Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg semja um móttöku flóttafólks

Árni Magnússon félagsmálaráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri undirrituðu í dag samning um móttöku og þjónustu við flóttafólk á næsta ári. Um er að ræða samvinnuverkefni félagsmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Rauða kross Íslands. Reykjavíkurborg hefur þegar undirritað samstarfssamning við Rauða Kross Íslands.

Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum tekið reglubundið á móti hópum flóttafólks og hafa alls komið til landsins 247 flóttamenn frá árinu 1996. Ákvörðun um hvaðan fólkið kemur er ævinlega tekin í nánu samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og hafa eintaklingarnir allir verið viðurkenndir sem flóttamenn samkvæmt viðmiðum Sameinuðu þjóðanna.  Félagsmálaráðuneyti hefur hverju sinni gert samning við sveitarfélögin um þjónustu og aðstoð við fólkið og er nú komið að Reykjavík.

Flóttafólkið í ár er alls 31 einstaklingur, eða sjö fjölskyldur.  Þau eru öll búsett í Reykjavík og njóta þjónustu Reykjavíkurborgar.Flest koma frá Kólumbíu eða 24 einstaklingar en ein fjölskylda er frá Kósovo.   Börnin eru alls 18, þar af eru þrjú leikskólabörn.  Fullorðnir eru 13, þar af fimm ungmenni á aldrinum 18 til 23 ára, en elsti einstaklingurinn er 73 ára. 

Félagsmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg semja um móttöku flóttafólksFólkið hefur undanfarin ár verið á flótta undan stríðsátökum í heimalöndum sínum og afleiðingum þeirra, en hefur nú dvalið á Íslandi um nokkurt skeið. Það hefur sýnt sterkan  vilja til að aðlagast nýju heimalandi, stundar  íslenskunám af kappi og hefur mikinn áhuga á að fræðast um íslenskt samfélag. Börnin hafa aðlagast nýjum aðstæðum mjög vel, þau taka þátt í skólastarfi, stunda íþróttir og hafa eignast hér  vini.

Fullorðnir eru í íslenskukennslu og læra um íslenskt samfélag hjá Mími símenntun. Grunnskólabörnin eru öll í Austurbæjarskóla og þau eldri í nýbúadeild Iðnskólans. Bæði Austubæjarskóli og Iðnskólinn hafa sérhæft sig í að taka á móti einstaklingum af erlendu bergi brotnu.

Gert er ráð fyrir að þau fullorðnu fari út á vinnumarkaðinn að loknu sex mánaða íslenskunámi. 

Íbúar borgarinnar hafa tekið mjög vel á móti flóttafólkinu og eiga fjölskyldurnar sjö öflugan hóp stuðningsfjölskyldna. Stuðningsfjölskyldurnar eru sjálfboðaliðar á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða krossins sem hafa opnað heimili sín fyrir flóttafókinu og eru þeim stoð og stytta í aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Starf stuðningsfjölskyldnanna er ómetanlegt fyrir verkefnið.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum