Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2005 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað hinn 6. október 2005 upp úrskurð í máli Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að skilmálar í veðskuldabréfum fjármálafyrirtækja um svonefnt uppgreiðslugjald fari ekki í bága við 16. gr. laga um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum.

Í ljósi þeirrar niðurstöðu hefur félagsmálaráðherra fallist á tillögu stjórnar Íbúðalánasjóðs um að veita sjóðnum heimild, með stoð í 3. mgr. 23. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, til þess að bjóða lántakendum íbúðalán gegn lægra vaxtaálagi en ella væri heimilt. Almennt vaxtaálag ÍLS-veðbréfa verður áfram óbreytt, 0,60% af lánsfjárhæð, en ef lántaki kýs að afsala sér rétti til að greiða veðbréfið upp fyrir lok lánstíma verði Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða lægra álag. Félagsmálaráðherra hefur í þessu skyni undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum, þar sem framangreint fyrirkomulag er heimilað.

Ráðuneytið hefur jafnframt ritað Íbúðalánasjóði bréf þar sem fallist er á framkomna tillögu um valkvætt vaxtaálag. Almennt vaxtaálag ÍLS-veðbréfa verður því áfram 0,6% af lánsfjárhæð þar til annað verður ákveðið en sjóðnum verður einnig heimilt að bjóða 0,35% vaxtaálag þeim lántakendum sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér rétti til uppgreiðslu fyrir lok lánstíma. Ákveði lántaki samt sem áður að greiða veðbréfið að hluta eða að öllu leyti fyrir lok lánstíma greiðir hann sérstaka uppgreiðsluþóknun samkvæmt gjaldskrá sjóðsins sem nemur mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og vaxta sambærrilegra nýrra lána ef þeir eru lægri. Hefur ráðherra undirritað nýja reglugerð um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs þar sem kveðið er nánar á um uppgreiðsluþóknunina.

Íbúðalánasjóður mun upplýsa lántakendur um kosti þess og galla að afsala sér uppgreiðslurétti. Er gert ráð fyrir að sjóðurinn útbúi í þessu skyni upplýsingaefni sem birt verði á vef sjóðsins og með öðrum hætti sem sjóðurinn ákveður þar sem m.a. verði að finna dæmi um mögulegan kostnað lántaka af uppgreiðslugjaldi.

Framangreindar breytingar taka gildi 23. nóvember 2005.

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum.

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglugerð um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs.

Skjal fyrir Acrobat ReaderÚrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 11/2005 Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin gegn Neytendastofu  

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum