Hoppa yfir valmynd
8. júní 2009 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um Vaktstöð siglinga til umsagnar

Drög að breytingu á reglugerð um um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, nr. 672/2006 er nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu. Unnt er að koma á framfæri athugasemdum til 15. júní.

Frá árinu 2000 hefur verið í rekstri sjálfvirk tilkynningaskylda skipa (STK) og síðustu fjögur árin hafa bátar á STK hafsvæði (hafsvæðis A1) verið ferilvaktaðir með þeim búnaði í Vaktstöð siglinga. Ferilvöktun fiskiskipa er ekki bundin við neyðarvöktun eingöngu eins og gert var í upphafi sjálfvirku tilkynningaskyldunnar. Samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins um fjareftirlit nr. 770/2008 er öllum íslenskum skipum sem stunda fiskveiðar í atvinnuskyni utan sem innan fiskveiðilögsögu Íslands skylt að vera búin fjarskiptabúnaði, sem sendir með sjálfvirkum hætti á að minnsta kosti klukkustundar fresti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu upplýsingar um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips. Á grunnmiðum er STK kerfið nýtt í þessu skyni. Skip er stunda veiðar utan STK svæðis eru í ferilvöktun um gervihnetti þ.e. Inmarsat. Nýlega var tíðni sendinga frá þessum skipum aukin og er nú sent á klukkutíma fresti.

Árið 2004 hóf Siglingastofnun uppbyggingu landsstöðva sjálfvirks auðkenniskerfis skipa (AIS) í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2002/59/EB. Kerfið er byggt upp til að fylgjast með siglingu kaupskipa yfir 300 BT stærð og fiskiskipa sem eru 45 metrar að lengd eða meira. Nú hafa verið settar upp 23 slíkar stöðvar og er nú mestur hluti grunnmiða landsins innan drægi kerfisins. Fyrirséð er að enn þarf að setja upp um tug stöðva til að þétta gloppur í kerfinu næst landi. Nokkrar nýjar AIS landstöðvar eru á stöðum sem liggja hátt og langdrægi þeirra því mikil. Allar uppsettar AIS stöðvar, utan ein, eru einfaldar þ.e. aðeins er um eitt tæki að ræða á staðnum og ekkert til vara. Hinsvegar eru stöðvar sjálfvirka tilkynningarkerfis fiskiskipa (STK) að meirihluta tvöfaldar (70-80%).

Allmörg fiskiskip undir 45 m að lengd (núverandi viðmið EB) hafa nú þegar tekið í notkun AIS búnaðinn þrátt fyrir að þess hafi ekki verið krafist.

Megintilgangur reglugerðarinnar er að gera breytingar á ferilvöktun fiskiskipa og fjarskiptabúnaði þeirra. Með reglugerðinni er opnað fyrir það að frá og með 1. júlí 2009 geti skip sem búin eru DSC-VHF talstöð (að lágmarki D-tæki) sent tilkynningar um brottför og komu í höfn og staðsetningu sína gegnum auðkennikerfi skipa (AIS). Skip sem búin eru sjálfvirku tilkynningarkerfi skipa (STK) geta sent slíkar tilkynningar fram til 1. janúar 2011, en þá eiga öll skip að vera búin DSC-VHF talstöð og senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS-A tæki). Skipum 15 metrar og styttri að mestu lengd er þó heimilt að senda tilkynningar gegnum sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS-B tæki). Reglugerðin tekur mið af þeim kröfum sem gerðar eru til fiskiskipa um notkun á sjálfvirku auðkennikerfi (AIS) í nýrri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/17/EB frá 23. apríl 2009 um breytingu á tilskipun 2002/59/EB um vöktunar-, eftirlits- og upplýsingakerfi bandalagsins fyrir umferð á sjó.

Gerðar eru eftirfarandi tillögur að breytingum á fyrirkomulagi ferilvöktunar fiskiskipa (STK) og á fjarskiptabúnaði þeirra:

 

1.      Auglýst verði að komið verði á hafsvæði A1 við strönd landsins þar sem fyrir hendi eru nú VHF landstöðvar með DSC búnaði.    Reikna þarf með 6 mánaða   reynslu- / aðlögunartíma DSC kerfis áður en kerfið er komið í fulla notkun.  Miðað verði við að nýta árið  2009 til tilraunareksturs en ákvörðunin öðlist að fullu gildi 1. janúar 2010.

2.      Landstöðvar tilkynningaskyldunnar (STK) á grunnmiðum verði lagðar niður og tekin upp ferilvöktun með AIS búnaði í staðin. Samhliða rekstur kerfanna eigi sér stað í mesta lagi í 18 mánuði. Lagt er til að ákvörðun verði tekin sem fyrst og rekstri STK kerfisins verði hætt þann 1. janúar 2011.

3.      Frá 1. janúar 2010 verði öllum nýbyggðum bátum gert að vera búnir DSC búnaði á metrabylgju. Bátar sem þegar eru búnir  DSC búnaði á metrabylgju geti  innan skamms tíma  frá tilkynningunni um lokun STK komist í ferilvöktun með AIS búnaði.

4.      Við lokun STK – kerfisins  skulu allir bátar með haffæri fyrir A1 sem reknir eru í atvinnuskyni vera búnir bæði AIS og DSC búnaði.  Bátar sem falla munu undir reglur Evrópusambandsins, þ.e bátar sem eru yfir 15 metrar að lengd skulu búnir AIS tækjum af A-gerð en í bátum, sem eru 15 metrar og styttri og gerðir eru út í atvinnuskyni, er heimilt að hafa AIS tæki af B-gerð.

5.      Mælt er með að bátar, sem ekki eru reknir í atvinnuskyni, á hafsvæði A1 komi sér upp búnaði með DSC.

 

Með breytingu þeirri sem lýst er hér að framan eru ekki uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 53/2000  um að unnt sé að senda neyðarköll til lands með að minnsta kosti tveimur aðskildum og sjálfstæðum aðferðum, sem hvor um sig notar mismunandi fjarskiptakerfi. Hinsvegar er hægt með einu kerfi (VHF/DSC)  að senda  neyðarboði á tali og með neyðarhnappi með sama búnaði.

Á árinu 2009 verða í rekstri þrjú kerfi sem þjónað geta skipum / bátum á hafsvæði A1. Þetta eru sjálfvirka tilkynningarskyldan (STK), sjálfvirkt auðkennikerfi skipa (AIS) og fjarskiptakerfi með stafrænu valkalli DSC. Tvö þessara kerfa, þ.e. AIS og VHF / DSC búnaður í fjarskiptum eru alþjóðleg (IMO-samþykkt). Þriðja kerfið, STK, er sérsmíðað fyrir Ísland og er ekki framleitt lengur.  Það er því ljóst að veruleg þörf er á að einfalda kerfin.

Komi ofanritað til framkvæmda þarf að ljúka uppbyggingu AIS-kerfisins hið fyrsta og hefja tvöföldun stöðva þar sem þess er talin þörf. Einnig þyrfti að tvöfalda miðlægan gagnabúnað AIS-kerfisins. Kostnaður við uppbyggingu AIS-kerfisins til að nota það í ferilvöktun allra skipa er áætlaður um 95 milljónir króna miðað við fjölda stöðva hér að framan. Samkvæmt þeim upplýsingum er fá má úr skipaskrá munu vera um 800 skráð fiskiskip undir 15 m lengd. Miðað við að þau verði öll búin AIS B-tækjum væri kostnaðurinn miðað við meðalverð kr. 170 þús.pr./tæki, um 136 milljónir. Kostnaður við að útbúa skipin með AIS A-tækjum yrði hinsvegar um 480 milljónir. Það er því fjárhagslega mjög mikilvægt ef nýta má AIS B-tæki til ferilvöktunar í  bátum undir 15 m að lengd.

Ráðuneytið óskar umsagnar eins fljótt og verða má, í síðasta lagi fyrir 15. júní næstkomandi á netfangið [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum