Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 2/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. janúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 2/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090052

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. september 2019 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 21. mars 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. september 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 10. október 2019. Frekari gögn bárust kærunefnd 16. og 17. desember 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna líflátshótana ónafngreindra manna, sem hafi mögulega tengsl við hryðjuverkasamtök, vegna fyrri starfa kæranda fyrir herbandalög vestrænna ríkja og vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópum.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í Diyala héraði í Írak en hafi verið búsettur Erbil þegar hann hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi sé af þjóðarbroti Kúrda og tilheyri Surchi ættbálki. Kærandi hafi fengið mikinn fjölda af líflátshótunum í heimaríki sem hann kveði að sé annars vegar vegna þess að hann hafi unnið fyrir bandaríska herinn; bandarísk fyrirtæki og aðra heri. Hins vegar hafi hann fengið hótanir þar sem hann sé andsnúinn múslímatrú og hafi tjáð sig á gagnrýninn hátt um trúna og spámanninn. Alvarlegustu hótanir hafi komið frá meðlimum vopnaðra hópa á borð við ISIS og hafi PMF sveitirnar einnig komið þar við sögu. Þá er í greinargerð rakin frásögn kæranda af atburðum sem hafi átt sér stað árið 2005 og hafi leitt til þess að hann og fjölskylda hans hafi flúið heimaríki árið 2009. Einnig er rakið í greinargerð fyrir hverja kærandi hafi unnið og komi fram að síðasta starf hans hafi verið sem túlkur og þýðandi fyrir [...]. Síðustu mánuðina sem kærandi hafi verið í heimaríki hafi honum borist mikið af líflátshótunum og hafi alvarlegustu hótanirnar borist frá meðlimum ISIS. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi tilkynnt hótanirnar til lögreglu en þeir hafi öskrað á sig og vísað honum á dyr. Þá hafi meðlimir ISIS eitt sinn hótað honum persónulega í útvarpssendingu, þeir hafi sagst ætla að finna hann í Erbil og myrða. Eftir að kærandi hafi hætt starfi sínu þann 15. janúar 2019 hafi menn farið inn á heimili kæranda og ráðist á eiginkonu hans og hafi hún þurft að leita sér aðhlynningar á spítala. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa orðið fyrir mismunun í samfélaginu, einkum af hálfu einstaklinga í Barzani ættbálknum, í heimaríki vegna þess að hann sé af Surchi ættbálknum.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Írak, stjórnmálaástand og skiptingu þjóðernisbrota í landinu. Þá er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Þá kemur fram að völd í Kúrdistan skiptist í stórum dráttum milli KDP flokksins sem fari með völd í Erbil og PUK flokksins sem fari með völd í Sulaymaniyah. Þá sé sjálfstæði dómstóla takmarkað vegna pólitískra afskipta og sé refsivörslukerfið talið veikt og að það uppfylli ekki alþjóðlegar skyldur hvað varði handtökur og réttláta málsmeðferð. Jafnframt kemur fram í greinargerð að samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi einstaklingar sem unnið hafi fyrir, eða hafi verið taldir vinna fyrir alþjóðleg herlið, alþjóðlegar stofnanir og erlend fyrirtæki í Írak, verið í sérstakri hættu þar sem þeir hafi verið álitnir svikarar eða samverkamenn bandaríska hersins. Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt fjölmörgum heimildum hafi túlkar og aðrir samstarfsaðilar bandaríska hersins í Írak fengið líflátshótanir með sambærilegum hætti og hann hafi lýst. Einnig er vísað til þess að samkvæmt nýlegri skýrslu Flóttamannastofnunar hafi ISIS samtökin staðið að baki árásum á þeim svæðum sem þau hafi áður verið með tök á og hafi árásirnar beinst að stjórnarhernum, hersveitum bandamanna og einnig almennum borgurum. Þá hafi PMF hersveitirnar einnig tekið þátt í morðum, mannshvörfum, kúgunum og hefndaraðgerðum í tengslum við stríðið gegn ISIS.

Þá er í greinargerð kæranda fjallað um aðstæður trúleysingja í Írak og vísað til alþjóðlegra skýrslna því til stuðnings. Fram kemur í greinargerð kæranda að um 90% Kúrda séu súnní-múslimar. Stjórnarskrá Íraks kveði á um að íslam sé hin opinbera trú og skuli vera hornsteinn í allri lagasetningu ríkisins og að vernda skuli hið íslamska auðkenni íröksku þjóðarinnar. Þrátt fyrir réttinn til trúfrelsis kveður löggjöf landsins á um bann við trúarskiptum múslima en heimili hins vegar einstaklingum sem hafi verið annarra trúar að taka upp íslam. Þröngar skorður séu settar í löggjöf landsins um skráningu og útgáfu persónuskilríkja, þeir einstaklingar sem ekki tilheyri lögbundinni trú geti ekki fengið útgefin persónuskilríki. Vegna þessa verði einstaklingar sem séu trúlausir, aðhyllist aðra trú eða skipti úr íslam yfir í aðra trú fyrir alvarlegri mismunun. Þá bendi heimildir til þess að trúleysingjar sem hafi orðið fyrir ofsóknum kjósi heldur að fara í felur eða leggja á flótta fremur en að leita til lögregluyfirvalda eftir aðstoð. Ástæða þess sé m.a. talin vera sú að samkvæmt refsilöggjöf Íraks sé hverskonar vanvirðing við íslam talin vera guðlast. Þá hafi verið skráður fjöldi tilfella um ofbeldi, áreiti, morð og hótanir í garð þeirra sem ekki aðhyllist íslamska trú í Írak.

Kærandi gerir nokkrar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar. Meðal annars mótmælir kærandi því að Útlendingastofnun hafi á grundvelli skjals sem hann hafi lagt fram lagt til grundvallar að hann sé frá Erbil. Kærandi hafi vakið athygli á því að skjalið sé ekki fæðingarvottorð hans og rétt sé að hann sé frá Diyala héraði og hafi verið búsettur í Mósúl frá átta ára aldri þar til árið 2005. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að hann eigi þess kost á að leita verndar hjá stjórnvöldum. Kærandi telji að í ljósi þess að stofnunin hafi lagt til grundvallar að hann kunni að hafa orðið fyrir áreiti af hálfu Barzani ættbálksins þá geti hann, sem einstaklingur af Surchi ættbálknum, ekki gengið að því vísu að fá vernd hjá yfirvöldum í Erbil en Barzan ættbálkurinn fari með völd í KDP flokknum sem fari með völd þar í borg. Þá velti aðgengi að vernd yfirvalda einnig á því hvaða trúarhópi einstaklingur tilheyri sem eftir henni leiti. Vísar kærandi framangreindu til stuðnings í úrskurð kærunefnd útlendingamála frá 22. nóvember 2018 í máli nr. 502/2018. Að lokum mótmælir kærandi því að lagt hafi verið til grundvallar að hann sé ekki í hættu vegna starfa sinna fyrir bandaríska herinn og bandamenn hans og vegna trúarskoðana hans.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi byggir á því að vegna stöðu sinnar sem fyrrverandi starfsmaður bandaríska hersins og bandamanna hans í Írak teljist hann eiga aðild að sérstökum þjóðfélagshópi sem hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess sem fram hafi komið að framan að Flóttamannastofnun hafi álitið einstaklinga sem unnið hafa fyrir alþjóðleg herlið, stofnanir og erlend fyrirtæki í Írak í sérstakri hættu og hafi fjölmargir verið drepnir eða beittir ýmiskonar illri meðferð. Þær stöður sem kærandi hafi gegnt fyrir slíka aðila feli í sér bakgrunn sem hann geti ekki breytt. Með vísan til framangreinds telji kærandi að ótti hans við ofsóknir vegna aðildar sinnar að þjóðfélagshópi sé ástæðuríkur. Þá byggir kærandi einnig á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarskoðana sinna, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísar kæranda til leiðbeininga í handbók Flóttamannastofnunar á því hvað geti falist í ofsóknum vegna trúarbragða. Sem trúlaus einstaklingur í Írak sem lúti ekki þeim hefðum og siðum sem íslömsk trú mæli fyrir um skeri kærandi sig úr samfélaginu hvað varði lífsviðhorf og framkomu sem sé til þess fallið að skapa honum aukna óvild og útskúfun í samfélaginu. Þá byggir kærandi á því að vegna trúleysis síns hafi kærandi ástæðu til að óttast opinbera sem og óopinbera aðila í heimaríki, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að samkvæmt leiðbeiningum í handbók Flóttamannastofnunar þá geti aðgengi að réttarkerfinu og vernd hjá stjórnvöldum í heimaríki hans farið eftir því hvaða ættbálki einstaklingur tilheyri og þjóðernis- og trúarhópi hans. Kærandi telur að skv. framansögðu beri að leggja til grundvallar að stjórnvöld í heimaríki hans hafi hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Vísar kærandi framangreindu til stuðnings til úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 22. nóvember 2018 í máli nr. 502/2018. Þá telji kærandi að um sé að ræða í máli hans samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling og ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds telji kærandi að ótti hans við ofsóknir í heimaríki vegna trúarskoðana og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sé ástæðuríkur.

Þá telur kærandi að með endursendingu hans til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til vara kveðst kærandi uppfylla skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Með hliðsjón af því sem að framan hafi verið rakið í tengslum við aðalkröfu kæranda telur hann ljóst að skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki. Þá telur kærandi að síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi jafnframt við í hans máli en heimaborg hans sé Mósúl í Diyala héraðinu sem hafi verið eitt síðasta vígi ISIS og hafi verið á þeirra valdi allt fram til desember 2017. Kærandi vísar til þess að það sé opinber afstaða Flóttamannastofnunar að ekki sé snúið nokkrum Íraka aftur til heimaríkis sem komi frá svæðum sem séu undir stjórn ISIS eða teljist óörugg eftir að hafa verið losuð undan stjórn ISIS. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 22. ágúst 2018 í máli nr. 2018-10744 en í því máli hafi umsækjanda frá Mósúl verið veitt viðbótarvernd vegna almenns öryggisástands þar.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur mannúðardvalarleyfis geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með erfiðum félagslegum aðstæðum viðkomandi sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Þar sem kærandi sé trúlaus sé ljóst að hann tilheyri örsmáum jaðarsettum þjóðfélagshópi í heimaríki. Auk þess sé hann á flótta undan þeim einstaklingum sem hafi hótað honum og vegna trúleysis síns kunni hann að standa frammi fyrir einangrun í samfélaginu og búa við erfiðar aðstæður.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afrit af íröksku vegabréfi sínu og afrit af íröksku ökuskírteini. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti og því yrði leyst úr því á grundvelli trúverðugleikamats. Útlendingastofnun taldi að ekkert hefði komið fram sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og lagði til grundvallar að hann væri ríkisborgari Íraks. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Iraq (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and re-turns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, uppfærð skýrsla 8. maí 2019);
  • Country Information and Guidance Iraq: Return/Internal relocation (UK Home Office, uppfærð skýrsla 19. nóvember 2018);
  • Country Report on Human Rights Practices 2018 - Iraq (U.S. Department of State, uppfærð skýrsla 13. mars 2019);
  • Country Fact Sheet Iraq 2018 (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 2018);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Medical and healthcare issues (United King-dom: Home Office, maí 2019);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Af-fairs and Trade, 9. október 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asy-lum Support Office (EASO), nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2019 - Iraq (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Hedersrelaterat våld i Libanon, Syrien och de kurdstyrda provinserna i norra Irak (Migrationsverket, 27. nóvember 2009);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum-seekers from Iraq (UNHCR, maí 2012);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Iraq – Apostasi og ateisme (Landinfo, 29. ágúst 2018);• Iraq 2019 Crime & Safety Report: Erbil (U.S. Department of State, Bureau of Diplomatic Se-curity, 1. mars 2019);
  • Iraq 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 21. júní 2019);
  • Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information report (EASO, 1. mars 2019);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);• Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Al-ternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Irak: Situasjonen for personer som har jobbet for utenlanske selskaper (Landinfo, 7. apríl 2016);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq - July 2016-November 2017 (version 4.0) (Mi-grationsverket, 18. desember 2017);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitar-ian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016);
  • The Future of Health Care in the Kurdistan Region – Iraq – Toward an Effective, High-Quality System with an Emphasis on Primary Care (RAND Corporation, 19. maí 2014);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016)
  • Upplýsingar af heimasíðu sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna heldur úti: www.unhcr.org (The United Nations High Commissioner for Refugees, The UN Refugee Agency);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Iraq: Blood feuds (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Wilting in the Kurdish Sun – The Hopes and Fears of Religious Minorities in Northern Iraq (United States Commission on International Religious Freedom, maí 2017) og
  • World Report 2019 – Iraq (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum gögnum kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá apríl 2016 kemur fram að aðstæður í Írak á árunum 2005 til 2011 fyrir einstaklinga sem unnu fyrir erlenda aðila, svo sem bandaríska herinn, hafi verið áhættusamar, sérstaklega á árunum frá 2005 til 2008, og hafi þeim einkum staðið ógn af hersveitum sjía múslíma. Hafi ástandið skánað til muna eftir að bandarískar hersveitir yfirgáfu landið árið 2011. Þá kemur fram í skýrslu Landinfo að frá þeim tíma fylgi ekki lengur sama hætta því að vinna fyrir erlenda aðila. Í dag séu það helst írakskir hermenn sem starfi náið með erlendum hersveitum sem geti átt á hættu hótanir eða ofbeldi vegna þeirra starfa, en það séu þó ekki hersveitir sjia múslíma sem ráðist á þá heldur Daesh. Í skýrslu EASO frá mars 2019 kemur fram að nú á dögum einbeiti hersveitir sjia múslíma sér að því að berjast gegn þeirri ógn sem stafi af Daesh. Af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá maí 2012 má ráða að einstaklingar sem unnu fyrir erlendar hersveitir hafi þá verið í hættu. Í nýrri skýrslu flóttamannastofnunarinnar frá maí 2019 verður hins vegar ekki ráðið að þessi hópur sé í slíkri hættu að þörf sé á alþjóðlegri vernd.

Af framangreindum gögnum má ráða að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjía-múslímar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslímar. Þá séu sjía-múslímsk samfélög í flestum landshlutum. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslímar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Stjórnarskrá landsins tryggir trúfrelsi og flestir pólitískir leiðtogar hafa lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Einhverjir stjórnmálamenn fordæma þó veraldarhyggju og trúleysi. Þá er guðlast refsivert samkvæmt írökskum lögum. Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá ágúst 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá 15. ágúst 2017 að íröksk skilríki tilgreini trú viðkomandi. Einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á skilríkjum séu kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam. Einstaklingar sem séu annarrar trúar eða trúlausir geti eingöngu fengið útgefin skilríki ef þeir segist aðhyllast eitthvert framangreindra trúarbragða. Einstaklingar sem eigi ekki skilríki geti ekki skráð sig í hjúskap, innritað börn sín í ríkisrekna skóla, fengið útgefið vegabréf og tiltekna þjónustu frá hinu opinbera. Þá kemur m.a. fram í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar og norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá nóvember 2018 að það geti verið vandkvæðum bundið að ferðast milli staða í Írak án persónuskilríkja vegna fjölda eftirlitsstöðva þar sem einstaklingar án skilríkja eigi á hættu á að vera teknir höndum af vopnahópum.

Í skýrslu United States Commission on International Religous Freedom frá júní 2019 kemur fram að trúfrelsi sé verndað í drögum að stjórnskrá Kúrdistan, sem samin hafi verið af kúrdíska þinginu, og að það sé almennt virt af kúrdískum stjórnvöldum. Þá benda drögin til þess að pólitískur vilji sé til þess að styrkja stöðu minnihlutahópa enn frekar á svæðinu en þar sé m.a. að finna ákvæði er verndi rétt fólks til að iðka trú sína sem og annars konar réttindavernd fyrir minnihlutahópa. Þá kemur fram í áðurnefndri skýrslu að brot á trúfrelsi þekkist í Kúrdistan en þau séu hvorki kerfisbundin, viðvarandi né ómannúðleg. Líkt og áður hefur verið rakið hefur kærandi greint frá því að ef hann myndi opinbera trúleysi sitt þá myndi það valda honum vandamálum. Framburður kæranda varðandi þetta atriði fær að nokkru leyti stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér. Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo eru talin upp nokkur dæmi um tilvik á undanförnum árum þar sem stjórnvöld í Kúrdistan og annars staðar í Írak hafi brugðist við trúleysi og gagnrýni á íslam með handtökum og öðru harðræði. Þar kemur jafnframt fram að þótt auðveldara sé fyrir einstaklinga að lýsa yfir trúleysi í Kúrdistan en annars staðar í Írak geti einstaklingar þar jafnframt þurft að þola viðbrögð við trúleysi bæði af hálfu stjórnvalda og annarra aðila. Sambærileg sjónarmið koma fram í skýrslu Immigration and Refugee Board of Canada frá 2. september 2016 en af henni má jafnframt ráða að margir trúleysingjar í Kúrdistan vilji ekki opinbera trúarskoðanir sínar af ótta við að vera ofsóttir eða drepnir af öfgahópum eða almenningi á götum úti. Þá séu dæmi um að fólk sem verði fyrir áreiti vegna trúleysis vilji frekar fara í felur en að leita til lögreglunnar.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna hótana ótilgreindra einstaklinga, sem séu mögulega meðlimir Daesh samtakanna eða annarra vopnaðra hersveita. Kæranda hafi verið hótað í fjöldamörg ár vegna starfa sinna fyrir bandaríska herinn og aðra erlenda aðila og vegna trúleysis hans og óttist hann því ofsóknir vegna aðildar sinnar að þjóðfélagshópi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá verði kærandi jafnframt fyrir mismunun og áreiti vegna þess að hann sé af Surchi-ættbálknum. Kærandi kveðst ekki hafa getað leitað til lögreglu í heimaríki þar sem starfsmenn hennar hefðu hlegið að honum eða orðið reiðir þar sem hann hafi ekki getað tilgreint þá einstaklinga sem hafi hótað honum. Þá kemur fram í greinargerð að kærandi telji sig ekki getað leitað verndar hjá yfirvöldum þar sem hann sé trúlaus og tilheyri Surchi ættbálknum.

Í greinargerð gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun leggi til grundvallar að hann sé frá Erbil en ekki Mósúl sem hann hafi greint frá að sé hans raunverulega heimaborg. Í gögnum málsins má sjá afrit af löggiltri skjalaþýðingu á ensku af skjali sem útgefið sé árið 2014 af stofnun Innanríkisráðuneytisins í heimaríki kæranda, á því komi m.a. fram að fæðingarstaður kæranda sé Erbil. Þá er einnig að finna í gögnum málsins afrit af yfirlýsingu fyrrum vinnuveitanda kæranda, [...], þar sem Erbil sé tilgreindur sem fæðingarstaður kæranda. Það er mat kærunefndar að með tilliti til upplýsinga um fæðingarstað kæranda sem koma fram á framangreindum gögnum sem kærandi lagði til stuðnings málatilbúnaði sínum að ekki sé tilefni til að leggja til grundvallar að fæðingarstaður kæranda sé í raun Mósúl í heimaríki. Kærunefnd telur þó ekki tilefni til að draga í efa að kærandi hafi á einhverjum tímapunkti búið í Mósúl. Hins vegar liggur fyrir samkvæmt framburði kæranda að hann hafi búið í Erbil frá árinu 2005 og þar til hann hafi flúið heimaríki. Þar eigi hann einnig húsnæði og fjölskyldu. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að tengsl kæranda við Erbil séu því með þeim hætti að rétt sé að umsókn hans um alþjóðlega vernd sé skoðuð með hliðsjón af aðstæðum í þeirri borg og verði hún talin hans heimaborg við úrlausn málsins.

Kærandi hefur byggt á því að hafa orðið fyrir hótunum í fjölda ára af hálfu óþekktra einstaklinga, annars vegar sökum þess að hann hafi gegnt störfum fyrir bandaríska herinn og aðra erlenda aðila og hins vegar vegna trúleysi hans en kærandi kvaðst jafnframt hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum um andstöðu sína við íslam og verið hótað þar . Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hafi starfað fyrir erlenda aðila frá árinu 2005 til 2018 þar sem hann hefur lagt fram fjölmörg gögn því til stuðnings. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki geta lagt fram gögn til stuðnings framburði sínum um að hafa verið hótað í heimaríki. Kærandi kvaðst hafa eytt öllum skilaboðum úr síma sínum jafnóðum og þá gæti hann ekki komist inn á Facebook-síðuna sína hér á landi vegna tæknilegra örðugleika sem kærandi telji tengjast því að hann sé ekki í heimaríki sínu.

Kærandi kvað hótanirnar á Facebook-síðu hans hafa aðallega komið frá meðlimum Hash Al-shabi (e. Popular Mobilization Forces (hér eftir PMF)), sem hafi m.a. hótað honum lífláti. Kærunefnd taldi skýringar kæranda um að hann gæti ekki skráð sig inn á Facebook-síðu sína og af þeim sökum gæti hann ekki sýnt fram á að hann hafi tjáð sig þar gegn íslam og borist hótanir vera ótrúverðugar. Óskaði nefndin því eftir því í tölvupósti dags. 13. og 17. desember 2019 að kærandi legði fram upplýsingar um ofangreinda síðu, slóð á hana og staðfestingu á því að hann gæti ekki skráð sig inn á Facebook. Í svörum sem bárust frá kæranda þann 16. desember s.á. kemur m.a. fram að kærandi hafi notað fjóra Facebook-reikninga en þó aðallega tvo og tilgreindi hann notendanöfn á þeim, [...] og [...]. Þessir reikningar væru tengdir hotmail-reikningi hans sem hann hefði ekki notað lengi og gleymt lykilorðinu á og þá notaði hann ekki lengur farsímanúmer sem væri tengt hotmail-reikningnum. Þann 17. desember s.á. lagði kærandi fram tengla inn á Facebook-síður sem hann kvaðst hafa notað og væru mikilvægar fyrir hann og sem tengdar eru áðurnefndum notendanöfnum. Varðandi síðari Facebook-reikninginn þá kvaðst kærandi hafa beðið Facebook um aðstoð við að komast inn á þann reikning. Kærandi hafi fengið senda tilkynningu frá Facebook þess efnis að tengill hefði verið sendur á gamla farsímanúmerið hans. Kærandi kveðst hafa sent þrjár beiðnir um aðstoð til Facebook og í kjölfarið hafi Facebook lokað reikningnum/síðunni hans. Skoðun kærunefndar á umræddum Facebook-síðum leiddi í ljós að síðan sem tengd er notendanafninu [...] er ekki tiltæk en síðan sem tengd sé notendanafninu [...] sé enn virk og þá má sjá á henni að síðast hafi hún verið uppfærð af notanda þann 11. desember 2019. Það er mat kærunefndar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið á því hvers vegna hann geti ekki fengið aðgengi að þeim Facebook-síðum, þar sem hann kveður meðlimi PMF hafa hótað sér og hann hafi tjáð andstöðu sína við íslam á vera ótrúverðugar. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki rennt stoðum undir þá staðhæfingu sína að hann hafi tjáð andstöðu sína á íslam á samfélagsmiðlasíðunni Facebook eða að honum hafi verið hótað af hálfu meðlima PMF eða annarra aðila á Facebook-síðum sínum. Kærandi hefur að öðru leyti ekki lagt fram gögn eða sýnt fram á með öðrum hætti að hann hafi tjá afstöðu sína til trúarbragða, að hann sé trúlaus eða að hann hafi sætt áreiti vegna þess. Við úrlausn málsins leggur kærunefnd því ekki til grundvallar að hann hafi tekið afstöðu gegn íslamskri trú eða að meðlimir PMF eða aðrir aðilar, svo sem meðlimir Daesh, hafi hótað kæranda og hann eigi af þeim sökum hættu á ofsóknum í heimaríki sínu.

Kærunefnd telur hins vegar ekki ástæðu til að draga í efa framburð kæranda þess efnis að kærandi hafi orðið fyrir hótunum eða átt í ágreiningi við einhverja ótilgreinda einstaklinga í heimaríki vegna starfa sinna fyrir erlendra aðila, sérstaklega í upphafi þeirra starfa, þ.e.a.s. á milli áranna 2005 og 2008. Nýlegar skýrslur beri hins vegar með sér að eftir að Bandaríkjamenn drógu verulega úr umsvifum sínum í Írak árið 2011 hafi andstaða sjía hersveita minnkað í garð þeirra Íraka sem unnið hafi fyrir erlenda aðila og hersveitirnar hafi beitt kröftum sínum frekar gegn uppgangi Daesh samtakanna. Þá verður ekki ráðið af þeim skýrslum um aðstæður í KRI sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar að einstaklingar sem hafi starfað fyrir erlenda aðila síðustu ár, eða starfi enn fyrir erlenda aðila, hafi orðið fyrir ofsóknum eða eigi á hættu áreiti sem verði jafnað til ofsókna, í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kemur einnig fram að kærandi telji að hann geti ekki leitað verndar hjá stjórnvöldum m.a. þar sem hann sé af Surchi ættbálknum. Kærunefnd telur ekki tilefni til að draga í efa að kærandi tilheyri Surchi ættbálknum. Kærandi kvað ættbálk sinn ekki vera velkominn á þeim svæðum sem séu undir yfirráðum Barzani ættbálksins og að einstaklingar af þeim ættbálki gætu gert kæranda lífið leitt. Kærandi vísaði ekki til sérstakra atvika þar sem hann hafi orðið fyrir áreiti eða ofsóknum vegna uppruna síns sem einstaklingur af Surchi ættbálknum. Þær skýrslur sem kærunefnd tók til skoðunar um aðstæður í KRI benda til þess að þrátt fyrir að spenna eða ósætti geti ríkt á milli ættbálka á svæðinu þá gefa þær heimildir ekki til kynna að einstaklingar af ákveðnum ættbálkum verði fyrir ofsóknum eða mismunun af hálfu þeirra ættbálka sem séu ráðandi sem nái alvarleikastigi ofsókna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh-samtakanna eða þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, Erbil, sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í greinargerð er vísað til þess að ástandið í heimaríki kæranda sé sérstaklega óöruggt og eldfimt í heimahéraði hans Diyala. Eins og fram kemur að ofan leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi sé frá Erbil og sé hún heimaborg hans. Verður því varakrafa kæranda um viðbótarvernd skoðuð með hliðsjón af aðstæðum þar.

Þrátt fyrir átök í Írak undanfarin ár er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá sé heimaborg kæranda, Erbil, á svæði Kúrdistan þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimsvæði sínu í Kúrdistan, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig að verði hann sendur aftur til heimaríkis muni bíða hans erfiðar félagslegar aðstæður þar. Telja megi víst að samfélagið og fjölskylda hans muni snúast gegn honum þar sem hann sé trúlaus. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki og um ætlað trúleysi kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans séu ekki slíkar að unnt sé að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé með sykursýki og of hátt kólesteról. Kveðst hann hafa fengið lyf hér á landi. Ekki liggur þó annað fyrir en að kærandi sé að öðru leyti almennt heilsuhraustur. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um heilbrigðiskerfið í Kúrdistan gefa til kynna að kærandi geti fengið aðstoð þar vegna heilsufarsvandamála sinna, sem og viðeigandi lyf.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi almennt við ágæta heilsu en sé með sykursýki og hátt kólesteról eins og áður sagði. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kærunefndar

Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísaði kærandi annars vegar í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. ágúst 2019 í máli nr. 2018-10744 og hins vegar í úrskurð kærunefndar nr. 502/2018 frá 22. nóvember 2018.

Að því er varðar vísun kæranda til ákvörðunar Útlendingastofnunar sem hann telur sambærilegt sínu máli þá tekur kærunefnd fram að forsendur og rökstuðningur ákvarðana Útlendingastofnunar eru ekki bindandi fyrir kærunefnd. Jafnframt telur kærunefnd að málsatvik og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Hvað varðar vísun kæranda í úrskurð kærunefndar þá er það mat nefndarinnar að málsatvik og aðstæður aðila þess máls séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 21. febrúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum