Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2006

A

gegn

Háskólanum á Akureyri

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 26. september 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru móttekinni 29. mars 2006, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Háskólinn á Akureyri hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu karlmanns í starf lektors í fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulagi á fjölmiðlum við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, en ákvörðun um ráðninguna var tekin í apríl 2005.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Háskólanum á Akureyri með bréfi, dags. 6. apríl 2006. Umsögn Háskólans á Akureyri barst með bréfi, dags. 11. maí 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 28. maí 2006. Voru síðastnefndar athugasemdir kæranda sendar Háskólanum á Akureyri til kynningar með bréfi, dags. 31. maí 2006. Athugasemdir Háskólans á Akureyri bárust með bréfi, dags. 16. júní 2006, og hafa þær verið sendar kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir hafa borist kærunefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Háskólinn á Akureyri auglýsti í apríl 2004 lausa til umsóknar stöðu lektors á sviði fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulags á fjölmiðlum við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Í auglýsingu um starfið sagði meðal annars að umsækjandi skyldi sýna fram á hæfni til að kenna og leiðbeina nemendum og að stunda rannsóknir. Nauðsynlegt væri að umsækjandi hefði víðtæka starfsreynslu af íslenskum fjölmiðlum og þekkti vinnubrögð þeirra, sérstöðu og starfsaðferðir. Krafist væri grunnprófs og framhaldsgráðu í fjölmiðlafræði og/eða einhverri grein félagsvísinda á tengdu sviði, til dæmis stjórnmálafræði eða félagsfræði. Doktorspróf á tengdu sviði væri æskilegt. Kennt yrði á íslensku og ensku auk þess sem kunnátta í fleiri tungumálum væri æskileg. Kennslureynsla á háskólastigi og birting fræðirita væri auk þess æskileg. Umsækjendur um starfið voru tveir, kærandi og sá karlmaður er var ráðinn. Að áliti dómnefndar sem gaf umsögn um hæfi umsækjenda voru þau bæði talin hæf til að gegna umræddri stöðu. Stöðunefnd félagsvísinda- og lagadeildar mælti eindregið með karlmanni þeim sem ráðinn var í starfið.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun rektors um ráðningu í viðkomandi starf við félagsvísinda- og lagadeild og var sá rökstuðningur veittur með bréfi Háskólans á Akureyri, dags. 17. maí 2005.

Í kæru til kærunefndarinnar kemur fram að kærandi telji sig standa þeim sem ráðinn var framar hvað varðar menntun, rannsóknir og kennslureynslu. Kærandi telur sig þar af leiðandi vera hæfari til að gegna starfi lektors í fjölmiðlafræði en sá sem ráðinn var. Af hálfu Háskólans á Akureyri er því mótmælt að umsækjendum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis. Sá sem var ráðinn hafi uppfyllt öll skilyrði auglýsingar um starfið varðandi menntun og reynslu. Hann hafi að mati stöðunefndar félagsvísinda- og lagadeildar verið talinn hæfari en kærandi til að gegna starfinu, meðal annars með vísan til víðtækrar starfsreynslu sem hafi verið tiltekin sem skilyrði samkvæmt auglýsingu um starfið.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Sjónarmið kæranda eru ítarlega rakin í skriflegri kæru til kærunefndar jafnréttismála og í athugasemdum sem sendar hafa verið nefndinni.

Af hálfu kæranda er meðal annars vísað til þess að Háskólinn á Akureyri hafi lítið gert til þess að auglýsa umrædda stöðu. Fyrir utan auglýsingu sem birt var á svokölluðu starfatorgi fjármálaráðuneytisins, hafi verið birtar tvær einnar línu auglýsingar á starfatorgsyfirliti í Morgunblaðinu. Ljóst hafi verið að Háskólanum á Akureyri væri ekki kappsmál að fá sem flestar umsóknir um starfið.

Þá er á því byggt af hálfu kæranda að sá sem var ráðinn hafi B.A.-gráðu í sagnfræði og stjórnmálafræði ásamt meistaraprófi í stjórnmálafræði. Hann hafi verið aðjúnkt við Háskólann á Akureyri um skamma hríð er umrætt starf hafi verið auglýst. Auk meistararitgerðar hafi hann ritað eina bók um staðbundna fjölmiðla. Hann hafi jafnframt langa reynslu af blaðamennsku.

Kærandi hafi á hinn bóginn B.S.-gráðu í blaðamennsku, M.A.-gráðu í fjölmiðlafræði, doktorspróf í fjölmiðlafræði, viðbótarnám í hnattrænni og rafrænni blaðamennsku og kennsluréttindi á framhaldsskólastigi. Kærandi hafi verið lektor í hagnýtri fjölmiðlun við félagsvísindadeild Háskóla Íslands í fimm ár og hafi jafnframt verið aðalumsjónarmaður námsins á sama tíma. Samkvæmt stigamatskerfi Háskóla Íslands hafði hún haft á þriðja hundrað rannsóknastiga í lok árs 2004. Kærandi hafi minni reynslu af blaðamennsku en sá sem ráðinn var en aftur á móti megi benda á að hún hafi aflað sér góðrar reynslu af því að kenna greinina og hafi meðal annars setið fundi erlendis um framtíð náms í blaðamennsku.

Sá sem ráðinn var hafi enga háskólamenntun hlotið í því fagi sem hann var ráðinn til að kenna, hvorki í blaðamennsku né fjölmiðlafræði. Hann hafi auk þess minni reynslu af kennslu á háskólastigi og mun minni reynslu af rannsóknum en kærandi. Kærandi telji óumdeilt að vegna menntunar sinnar, rannsókna og kennslureynslu hafi hún staðið þeim karlmanni sem ráðinn var framar og verið hæfari til að gegna starfi lektors í fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulagi á fjölmiðlum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi konur verið þriðjungur fastráðinna kennara (lektora, dósenta og prófessora) við íslenska háskóla í mars árið 2004, eða um 205 talsins. Á sama tíma hafi 400 karlar gegnt fastri stöðu háskólakennara. Karlar hafi því verið tvöfalt fleiri en konur. Þó konur hafi verið aðeins fleiri en karlar meðal lektora beri að hafa í huga að innan háskólasamfélagsins ríki framgangskerfi og til að jafna stöðu karla og kvenna meðal fastráðinna kennara þurfi að ráða mun fleiri konur en karla sem lektora. Í 13. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segi: „Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.“ Háskólinn á Akureyri hafi því brotið gegn 1. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000 með ráðningu karlmanns í stöðu lektors í fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulagi á fjölmiðlum í aprílmánuði 2005.

Í bréfi deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri til rektors Háskólans á Akureyri, þar sem mælt er með þeim karlmanni sem ráðinn var í lektorsstöðuna, segi að deildarmenn telji að reynsla og sérþekking þess sem var ráðinn á sviði hagnýtrar fjölmiðlunar vegi í þessu tilviki þyngra en doktorspróf og fræðilegar birtingar kæranda. Sé það niðurstaða félagsvísinda- og lagadeildar að umsókn þess sem var ráðinn svari best þörfum deildarinnar fyrir kennara til þess að leiða uppbyggingu náms í fjölmiðlafræði með áherslu á hagnýtt gildi námsins og tengsl við atvinnulíf og landsbyggð. Í sama bréfi komi einnig fram að bæði fræðilegi hluti námsins og þjálfunin hafi tengst starfandi fjölmiðlum á Akureyri og á landsvísu. Ráðning þess karlmanns sem fengið hafi stöðuna sé því rökstudd með „sérþekkingu hans“ án þess að sú sérþekking sé nánar skilgreind, og tengslum hans við Akureyri, en í auglýsingu um starfið hafi þess ekki verið getið að umsækjendur þyrftu að hafa tengsl við Akureyri og landsbyggðina.

Í dómnefndaráliti komi fram að kærandi hafi verið lektor í hagnýtri fjölmiðlun frá 1. ágúst 1998 til 1. ágúst 2003. Þess sé hins vegar hvorki getið síðar í dómnefndarálitinu né í bréfi deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar til rektors, þar sem aðeins sé vísað til þess að kærandi hafi starfað sem lektor. Í dómnefndarálitinu sé ekki einu sinni gert ráð fyrir að lektor í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands þekki vinnubrögð á fjölmiðlum, sérstöðu þeirra og starfsaðferðir fjölmiðlafólks. Það hafi því verið reynt að gera eins lítið úr þekkingu kæranda á blaðamennsku og kostur hafi verið.

Kærandi telji að hún hafi aflað sér talsverðrar sérþekkingar á „sviði hagnýtrar fjölmiðlunar“ með grunnháskólaprófi sínu í blaðamennsku, 15 eininga viðbótarnámi í netblaðamennsku, reynslu sinni af störfum á dagblaði og ekki síst fimm ára reynslu sinni af umsjón náms í hagnýtri fjölmiðlun og að kenna blaðamennsku sem hagnýtt fag á háskólastigi, en margir fyrrum nemenda kæranda séu nú starfandi blaða- og fréttamenn á öllum helstu fjölmiðlum landsins. Það lýsi vanþekkingu deildarmanna félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri á störfum blaðamanna og á námi í blaðamennsku að þeir telji að sá sem ómenntaður sé í blaðamennsku, en með áratuga reynslu að baki, sé hæfari til að kenna hana en sá sem hafi háskólapróf í greininni en hafi minni hagnýta reynslu að baki. Það hafi enn fremur verið ótrúleg lítilvirðing við fjölmiðlafræðina sem fræðigrein að ætla að nánast hver sem er geti kennt hana án þess að hafa til þess tilskilda menntun.

Kærandi hafi ekki verið boðaður í viðtal vegna starfsumsóknar sinnar og aldrei hafi verið leitað eftir upplýsingum frá henni um hvernig hún hygðist mynda tengsl milli tilvonandi nemenda sinna við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri og atvinnulífsins, þ.e. fjölmiðla á Akureyri, eða hvort hún hafi yfirleitt ætlað að flytja sig um set og setjast að norðan heiða. Rök Háskólans á Akureyri fyrir ráðningu í starfið þess efnis að svokölluð „sérþekking“ þess sem var ráðinn og tengsl hans við Akureyri og landsbyggðina hafi ráðið niðurstöðunni séu því fremur hæpin. Háskólinn á Akureyri hafi af þeim sökum brotið gegn 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 með ráðningunni.

 

IV.

Sjónarmið Háskólans á Akureyri

Af hálfu Háskólans á Akureyri er á því byggt að starf lektors við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri hafi verið auglýst í samræmi við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 3. gr. reglna nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum. Að auki, og umfram það sem framangreindar reglur kveði á um, hafi starfið verið auglýst undir merkjum Háskólans á Akureyri með sérstakri auglýsingu í Morgunblaðinu. Þeirri staðhæfingu kæranda að lítið hafi verið gert til að auglýsa starfið sé því vísað á bug.

Auglýsingin fyrir starfið hafi birst á starfatorgi fjármálaráðuneytisins og hafi jafnframt birst í yfirliti starfatorgsins um laus störf í Morgunblaðinu í samræmi við verklagsreglur starfatorgsins. Auglýsingin hafi birst á starfatorginu þann 23. apríl 2004 og í yfirliti í Morgunblaðinu hinn 25. apríl 2004. Þessi háttur sé í samræmi við reglur fjármálaráðuneytis um auglýsingar á lausum störfum nr. 464/1996. Lektorstaða sem hér um ræði hafi verið auglýst á sama hátt og mörg önnur störf við skólann.

Efni auglýsingarinnar hafi verið í samræmi við fyrrnefndar reglur um auglýsingar á lausum störfum og tiltekið hvaða menntun umsækjendur þyrftu að hafa, þ.e. grunnpróf og framhaldsgráðu í fjölmiðlafræði og/eða einhverri grein félagsvísinda á tengdu sviði, svo sem stjórnmálafræði eða félagsfræði. Að auki hafi verið gerð krafa um víðtæka starfsreynslu af íslenskum fjölmiðlum, vinnubrögðum þeirra, sérstöðu og starfsaðferðum. Doktorspróf hafi verið talið æskilegt en ekki skilyrði. Auk þessa hafi tungumálakunnátta verið talin æskileg. Af þessu megi vera ljóst að fullyrðingar kæranda að auglýsingin hafi verið sérsniðin að þeim sem var ráðinn séu órökstuddar og staðhæfulausar dylgjur.

Ekki sé heimilt að ráða umsækjanda í starf nema hann uppfylli öll þau skilyrði sem fram komi í auglýsingu um starfið, þ.e. að umsækjandi verði að uppfylla þá þætti sem taldir séu nauðsynlegir. Þeir þættir sem talið sé æskilegt að umsækjendur hafi komi fyrst til álita við val milli umsækjenda sem uppfylli nauðsynleg skilyrði.

Samkvæmt 5. mgr. 3. gr. laga nr. 40/1999 um Háskólann á Akureyri sé það hlutverk dómnefndar að gefa rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni megi veita stöðu prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. reglna um Háskólann á Akureyri frá 3. desember 1999 megi þá eina ráða sem fasta kennara sem lokið hafi fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í aðalgrein þeirri eða tengdri grein er þeir eiga að kenna. Samkvæmt 4. mgr. sé það rektor sem ráði kennara háskólans. Ef staða prófessors, dósents eða lektors er auglýst og fleiri en einn umsækjandi fá hæfisdóm skal rektor leita umsagnar viðkomandi deildar eða deilda áður en hann ræður í stöðuna.

Rétt sé að minna á að í starfsauglýsingu hafi verið gerð krafa um grunnpróf og framhaldsgráðu í fjölmiðlafræði og/eða einhverri grein félagsvísinda á tengdu sviði, svo sem stjórnmálafræði eða félagsfræði. Að auki hafi verið gerð krafa um víðtæka starfsreynslu af íslenskum fjölmiðlum, vinnubrögðum þeirra, sérstöðu og starfsaðferðum.

Þrátt fyrir að kærandi standi þeim sem var ráðinn framar hvað fræðilega þætti varði þá standi sá sem var ráðinn kæranda framar hvað hagnýta þætti varði.

Við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri séu starfandi 14 lektorar að þeim undanskildum sem ráðinn var. Kynjaskiptin sé jöfn, þ.e. sjö konur og sjö karlar. Ekki verði því séð að við ráðningu í starfið hafi Háskólinn á Akureyri átt að taka tillit til 13. gr. laga nr. 96/2000 þar sem kynjahlutföll lektora í deildinni hafi ekki gefið tilefni til þess. Fráleitt sé að taka mið af heildarfjölda háskólakennara á Íslandi, enda beinist umrædd ákvæði jafnréttislaga að því að tryggja jafnan hlut kynjanna innan stofnunar og starfsstéttar.

Háskólinn á Akureyri fallist því ekki á að umsækjendum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis. Hvorki séu því efni til að líta svo á að Háskólinn hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 við ráðningu í starfið né að mat deildar hafi verið ómálefnanlegt.

Sú fullyrðing kæranda að fyrirfram hafi verið ákveðið hver skyldi hljóta stöðuna sé órökstudd og alröng.

Varðandi þá málsmeðferð að boða umsækjendur ekki í viðtal þá sé hún í samræmi við það verklag sem almennt tíðkist þegar verið sé að ráða lektora til starfa. Umsækjendum sé almennt ekki boðið að koma í viðtal og sé það verklag sem Háskólinn á Akureyri viðhafi en vitað sé að sama verklag gildi við ráðningar í störf sem krefjast hæfisdóms við Háskóla Íslands.

Fyrir liggur í gögnum málsins að sá sem ráðinn var hafi lokið B.A.-prófi í sagnfræði og stjórnmálafræði frá háskóla í Englandi og M.A.-prófi frá háskóla í Kanada auk þess sem hann hafi lokið 25 einingum við uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands. Sá sem ráðinn var hafi verið aðjúnkt við rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri frá árinu 2002.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf lektors í fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulagi á fjölmiðlum við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, en ráðið var í stöðuna í aprílmánuði 2005.

Staða sú sem hér um ræðir var auglýst á starfatorgi fjármálaráðuneytisins sem háskólakennarastaða við Háskólann á Akureyri. Í nánari tilgreiningu starfsins kom fram að um væri að ræða stöðu lektors á sviði fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulags á fjölmiðlum. Gerð var sú krafa til umsækjenda að viðkomandi gæti sýnt fram á hæfni til að kenna og leiðbeina nemendum og stunda rannsóknir á framangreindum sviðum. Tekið var fram að nauðsynlegt væri að umsækjendur hefðu víðtæka starfsreynslu af íslenskum fjölmiðlum og þekktu vinnubrögð þeirra, sérstöðu og starfsaðferðir. Jafnframt var tekið fram að krafist væri grunnprófs og framhaldsgráðu í fjölmiðlafræði og/eða einhverri grein félagsvísinda á tengdu sviði, til dæmis stjórnmálafræði eða félagsfræði. Doktorspróf á tengdu sviði var talið æskilegt. Í umsókn skyldi meðal annars gera grein fyrir náms- og starfsferli, vísindastörfum og kennslureynslu.

Í umsögn dómnefndar um umsækjendur um stöðuna, kæranda og karlmann sem ráðinn var, kom fram að bæði teldust þau hæf til að gegna umræddri stöðu. Í umsögn deildarforseta félagsvísinda- og lagadeildar til rektors Háskólans á Akureyri vegna ráðningar í stöðuna kom meðal annars fram að þegar til alls væri litið teldi deildin kæranda standa karlmanninum nokkru framar hvað fræðilega þætti varðaði, en að karlmaðurinn stæði kæranda talsvert framar hvað hagnýta þætti varðar. Töldu deildarmenn að reynsla og sérþekking karlmannsins á svið hagnýtrar fjölmiðlunar vegi í þessu sambandi þyngra en doktorspróf og fræðilegar greinar sem kærandi hafði fengið birtar. Kom fram í bréfi deildarforseta að það væri niðurstaða deildarinnar að ráðning karlmannsins félli best að þörfum deildarinnar fyrir kennara til þess að leiða uppbyggingu náms í fjölmiðlafræði með áherslu á hagnýtt gildi námsins og tengsl við atvinnulíf og landsbyggð. Í erindum rektors Háskólans á Akureyri til kærunefndar jafnréttismála er ráðning karlmannsins studd sömu rökum og að framan greinir að þessu leyti til.

Í kæru til kærunefndar jafnréttismála byggir kærandi á því að sá sem ráðinn var hafi enga háskólamenntun hlotið í því fagi sem um ræðir, hvorki í blaðamennsku né í fjölmiðlafræði, en kærandi hafi B.S.-gráðu í blaðamennsku og M.A.-gráðu og doktorspróf í fjölmiðlafræði. Þá hafi sá sem ráðinn var minni reynslu af kennslu á háskólastigi og mun minni reynslu af rannsóknum en kærandi. Þá vekur kærandi sérstaka athygli á því að kærandi telji sig hafa aflað sér talsverðrar sérþekkingar á sviði hagnýtrar fjölmiðlunar með grunnháskólaprófi sínu í blaðamennsku, viðbótarnámi í netblaðamennsku, reynslu sinni af störfum á dagblaði og ekki síst af fimm ára reynslu sinni af umsjón náms í hagnýtri fjölmiðlun og af að kenna blaðamennsku sem hagnýtt fag á háskólastigi. Fellst kærandi ekki á það með Háskólanum á Akureyri að líta megi svo á að sá sem sé ómenntaður í blaðamennsku en með áratuga reynslu sé hæfari til að kenna hana en sá sem hefur háskólapróf í greininni en með minni hagnýta reynslu að baki.

Tilvísað lektorsstarf er á sviði innan félagsvísinda- og lagadeildar háskólans og ber heitið fjölmiðlafræði, fjölmiðlarýni og vinnulag á fjölmiðlum. Var í auglýsingu vegna starfsins tiltekið að viðkomandi þyrfti að búa yfir hæfni til að kenna og leiðbeina nemendum og að stunda rannsóknir á framangreindum sviðum, og að nauðsynlegt væri að viðkomandi hefði víðtæka reynslu af íslenskum fjölmiðlum og þekkti vinnubrögð þeirra, sérstöðu og vinnuaðferðir.

Við ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að sá sem með ráðningarvald fer skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja ef ekki er mælt sérstaklega fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Leiði þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar ekki til sömu niðurstöðu verður enn fremur að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi ráðningaraðila á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli þá lögð. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan þó að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeim öðrum eiginleikum sem talið er að skipti máli við rækslu starfans. Þó verður að játa atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, samanber til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 121/2002 og 330/2003.

Svo sem rakið hefur verið var í auglýsingu um starfið, auk kröfu um hæfni til að kenna og leiðbeina nemendum og til að stunda rannsóknir, tiltekið að nauðsynlegt væri að viðkomandi hefði víðtæka starfsreynslu af íslenskum fjölmiðlum. Í umsögn forseta félagsvísinda- og lagadeildar til rektors Háskólans á Akureyri kom fram að við skilgreiningu starfsins og í auglýsingu um það hefði verið lögð áhersla á slíka starfsreynslu og að sú áhersla hafi verið eðlileg með tilliti til þess að fjölmiðlafræði sé starfsgrein jafnt sem fræðigrein. Þá var tekið fram að þótt fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri byggi á fræðilegum grunni feli það ekki síður í sér þjálfun í starfi fjölmiðlamanna og að bæði fræðilegi hluti námsins og þjálfunin tengist starfandi fjölmiðlum á Akureyri og á landsvísu. Að mati deildarinnar var talið að karlmaður sá sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar að því er framangreint varðar. Þótt kærandi hafi haft nokkra reynslu sem blaðamaður væri sú reynsla ekki sambærileg við starfsreynslu karlmannsins sem ekki hafi eingöngu starfað sem fjölmiðlamaður heldur hafi hann meðal annars tekið drjúgan þátt í mótun og stjórn fagstéttarinnar hér á landi, til dæmis með setu í stjórn Blaðamannafélags Íslands. Karlmaðurinn hafi því staðið kæranda framar hvað umrædda hagnýta þætti varðar.

Líta verður svo á að bæði kærandi og sá sem ráðinn var hafi uppfyllt þær formlegu kröfur sem gerðar voru til starfsins, meðal annars þá að viðkomandi hefði grunnpróf og framhaldsgráðu í fjölmiðlafræði eða einhverri grein félagsvísinda á tengdu sviði. Telja verður á hinn bóginn óumdeilt að kærandi hafi aflað sér meiri menntunar en sá sem ráðinn var, en kærandi hafði meðal annars lokið doktorsprófi í fjölmiðlafræði. Þá má telja að kærandi hafi haft umtalsverða almenna reynslu af fjölmiðlum, bæði vegna starfa sinna á fjölmiðli og vegna kennslu sinnar í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Á hinn bóginn verður að fallast á það að sá sem ráðinn var hafi á löngum starfsferli sínum sem blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri öðlast mikla reynslu á sviði íslenskrar fjölmiðlunar, sem og reynslu varðandi vinnubrögð og starfsaðferðir. Telja megi þessa reynslu hans meiri en þá reynslu sem kærandi hefur á þeim sviðum.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að líta megi svo á að sá sem ráðinn var hafi haft meiri og víðtækari reynslu en kærandi. Jafnframt verður ekki hrakið það mat Háskólans á Akureyri að sú reynsla hafi getað talist mikilsverð í því starfi sem hér um ræðir, meðal annars við að leiða uppbyggingu náms í fjölmiðlafræði með áherslu á hagnýtt gildi námsins og tengsl við atvinnulíf. Háskólinn á Akureyri vísar til þess í rökstuðningi sínum vegna ráðningar í starfið að reynsla þess sem ráðinn var hafi haft úrslitaþýðingu varðandi ákvörðun um ráðninguna.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það álit kærunefndar jafnréttismála að þau rök teljist málefnaleg eins og hér stendur á og því verði ekki talið að kynferði kæranda hafi ráðið því að hún hlaut ekki umrætt starf.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira