Hoppa yfir valmynd
11. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 427/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 427/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070033

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. júlí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi fyrst veitt dvalarleyfi á Íslandi sem maki Íslendings 31. maí 2010 og fékk það leyfi endurnýjað einu sinni, með gildistíma til 5. maí 2012. Kærandi sótti svo um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið og fékk það útgefið með gildistíma frá 3. desember 2012 til 3. desember 2013. Fékk hann leyfið endurnýjað í þrjú skipti, nú síðast með gildistíma frá 16. mars 2016 til 15. mars 2018. Hinn 20. febrúar 2018 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018. Kæranda barst tilkynning um ákvörðunina 17. júlí 2018 og kærði ákvörðunina þann 19. júlí 2018 til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda vegna málsins.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar reifaði stofnunin þau skilyrði sem væru fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal þeirra skilyrða væri að umsækjandi sýndi að framfærsla hans hefði verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti framfleytt sér hérlendis með löglegum hætti, sbr. b-lið 1. mgr. 58. gr. laganna. Þegar trygg framfærsla sé metin þá styðjist stofnunin við lágmarksframfærslustuðul velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Líkt og fram komi í b-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga teljist greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga ekki til tryggrar framfærslu. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi því verið ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði ákvæðis b-liðar 1. mgr. 58. gr. um trygga framfærslu á dvalartíma sínum, þ.e. síðustu fjögur ár. Breyti þar engu þótt kærandi hafi náð lágmarksframfærslu [...] enda þurfi skilyrðið um trygga framfærslu að vera uppfyllt öll árin.

Þá vék Útlendingastofnun að því að með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting á að hann hafi lokið 67 kennslustunda námi í íslensku hjá Mími símenntum á tímabilinu febrúar 2012 til nóvember 2014. [...] Komi fram að kærandi hefði um tíma verið óvinnufær en hafi nú náð betri tökum á líðan sinni og sé kominn aftur á vinnumarkað. Sé það mat Útlendingastofnunar að undanþága 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga eigi ekki við í málinu. Kærandi fullnægi því ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi íslenskukunnáttu, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. 58. gr. hafi stofnunin ekki kannað frekar hvort kærandi fullnægði öðrum skilyrðum 58. gr. laganna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð í málinu. Með tölvupósti dags. 19. júlí 2018 óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Þar sem mál þetta varðar ekki mál skv. IV. kafla eða 74. gr. laga um útlendinga kom ekki til skoðunar að veita kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a- til e-liðum 1. mgr. 58. gr.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins skal útlendingur sýna fram á að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Í a-lið 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að í undantekningartilvikum sé heimilt að víkja frá kröfu um skilyrði vegna framfærslu, sbr. b-lið 1. mgr., ef hún hefur verið ótrygg um skamma hríð og ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við 58. gr. í frumvarpi því er síðar varð að núgildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 2. mgr. 58. gr. sé í a-lið gert ráð fyrir sams konar undanþágu og í 56. gr. laganna um framfærslu á umsóknartíma ef sýnt er að slíkt ástand sé tímabundið. Í lögskýringargögnum með 56. gr. segir m.a. að samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins geti ráðherra með reglugerð sett nánari reglur um framfærslu, þ.m.t. um hvað teljist trygg framfærsla, við hvaða upphæðir skuli miða, en þær skuli þó aldrei vera lægri en lágmarksframfærsla sveitarfélaga kveður á um, hvernig framfærslu skuli háttað, svo og í hvaða tilvikum heimilt sé að víkja frá reglunum. Ráðherra hefur ekki úfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla.

[...] Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna um trygga framfærslu á dvalartíma.Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að framfærsla kæranda hafi verið ótrygg um skamma hríð í skilningi a-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Í c-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er jafnframt gert að skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. c-lið síðastnefnds ákvæðis. Samkvæmt 9. mgr. 58. gr. setur ráðherra í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt í reglugerð að kveða á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu á íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er leyfilegt í reglugerð að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði og um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

Í 14. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað nánar um námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðahaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir. Í 2. mgr. 14. gr. er m.a. kveðið á um að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. um þátttöku í áðurnefndu námskeiði ef umsækjandi hefur náð viðhlítandi þekkingu í íslensku og leggur fram vottorð því til staðfestingar, ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og hefur búið hér á landi í a.m.k. sjö ár eða ef hann af líkamlegum eða andlegum ástæðum er ófær um að taka þátt í slíku námskeiði, eða ef umsækjandi getur lagt fram sönnur fyrir því að hann hafi lokið námi á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi á íslensku sem gefur tilefni til að ætla að viðkomandi hafi öðlast fullnægjandi færni í íslensku.

Líkt og rakið er í hinni kærðu ákvörðun er ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur ekki lokið námskeiði í íslensku í samræmi við ákvæði 58. gr. laga um útlendinga og 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt læknisvottorði [...]. Þá kemur fram kærandi hafi um tíma verið óvinnufær en hafi nú náð betri tökum á líðan sinni og sé kominn aftur á vinnumarkað. Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi 67 kennslustundum í námskeiði í íslensku á tímabilinu febrúar 2012 til nóvember 2014. Að mati kærunefndar benda gögn málsins, þ.m.t. framangreint læknisvottorð, ekki til þess að kærandi hafi verið ófær um að stunda nám á meðan á dvalartíma hans hér hefur staðið. Voru aðstæður kæranda því ekki slíkar að hann hafi verið andlega ófær um að taka þátt og ljúka námskeiði í íslensku fyrir útlendinga í skilningi 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Telst kærandi því ekki uppfylla skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki gilt dvalarleyfi hér á landi. Til þess að kærandi eigi rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þarf hann að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi sínu innan 15 daga frá móttöku þessa úrskurðar. Leggi kærandi ekki fram umsókn um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun innan þess frests ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a. lið 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                               Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum