Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 6/2001: Úrskurður frá 6. apríl 2001.

Ár 2001, föstudaginn 6. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2001.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands vegna

Verkalýðsfélags Raufarhafnar

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

SR-Mjöls hf.

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 16. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Arngrímur Ísberg, Erla Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambands Íslands, kt. 601000-3340, Skipholti 50c, Reykjavík, vegna Verkalýðsfélags Raufarhafnar, kt. 680269-5999, Aðalbraut 27, Raufarhöfn.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. SR-Mjöls hf., kt. 560793-2279, Kringlunni 7, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að fella niður launagreiðslur til sjö starfsmanna sinna í verksmiðju sinni á Raufarhöfn sem starfsmönnunum var tilkynnt þann 19. janúar 2001 og hafi með því brotið gegn kjarasamningi aðila.

Að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, verði málinu ekki vísað frá Félagsdómi ex officio.

Að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Stefndi, SR-Mjöl hf., á og rekur fimm loðnuverksmiðjur hérlendis, í Helguvík á Suðurnesjum, á Reyðarfirði, Seyðisfirði, Raufarhöfn og Siglufirði. Stefnandi, Verkalýðsfélag Raufarhafnar, á fyrir hönd félagsmanna sinna aðild að sérkjarasamningi við stefnda um kjör sem gilda í verksmiðju stefnda á Raufarhöfn. Þann 16. nóvember 2000 var sjö fastráðnum starfsmönnum verksmiðjunnar tilkynnt að þeir yrðu teknir af launaskrá frá og með 27. nóvember vegna hráefnisskorts þar sem óljóst væri um þróun loðnuveiða sem þá voru nýhafnar. Tveir þessara starfsmanna störfuðu í svonefndu mjölhúsi, tveir á saumastofu og þrír sinntu störfum sem vaktmenn.

Þann 14. janúar 2001 voru starfsmennirnir kallaðir til starfa en var tilkynnt á ný þann 19. janúar að þeir væru aftur teknir af launaskrá. Var um að ræða sömu sjö starfsmenn stefnda og höfðu verið sendir heim í nóvember. Stefnandi sendi frá sér yfirlýsingu dags. 24. janúar sl., þar sem settar voru fram athugasemdir við stefnda vegna þessa. Engin breyting varð á þessari afstöðu stefnda og umsóknum starfsmannanna um atvinnuleysisbætur var synjað af Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra sem úrskurðaði í málum þeirra.

Með bréfi stefnanda til stefnda dags 21. febrúar sl. var þess krafist að starfsmönnunum yrðu greidd áfallin laun þeirra og þeir kallaðir til vinnu í samræmi við ráðningarsamninga þeirra. Á það var ekki fallist af hálfu stefnda og hefur stefnandi af þeim sökum höfðað mál þetta fyrir Félagsdómi.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi tekur fram að í 1. gr. sérkjarasamnings aðila sé kveðið á um hver mánaðarlaun og tímakaup starfsmanna stefnda sem ráðnir séu til starfa í loðnuverksmiðjum hans eigi að vera. Í 2. gr. samningsins sé síðan kveðið á um kjör starfsmanna þegar unnið sé á vöktum og jafnframt skilgreint hvenær skylt sé að láta starfsmenn ganga vaktir. Að mati stefnanda sé stefnda, í ljósi þessara tilgreindu ákvæða, ótvírætt skylt að greiða starfsmönnum sínum laun í samræmi við kjarasamning enda hafi engum þeirra verið sagt upp störfum heldur þvert á móti séu allir þeir sjö starfsmenn sem sendir voru heim launalausir þann 19. janúar síðastliðinn fastráðnir starfsmenn stefnda.

Stefnandi byggir á því að lögmæltar forsendur vinnslustöðvunar hafi ekki verið fyrir hendi og að vinnslustöðvunin hafi verið brot á ákvæðum kjarasamnings frá upphafi. Stefndi hafi stöðvað vinnslu í verksmiðju sinni á Raufarhöfn með vísan til 3. gr. laga nr. 19/1979 sem kveði á um að atvinnurekanda verði ekki gert að greiða bætur til starfsmanna sinna þó vinna þeirra nemi ekki 130 klukkustundum á mánuði. Nánar tiltekið hljóðar ákvæðið svo:

"Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir."

Tilvik þau sem 3. gr. laga nr. 19/1979 fjallar um séu svonefnd force majeure tilvik. Með því sé átt við atvik sem ekki verði séð fyrir og ekki sé unnt að koma í veg fyrir þótt gerðar séu eðlilegar öryggisráðstafanir. Samkvæmt efni sínu feli lagaákvæðið í sér skaðabótareglu, þ.e. undanþágu frá skyldu til greiðslu bóta. Slíkt ástand hafi fráleitt verið til staðar hjá stefnda í rekstri hans þann 19. janúar síðastliðinn. Loðnuvertíð hafi staðið yfir og mikill loðnuafli borist að landi. Til dæmis hafi miklum afla verið landað hjá verksmiðju stefnda á Seyðisfirði og Siglufirði á því tímabili sem "hráefnisskortur" hafi verið alger hjá verksmiðju stefnda á Raufarhöfn. Stefndi hafi enga grein gert fyrir því hvernig þennan hráefnisskort hafi borið að né hreyft neinum rökum sem renni stoðum undir það að tilgreint lagaákvæði eigi við. Þannig hafi engar röksemdir verið færðar fram um það á hvern hátt hráefnisskortur þessi hafi verið ófyrirsjáanlegur eða hafi svo ekki verið, á hvern hátt hann hafi verið af óviðráðanlegum ástæðum svo sem vegna óveðurs, skipstapa, bruna, styrjalda eða verkfalls.

Stefndi eigi og reki fimm loðnuverksmiðjur á fimm stöðum á landinu og hafi stefndi haft úr nægu hráefni að moða og það svo mjög að hann hafi á stundum þurft að fullnýta allt geymslurými á Seyðisfirði þar sem verksmiðja hans þar hafi ekki haft undan að vinna úr þeim afla sem að landi hafi komið. Þannig hafi verið landað samtals 35.553 tonnum af loðnu í öðrum verksmiðjum stefnda á tímabilinu frá 19. janúar til 27. febrúar samkvæmt upplýsingum Fiskistofu og þeirra hafna þar sem verksmiðjurnar séu. Í Helguvík hafi verið landað 12.004 tonnum, 13.200 tonnum á Siglufirði, 9.160 tonnum á Seyðisfirði og 1.189 tonnum á Reyðarfirði.

Virðist stefndi þannig hafa tekið ákvörðun um það, að því er virðist í hagræðingarskyni í rekstri sínum, að hafa "hráefnisskort" í verksmiðjunni á Raufarhöfn en fullnýta afkastagetu verksmiðjanna á Seyðisfirði, Siglufirði og Helguvík. Í þessu sambandi vill stefnandi og vekja athygli á því að stefndi eigi sjálfur loðnuskip og sé þar að auki með önnur í föstum viðskiptum þannig að þau landi öllum afla sínum hjá stefnda. Hafi stefndi þannig haft úr nægu hráefni að spila.

Að mati stefnanda sé stefnda það ekki í sjálfsvald sett hvenær grípa megi til þeirrar neyðarreglu sem 3. gr. laga nr. 19/1979 hafi að geyma. Slíkt geti ekki verið háð einhliða mati stefnda á rekstrarlegu hagræði í atvinnurekstri hans. Starfsmenn stefnda, sem nú hafi verið launalausir í rúman mánuð, búi þar að auki við þær aðstæður, einir starfsmanna í fiskiðnaði, að njóta engrar kauptryggingar né eigi þeir rétt á atvinnuleysisbótum þegar engin vinnsla eigi sér stað. Komi því vinnslustöðvun eins og sú sem stefndi sé nú að beita, þegar loðnuvertíð standi sem hæst, einstaklega hart niður á þessum starfsmönnum. Stefndi virðist ekki setja það á neinn hátt fyrir sig eða renna það til rifja að starfsmenn hans búi við þessa óvissu og launaleysi svo vikum skiptir heldur þvert á móti virðist hann þeirrar skoðunar að hann geti nýtt sér til hins ýtrasta og samtímis, kosti þess að hafa á að skipa fastráðnum, reyndum starfsmönnum og þess að losna undan launagreiðslum til þeirra hvenær sem honum hentar, fyrirvaralaust.

Þar sem engum neyðarsjónarmiðum hafi verið til að dreifa nú á árinu 2001 sé ótvírætt að mati stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að fella niður launagreiðslur til sjö starfsmanna sinna í verksmiðju sinni á Raufarhöfn frá og með 19. janúar 2001 og hann hafi þannig brotið gegn kjarasamningi stefnanda, Verkalýðsfélags Raufarhafnar o.fl. annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar, dagsettum 15. maí 2000.

Stefnandi byggir á meginreglum vinnuréttar, lögum nr. 80/1938, lögum nr. 19/1979 og gildandi kjarasamningi aðila. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti; stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til þess að fá álag er honum nemi dæmt úr hendi gagnaðila.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram um málavexti að SR-Mjöl eigi og reki loðnubræðslur. Starfsemi loðnubræðslna sé árstíðabundin og í upphafi vertíðar sé stjórnendum stefnda engan veginn ljóst hvort og þá hvenær vinna hefjist, hversu lengi hún standi og hvenær henni ljúki.

Loðnubræðslur stefnda geti brætt um 4.500 tonn af loðnu á sólarhring. Í Helguvík sé hægt að bræða 900 tonn á sólarhring, á Raufarhöfn 700 tonn, Reyðarfirði 450 tonn, Seyðisfirði 1.000 tonn og Siglufirði 1.500 tonn. Stefndi eigi hins vegar einungis eitt skip, Svein Benediktsson SU-77. Stefndi kaupi því megnið af sínu hráefni af öðrum fyrirtækjum sem geri út skip til loðnuveiða. Eins og fram komi í framlögðum gögnum hafi stefndi keypt loðnu af 15 skipum á því tímabili sem þar um ræðir. Þessi skip séu ekki undir boðvaldi stefnda og geti stefndi ekki krafist þess að þau landi í tilteknum höfnum.

Í verksmiðju stefnda á Raufarhöfn hófst vinnsla 11. janúar sl. þegar fyrsti farmurinn barst að landi og hafi vinnslu alls hráefnis verið lokið 14. janúar. Unnið hafi verið við upphreinsun og þrif frá 15. til 23. janúar. Stefndi hafi tilkynnt starfsmönnum 19. janúar um hráefnisskort og að þeir yrðu af þeim sökum felldir af launaskrá.

Margar ástæður séu fyrir því að ekki hafi verið hægt að halda uppi starfsemi á Raufarhöfn. Þau loðnuveiðiskip sem stefndi eigi í viðskiptum við taki sjálf ákvörðun um hvar landað sé og að öllu jöfnu sé landað í þeirri höfn sem næst sé miðunum. Þegar vel veiðist séu skipin ekki tilbúin að sigla langa leið til löndunar. Stefndi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá skip til að landa á Raufarhöfn en án árangurs. Þar að auki geti höfnin við Raufarhöfn ekki tekið á móti stærstu loðnuveiðiskipum og mörg hver veigri sér við að landa þar nema á sléttum sjó eða flóði. Vegna þessara aðstæðna hafi stefnda verið nauðugur einn kostur að fella starfsmenn af launaskrá vegna hráefnisskorts.

Stefndi vekur athygli dómsins á því að óljóst sé á hvaða grundvelli mál þetta sé höfðað, enda ekki vísað í stefnu til ákvæða 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Í máli þessu reyni eingöngu á túlkun 3. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum o.fl. en ekki verði séð að það falli undir hlutverk Félagsdóms að dæma samkvæmt þeim lögum. Málshöfðun þessi verði ekki reist á hugsanlegu broti á kjarasamningi vegna vangreiddra launa enda velti það á túlkun ofangreindra laga hvort um brot hafi verið að ræða eða ekki.

Verði málinu ekki vísað af sjálfsdáðum frá dómi byggir stefndi sýknukröfur sína á því að heimilt hafi verið að fella niður launagreiðslur til starfsmanna með stoð í 3. gr. laga nr. 19/1979. Skilyrðum þeirrar lagagreinar hafi verið fullnægt þar sem hráefni hafi ekki verið til vinnslu í verksmiðjunni. Við þær aðstæður sé vinnuveitandi samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði undanþeginn skyldu að greiða laun þann tíma sem það ástand varir án þess að aðrar breytingar verði á ráðningarsambandi aðila.

Heimild 3. gr. laga nr. 19/1979 sé tvíþætt. Annars vegar sé í ákvæðinu heimild til að fella niður launagreiðslur þegar um force majeure tilfelli sé að ræða, t.d. skipstapa, bruna, óveður eða verkfall. Hins vegar sé um að ræða beina heimild til að fella starfsfólk af launaskrá, óháð force majeure reglum, t.d. þegar hráefni sé ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri. Stefnda byggir á því að skilyrðum ákvæðisins hafi verið fullnægt, þar sem hráefni hafi ekki verið til vinnslu í verksmiðjunni, en í þeim tilvikum sé ekki gerð sú krafa að um force majeure tilvik sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til dóma Hæstaréttar 1985, bls. 30 og Félagsdóms nr. 2/1981 í VIII. bindi, bls. 230.

Það sé rétt sem fram komi í stefnu að ákvæði kjarasamninga um kauptryggingar- samninga nái ekki til loðnubræðslu. Í þeim kafla sé um sömu tvískiptingu að ræða. Stafi vinnslustöðvun af almennum hráefnisskorti þurfi að tilkynna um hana með fjögurra vikna fyrirvara og falli þá starfsmenn af launaskrá í samræmi við ákvæði 3. gr. 1. nr. 19/1979 en sé um force majeure tilvik að ræða sé heimilt að fella starfsmenn af launaskrá án fyrirvara. Að því leyti njóti starfsmenn í öðrum fiskvinnslugreinum betri réttar en starfsmenn í loðnubræðslum en þar hafi ekki verið samið um takmörkun réttar vinnuveitanda, að fella starfsmenn af launaskrá vegna hráefnisskorts.

Almennar reglur um lok ráðningar gildi áfram þó starfsmenn séu felldir af launaskrá og sé starfsmönnum rétt og skylt að koma aftur til starfa þegar vinna hefst að nýju. Frá því sé hins vegar gert frávik í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1979 hvað starfsmenn varðar. Þeir séu óbundnir af ráðningarsamningi sínum bjóðist þeim annað starf á tímabili vinnslustöðvunar og geti því hætt störfum án þess að vinna út lögbundinn uppagnarfrest. Starfsmenn sem felldir hafa verið af launaskrá á grundvelli þessa ákvæðis séu því í atvinnuleit og reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa í skilningi 1. mgr. 1. gr. og 6. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar. Afstaða úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Norðurlandi eystra hafi enga þýðingu í máli þessu enda sé nefndin ekki úrskurðaraðili um greiðsluskyldu stefnda. Hluti þeirra starfsmanna sem hér eigi hlut að máli hafi þegar kært úrskurð nefndarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem starfar skv. 17. gr. laga nr. 12/1997.

Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. 1. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Í máli þessu byggir stefnandi kröfur sínar á því að stefndi, SR-Mjöl hf., hafi brotið sérkjarasamning aðila frá 29. maí 2000, nánar tiltekið 1. og 2. grein samningsins, sem er um launakjör í fiskimjölsverksmiðjum, með því að fella niður launagreiðslur til sjö starfsmanna í fiskimjölsverksmiðju stefnda á Raufarhöfn. Í 1. gr. samningsins er fjallað um mánaðarlaun og tímavinnu starfsmanna, en í 2. gr. um vaktavinnu þeirra.

Ágreiningur aðila snýst ekki um túlkun á kjarasamningi þeirra, enda óumdeilt að starfsmenn fá greidd laun samkvæmt 1. og 2. grein hans. Aðilar deila um hvort stefnda hafi verið heimilt að beita ákvæði 3. gr. laga nr. 19/1979 og fella bótalaust niður launagreiðslur til þessara starfsmanna vegna skorts á hráefni til vinnslu í verksmiðjunni á Raufarhöfn. Við úrlausn á þeim ágreiningi reynir á túlkun þessarar lagagreinar auk sönnunaratriða.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á kjarasamningi eða út af ágreiningi um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Ákvæði laga nr. 80/1938 um valdsvið Félagsdóms, sem er sérdómstóll, ber að túlka þröngt. Með vísan til þessa verður að telja að málið falli ekki undir dómsvald Félagsdóms. Ber því að vísa því frá dómi án kröfu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum