið viðstödd í gegnum fjarfundarbúnað þegar tilkynningin hafi verið birt fyrir kæranda.

Hinn 28. janúar 2022 var framangreint tölvubréf stoðdeildar áframsent til kæranda og honum gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd hinn 31. janúar 2022. Í svari kæranda kemur m.a. fram að hann telji misræmi vera í svörum lögreglunnar um ástæður tafa í máli hans og því sé ekki hægt að leggja svör lögreglunnar til grundvallar. Þá vísar kærandi til þess að hefði hann fengið fullnægjandi leiðbeiningar sé ljóst að hann hafi fengið viðeigandi vottorð. Þá mótmælir kærandi því að hann hafi verið spurður að því hvort hann væri bólusettur en hann hafi einungis farið eftir fyrirmælum um öflun umræddra vottorða. Kærandi vísar til þess að fjölskyldan hafi fengið upplýsingar um hvar ætti að nálgast umrædd vottorð frá Hafnarfjarðarbæ en ekki lögreglunni líkt og gögn málsins beri með sér. Þá vísar kærandi til þess að lögmaður hans hafi ekki verið verið allan tímann í gegnum fjarfundarbúnað þegar tilkynningin var birt fyrir honum heldur hafi hún verið það að hluta til enda hafi aðstæður ekki leyft annað. Þá telur kærandi að hann hafi leitað allra leiða til samráðs og samvinnu við lögregluna en án árangurs. Kærandi ítrekar fyrri beiðni sína um frestun á framkvæmd, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, en hann hafi nýlega verið fluttur upp á bráðamóttöku vegna hraðs hjartsláttar og yfirliðs.

Af gögnum málsins má ráða að lögmaður kæranda hafi hinn 22. nóvember 2021 sent tölvubréf til heilsugæslunnar Fjarðar og óskað eftir bólusetningarvottorði fyrir hann en í tölvubréfinu tekur lögmaður kæranda fram að lögreglan hafi óskað eftir að umbjóðendur sínir framvísi bólusetningarvottorði vegna fyrirhugaðrar endursendingar hans til Grikklands. Í framangreindum viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 21. janúar 2022, kemur fram að hann mótmæli því harðlega að hafa verið spurður af lögreglu hvort hann væri bólusettur en hann hafi þó upplýst lögreglu um það að hafa fengið Covid-19 sýkingu. Kærunefnd telur því misræmi vera í viðbótarathugasemdum kæranda og tölvubréfi frá lögmanni kæranda til heilsugæslunnar Fjarðar, dags. 22. nóvember 2021. Ber tölvubréf lögmanns kæranda til heilsugæslunnar hinn 22. nóvember 2021 með sér að kærandi hafi raunverulega verið beðinn um bólusetningarvottorð við Covid-19 líkt og tölvubréf stoðdeildar, dags. 27. janúar 2022, ber með sér. Líkt og að framan greinir kom fram í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 21. janúar 2022, að hann væri ekki bólusettur gegn Covid-19. Þá liggur fyrir að lögmaður kæranda fyrir hans hönd óskaði eftir bólusetningarvottorði fyrir kæranda þegar ljóst var að hann væri ekki bólusettur gegn Covid-19.

Kærunefnd telur að líta verði svo á að fyrrnefndar tafir á málsmeðferðinni séu á ábyrgð kæranda, enda hélt hann því ranglega fram við stoðdeild að hann væri bólusettur við Covid-19 og óskaði einnig eftir vottorði um það. Þessi háttsemi kæranda olli töfum á málsmeðferðinni.

Kærunefnd tekur fram að flutningur umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu hér á landi í máli sínu er íþyngjandi ákvörðun og því eðlilegt að umsækjendur séu mótfallnir slíkum flutningi. Líkt og að framan greinir leið 12 mánaða fresturinn í máli kæranda hinn 8. desember 2021. Með framangreindri háttsemi sinni gerði kærandi framkvæmd endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi ómögulega innan tilgreindra tímamarka. Jafnvel þótt slík háttsemi kunni að vera skiljanleg, telur kærunefnd ljóst að hún felur í sér tafir af hálfu kæranda enda gerði hún stjórnvöldum ókleift að framkvæma flutning.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU21110035 frá 25. nóvember 2021, KNU21100053 og KNU21100054 frá 18. nóvember 2021 og KNU21080029, KNU21090040 og KNU21090066 frá 14. október 2021, tekur kærunefnd fram að í fyrrgreindum málum taldi kærunefnd að þau samskipti sem hafi átt sér stað milli kærenda og stoðdeildar hafi snúið að því að kanna almennt afstöðu kærenda til fyrirhugaðs flutnings til Grikklands. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telur kærunefnd málin því ekki vera sambærileg.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu er beiðni kæranda um frestun á framkvæmd, sbr. 5. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum