Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Hundrað og fimmtíu milljónir máltíða gegnum smáforrit

Ljosmynd: WFP/Sayed Asif Mahmud - mynd

Frá því Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, opnaði smáforritið ShareTheMeal árið 2015 hafa 150 milljónir máltíða verið gefnar gegnum appið. Það byggir á þeirri einföldu hugmyndafræði að almenningur gefi máltíðir fyrir þá upphæð sem hver og einn hefur efni á – hvort sem það er ein stök máltíð eða máltíðir fyrir heilt ár.

Í íslenskum krónum kostar ein máltíð frá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna um 112 krónur – og þyrfti að fimmfalda þá upphæð til að eiga fyrir venjulegum kaffibolla á íslensku kaffihúsi. ShareTheMeal var frá upphafi ákaflega vel tekið og núna á dögunum var keypt hundrað og fimmtugasta máltíðin gegnum appið.

WFP fagnar þessum áfanga og segir í frétt ánægjulegt að ná þessum árangri nú þegar stofnunin horfi fram á mesta hungur í heiminum um langt árabil. Stefnt sé að því á þessu ári að ná til 152 milljóna manna og því hafi verið kallað eftir 22,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega þrjú þúsund milljörðum íslenskra króna. „Nú þegar 828 milljónir einstaklinga fara svangir að sofa á hverju kvöldi skiptir hvert framlag máli,“ segir í fréttinni.

Forritið gerir notendum kleift að gefa lífsnauðsynlega máltíð til barna og fjölskyldna út um allan heim. Notandinn velur landið sem á að fá fjárframlagið og WFP notar það til þess meðal annars að fjármagna átaksverkefni í skólamáltíðum, næringarverkefnum eða neyðaraðstoð.

Frá því ShareTheMeal kom út hafa einstaklingar í rúmlega 200 löndum gefið máltíðir gegnum appið, á 14 tungumálum og 52 gjaldmiðlum.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er ein af áherslustofnunum íslenskra stjórnvalda í mannúðarmálum og Ísland hefur meðal annars um langt árabil unnið með WFP að tryggja börnum í Malaví skólamáltíðir daglega.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum