Hoppa yfir valmynd
1. júní 2017 Utanríkisráðuneytið

Lítið skjól í landfræðilegum fjarlægðum

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og Björn Bjarnason á fjölsóttum fundi Varðbergs - mynd

„Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni, með tilkomu þjóðaröryggisráðs og þjóðaröryggisstefnu, erum við með tæki í höndunum þar sem horft er með heildstæðum hætti á öryggismál og þær áskoranir sem þjóðin stendur frammi fyrir," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í ræðu á fjölsóttum fundi Varðbergs, sem haldinn var í dag. „Ísland er vitanlega hluti af hinu breytta og flókna öryggisumhverfi. Það er lítið skjól í landfræðilegum fjarlægðum á því herrans ári 2017,“ sagði Guðlaugur Þór ennfremur og vísaði þar m.a. við samskiptanna við Rússland en þar urðu þáttaskil árið 2014 þegar landamærum í Úkraínu var breytt með hervaldi. Þá nefndi ráðherra aukin hernaðarumsvif Rússa nálægt landamærum NATO ríkja og á norðanverðu Atlantshafi, ekki síst umferð rússneskra kafbáta og flug langdrægra sprengjuflugvéla. Þrátt fyrir versnandi samskipti hafi leiðtogar Vesturlanda forðast að kalla Rússland óvinaríki og að ríki Atlantshafsbandalagsins séu reiðubúin til samtals. „Bandalagið vill ekki nýtt kalt stríð eða nýtt vígbúnaðarkapphlaup í Evrópu og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að ræða við Rússland, en af festu, enda séu gagnkvæmir hagsmunir að minnka spennu í samskiptunum og tryggja betri sambúð," sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni.

Guðlaugur Þór benti á að ólíklegt teldist að hernaðarógn steðjaði að Íslandi. Hún væri hins vegar ekki útilokuð og því þyrfti að gera nauðsynlegar ráðstafanir. „Þá þarf ávallt að meta stöðu og horfur í öryggis- og varnarmálum með reglubundnum hætti og kveða lögin um þjóðaröryggisráð á um hlutverk ráðsins í þeim efnum. Ég tel að sýna þurfi ítrustu árvekni við mat á hernaðarógn og teldi rétt að þjóðaröryggisráð léti leggja nýtt mat á hana og aðra áhættuþætti,“ sagði ráðherra. Síðustu ár hafa framlög til öryggis- og varnarmála farið vaxandi og í aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin að bæta enn frekar í, eða framlagi sem nemur rúmum 200 milljónum króna á ársgrundvelli. Utanríkisráðherra undirstrikaði nauðsyn þess að Íslendingar hefðu ætíð á að skipa sérhæfðu starfsfólki sem hefði hæfni og getu til að taka þátt vörnum landsins. Því væri brýnt að efla innviði stjórnkerfisins á sviði öryggis- og varnarmála.

Í máli utanríkisráðherra kom ennfremur fram að varnaræfingum hér við land fari fjölgandi, en umfangsmikil kafbátaleitaræfing á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja hefst síðari hluta þessa mánaðar Þá er á vegum Atlantshafsbandalagsins unnið að endurskoðun viðbragðs- og varnaráætlana er lúta að Norður- Atlantshafi og þær uppfærðar í samræmi við ríkjandi hættumat. „Samhliða þessari vinnu mun ég beita mér fyrir því að gerð verði sérstök viðbragðs- og varnaráætlun fyrir Ísland sem tekur mið af þessum áætlunum með það að markmiði að framkvæmd varna á hættu- eða ófriðartímum fyrir Ísland verði skilvirk og markviss hvað varðar samskipti við erlendan herafla, stjórn og umfang. Mikilvægur þáttur í íslensku viðbragðs- og varnaráætluninni verður einnig að samræma aðkomu og hlutverk annarra ráðuneyta og stofnana er málið varðar við framkvæmd landvarna, svo og samskipti við þjóðaröryggisráð og utanríkismálanefnd Alþingis,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ræða utanríkisráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira