Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2019 Forsætisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins samþykkt í ríkisstjórn

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag. Dregið verður úr losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi Stjórnarráðsins auk þess sem öll losun verður kolefnisjöfnuð þegar í ár og meira til. Stefnan tekur til allra tíu ráðuneyta Stjórnarráðsins og Rekstrarfélags Stjórnarráðsins þess auk þess sem gerðar eru kröfur til ríkisstofnana um aðgerðir í loftslagsmálum.

Markmiðið með loftslagsstefnunni er að Stjórnarráðið verði til fyrirmyndar í loftslagsmálum og bindi meiri koltvísýring en það losar. Stjórnarráðið mun draga úr losun sinni á CO2 samtals um 40% til ársins 2030 með því að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti í starfsemi ráðuneyta:

  • flugferðir erlendis og innanlands með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag.
  • ferðir starfsmanna til og frá vinnu með vistvænum samgöngum.
  • akstur á vegum ráðuneyta - með endurnýjun eigin bifreiða og kröfum til bílaleiga og leigubíla um bifreiðar án jarðefnaeldsneytis.
  • úrgang - með minni sóun og aukinni flokkun.
  • orkunotkun - með orkusparnaðaraðgerðum.
  • máltíðir í mötuneytum.

Loftslagsstefnan gildir til ársins 2030 og er ekki einungis ætlað að hafa bein áhrif á þá starfsemi sem undir hana fellur heldur einnig margfeldisáhrif. Stjórnarráðið mun gera samninga við bílaleigur um að nýta visthæfa bíla og jafnframt verður óskað sérstaklega eftir visthæfum leigubílum. Þróuð verður veflausn sem veitir upplýsingar um kolefnisspor mismunandi flugleiða og tengir losunartölur úr flugferðum við markmið um samdrátt í losun. Þannig fæst nauðsynleg yfirsýn yfir losun vegna flugferða sem er forsenda þess að geta dregið markvisst úr henni. Lausnin mun jafnframt nýtast stofnunum ríkisins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Losun Stjórnarráðsins er lítil í stóra samhenginu en loftslagsstefnan sjálf hefur áhrif langt út fyrir það. Hún setur markið og eykur eftirspurn eftir loftslagsvænum lausnum. Loftslagsstefnan beinir jafnframt kastljósinu að mikilvægi þess að stofnanir og fyrirtæki hugsi um kolefnisspor sitt og setji sér loftslagsstefnu.“

Samkvæmt útreikningum á kolefnisspori Stjórnarráðsins hefur flug starfsmanna erlendis mestu loftslagsáhrifin eða 67% af heildarlosun þess. Þar á eftir koma ferðir starfsmanna til og frá vinnu (16%), akstur á vegum ráðuneyta (7%), losun frá mötuneytum (5%), flug starfsmanna innanlands (3%), losun vegna þess úrgangs sem til fellur (1%) og loks orkunotkun (1%).

Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins fylgir aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2021 en við vinnslu stefnunnar gripu ráðuneytin strax til fjölbreyttra aðgerða. Starfsmönnum voru boðin afnot af rafhjólum til reynslu og aðgangur að deilibíl, notkun á einnota drykkjarmálum var hætt og flokkun lífræns úrgangs komið á í öllum ráðuneytum. Þá var hugað að kolefnisspori máltíða í mötuneytum starfsmanna og hlutur grænmetis og fisks aukinn með það í huga að draga úr neyslu á rauðu kjöti þar sem það veldur meiri losun koltvísýrings en aðrir fæðuflokkar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra:

„Það er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir kolefnisjafni starfsemi sína en við megum þó aldrei gleyma því að stóra verkefnið er að draga úr losun. Gildi loftslagsstefnu Stjórnarráðsins er ekki síst að styðja við viðleitni sem flestra til að draga úr losun og sóun og senda jákvæð skilaboð út í samfélagið.“

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins er ein af aðgerðunum í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Í frumvarpi um breytingu á lögum um loftslagsmál sem umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir á Alþingi í síðustu viku er gert ráð fyrir að Stjórnarráð Íslands, allar stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins verði skyldug til að setja sér loftslagsstefnu.

 

 

Loftlagsstefna Stjórnarráðsins


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum