Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2004 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aðild Íslands að Evrópska sameindalíffræðirannsóknastofnuninni EMBL

Stjórn stofnunarinnar samþykkti umsókn Íslands á fundi sínum nýverið.

Íslendingar hafa nú gerst aðilar að Evrópsku sameindalíffræðirannsóknastofnuninni EMBL (European Molecular Biology Laboratory). Stjórn stofnunarinnar samþykkti umsókn Íslands á fundi sínum 16. nóvember sl. Menntamálaráðuneytið sótti um aðild að EMBL að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs. Íslendingar eru 18. aðildarlandið að þessu samstarfi.

Aðalrannsóknastofnun EMBL er staðsett í Heidelberg í Þýskalandi en jafnframt fer fram starfsemi á hennar vegum í Hinxton á Bretlandi, Grenoble í Frakklandi, Hamborg í Þýskalandi og í Monterotondo á Ítalíu. Að rannsóknum við EMBL starfa 80 sérhæfðir og sjálfstæðir hópar vísindamanna. Mörg verkefni sem unnin hafa verið við stofnunina hafa valdið vatnaskilum í sameindalíffræðinni. Má m.a. nefna fyrstu erfðafræðilegu greininguna á fósturþroska en þær rannsóknir færðu tveimur vísindamönnum við stofnunina Nóbelsverðlaun árið 1995. Við stofnunina er lögð stund á grunnrannsóknir í sameindalíffræði, þróun aðferða og tækja sem eru notuð í lífvísindum, þjónustu við vísindamenn á þessu sviði og vaxandi áhersla er lögð þjálfun vísindamanna og nemenda sem lengra eru komnir.

Með aðild Íslands að EMBL hafa verið sköpuð tækifæri fyrir hérlenda vísindamenn hjá fyrirtækjum og stofnunum til þess að taka þátt í verkefnum með fremstu vísindamönnum á þessu sviði og nota til þess bestu mögulega aðstöðu og búnað. Þetta er sérlega mikilvægt í ljósi þess að rannsóknir í lífvísindum, m.a. erfðafræði og líftækni, eru það svið rannsókna sem mest hefur vaxið hér á landi á undanförnum árum. Með aðildinni eru jafnframt skapaðar forsendur til þess að byggja upp rannsóknargetu hér á landi vegna þess að nemum í framhaldsnámi gefst kostur á að taka hluta að námi sínu við stofnanir EMBL. Þá er sérstök ástæða til að vekja athygli á því að stórt verkefni á vegum EMBL snýst um samstarf við kennara í framhaldsskólum og grunnskólum til þess að aðstoða við gerð kennsluefnis og að setja fram nýjar niðurstöður fyrir nemendur á þessum skólastigum. Þessi áhersla er í samræmi við þá viðleitni menntamálaráðuneytis að auka áhuga nemenda í grunn- og framhaldsskólum á raunvísindum.

Í janúar á næsta ári er gert ráð fyrir sérstöku kynningarátaki á EMBL hér á landi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum