Hoppa yfir valmynd
30. maí 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hagnaður af rekstri samstæðu Flugstoða

Aðalfundur Flugstoða ohf. fór fram miðvikudaginn 27. maí þar sem fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf. Fram kom í ávarpi bæði samgönguráðherra og stjórnarformanns að mikilvægt væri að samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli kæmist í gagnið.

Frá aðalfundi Flugstoða 27, maí 2009.
Frá aðalfundi Flugstoða 27, maí 2009.

Ólafur Sveinsson, formaður stjórnar, og Þorgeir Pálsson forstjóri fóru yfir helstu atriði sem efst hafa verið á baugi á öðru starfsári Flugstoða. Árið 2008 hafi að flestu leyti verið Flugstoðum hagfellt þrátt fyrir þau áföll sem dundu yfir þjóðfélagið á síðasta ársfjórðungi þess. Flugumferð á Norður-Atlantshafi hafi enn aukist og flugumferð innanlands verið með besta móti þótt farþegafjöldi í innanlandsflugi hafi dregist heldur saman frá árinu 2007.
Lagði stjórnarformaður áherslu á að mikilvægt væri að koma upp samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll, sem jafnframt mundi þjóna sem flugstöð, enda væri flugvöllurinn miðpunktur innanlandsflugsins og mikilvægur varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Fyrri áformum varðandi umfang stöðvarinnar hafi verið breytt í samræmi við breyttar aðstæður í þjóðfélaginu.

Helstu megináherslur Flugstoða í náinni framtíð verða að halda áfram öflugri þróun flugstjórnarkerfisins í takt við þróun þessara mála í Evrópu og að byggja upp flugvellina og aðra innviði flugsamgöngukerfisins innanlands til að það uppfylli þær kröfur sem nú er gerðar til þeirra samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Áhersla verður lögð á að auka enn frekar tengslin við notendur og tryggja þannig að þjónusta Flugstoða sé í takt við þarfir flugsamgöngukerfisins og viðskiptavina fyrirtækisins.

Ekki urðu breytingar á aðalstjórn Flugstoða. Áfram sitja Ólafur Sveinsson, stjórnarformaður, Hilmar Baldursson og Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásgeir Magnússon og Margrét Kristmannsdóttir. Varamenn eru Steindór Haraldsson, Guðný María Jóhannsdóttir, Hreinn Pálsson, Áslaug Alfreðsdóttir og Guðrún Erlingsdóttir.
Sigrún Traustadóttir framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Flugstoða fór yfir helstu tölur í ársreikningi samstæðunnar og var hann að því loknu samþykktur. Fram kom að hagnaður var af rekstri samstæðunnar þótt innanlandsflugsamgöngukerfið hafi verið rekið með halla.

Erfitt verkefni í erfiðu árferði

Í lok fundarins tók Kristján Möller, samgönguráðherra til máls og sagði að það væri ljóst að Flugstoðir hafi staðið frammi fyrir erfiðu verkefni á síðasta ári þegar efnahagsástandið breyttist og nauðsynlegt var að draga úr þjónustu nokkurra flugvalla. Þjónustugæðin hefðu þó verið höfð að leiðarljósi en vegna efnahagsástandsins hefði reynst nauðsynlegt að meta hvar halda þyrfti uppi fullri þjónustu og hvar mætti draga úr.
Ráðherra sagði frá að starfshópur hefði verið skipaður til að kanna sameiningu Keflavíkurflugvallar og Flugstoða, en ekki yrði sameinað bara til þess að sameina, öll skref yrðu vel ígrunduð. Þá sagði hann fagnaðarefni að samningur milli Reykjavíkurborgar og samgönguráðuneytisins vegna Samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli væri í höfn og vonaðist til að verkið hæfist innan tveggja mánuða ekki ára. Mannvirkið væri mannfrekt verkefni sem væri gott á þessum tímum því verkið skapaði fleiri störf í þjóðfélaginu. Í lokin þakkaði ráðherra stjórn Flugstoða og starfsfólki þá vinnu sem unnin hefur verið við erfiða stöðu síðustu mánuði.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira