Hoppa yfir valmynd
4. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Skorar rótgróið feðraveldi í sveitum Sierra Leone á hólm

Ég heiti Rosaline Marva Banya og kem frá Bo í suðurhluta Sierra Leone, á vesturströnd Afríku. Ég starfa fyrir góðgerðarsamtökin Concern Worldwide sem voru sett á laggirnar árið 1968 til að bæta lífskjör hinna fátækustu í Afríku, Asíu og í Karíbahafinu. Samtökin hófu starfsemi sína í Sierra Leone árið 1996 og hafa einbeitt sér að heilsutengdum verkefnum, menntun og bættu lífsviðurværi bágstaddra fjölskyldna. Áður en ég gekk til liðs við Concern Worldwide starfaði ég fyrir frjáls félagasamtök sem störfuðu innanlands að bættri velferð ungmenna, að barnavernd auk þess að stuðla að aukinni valdeflingu stúlkna.

Sierra Leone er í sárum eftir 11 ára borgarastyrjöld og ebóla faraldurinn, en þar búa um 7,1 milljón manns. Í landinu hefur feðraveldið endurspeglast í félags-, réttarfars-, stjórnmála-, trúar- og efnahagslegum kerfum samfélagsins frá ómunatíð. Feðraveldið á sér því djúpar rætur í menningu og trúarbrögðum þjóðarinnar. Vald, félagsleg forréttindi og eignarhald yfir landi og fjármunum hafa að mestu leyti verið á hendi karla. Eignir og titlar erfast í karllegg og karlmenn eru allsráðandi í stjórnmálum.

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin vinni hörðum höndum að umbótum í þessum málum eru enn miklar áskoranir til staðar í sveitahéruðum, þar sem tilhneygingin er sú að karlar hafi meiri tækifæri en konur. Þetta leiðir síðan til þess að það eru fyrst og fremst karlar sem standa að stærri verkefnum, á meðan konurnar eru bundar innan heimilisins, og geta þar af leiðandi einungis sinnt heimilisstörfum. Flestar konur í dreifbýli skortir þekkingu til að vinna að þróunarverkefnum og þær búa við skort á menntun og efnahagslegum tækifærum. Þetta gerir það að verkum að konur eru háðar körlum og þurfa í mörgum tilvikum að þola ofbeldi af þeirra höndum, sem stuðlar að frekari fátækt.

Sem ung stúlka ólst ég upp í karllægu samfélagi og upplifði mikla kynbundna mismunun, bæði innan heimilisins, í samfélaginu og á vinnumarkaði. Ég hef ætíð þráð að fá tækifæri til að starfa á vettvangi þar sem ég get skorað þessa mismunun á hólm. Eftir að ég lauk háskólaprófi hóf ég að vinna að þessu markmiði en það var ákaflega erfitt að finna menntun við hæfi, þar sem ég hafði mínar skyldur, auk þess sem tækifærin eru fá í mínu heimalandi. Þegar ég starfaði í afskekktum samfélögum urðu á vegi mínum fjöldi áskorana varðandi stöðu kynjanna. Sumar þeirra var hægt að vinna með og leysa en aðrar eru viðvarandi. Einn samstarfsaðili okkar kom í heimsókn á verkefnasvæðin okkar og kynnti Jafnréttisskólann fyrir yfirmanni mínum. Hann tilnefndi mig í námið og ég fór í gegnum inntökuferlið. Ég er ákaflega ánægð með að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í náminu hér, og hef núna öðlast sjálfstraust til að fást við áskoranir á mínu starfssviði og í mínu samfélagi þegar heim er komið.

Jafnréttisskólinn er mér mikil blessun þar sem hann hefur veitt mér þekkingu og færni sem nýtist mér á mínum starfsferli í framtíðinni. Námið er einnig ákaflega hagnýtt og vel sniðið að þörfum nemanda frá landi eins og Sierra Leone. Nánast öll viðfangsefni sem kennd hafa verið í námslotunum nýtast mér í starfi og eiga vel við í samhengi míns lands. Námsloturnar eru m.a. kenningar og hugtök, jafnrétti og þróun, kynjasamþætting, kyngervi og heilsa, verkefnastjórnun, kynjuð fjárhagsáætlanagerð, kyngervi og umhverfi, og konur, friður og öryggi.

Þegar ég sný aftur til Sierra Leone með nýja færni og aukið sjálfstraust stefni ég að því að vinna að jafnrétti á mínum vinnustað, í samfélaginu og á meðal samstarfsaðila. Ég vonast til að fá tækifæri til að sinna nýrri stöðu jafnréttisfulltrúa og jafnframt að ný tækifæri bjóðist mér í náinni framtíð.

Ég mun ætíð sakna þess einstaka veðurs sem hér er og fólksins, en Íslendingar eru bæði vingjarnlegir og gestrisnir. Ég mun um alla tíð varðveita minninguna um þetta land sem hefur náð svo miklu forskoti á sviði jafnréttismála. En umfram allt mun ég alltaf minnast allra karlanna á Íslandi sem styðja konurnar og eiga sinn þátt í að skapa það friðsæla andrúmsloft sem einkennir þetta land elds og íss.

-

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Markmið skólans er að þjálfa fólk til jafnréttisstarfa í þróunarlöndum og samfélögum sem er verið að byggja upp eftir átök. Jafnréttisskólinn er starfræktur í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Háskóla Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra stofnana innanlands sem utan. Í náminu er lögð áhersla á að vinna að fimmta heimsmarkmiði Sþ um jafnrétti kynjanna. Nú stunda 24 nemendur nám við skólann frá 14 þjóðlöndum. Heimsljós fékk nemanda við skólann til að kynna sjálfa sig, áherslur sínar í náminu á Íslandi og aðstæður í heimalandinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum