Hoppa yfir valmynd
7. júní 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Málefni aldraðra í forgangi

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi sem miðar að því að bæta kjör aldraðra.

Frumvarið sem ráðherra mælti fyrir í gær felur í sér að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna, sem eru 70 ára eða eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð bóta eða greiðsluþátttöku. Frumvarpið er í samræmi við þann vilja ríkisstjórnarinnar að bæta sérstaklega kjör aldraðra að því er varðar bætur almannatrygginga, svo sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. maí síðastliðnum. Í ræðu ráðherra kom meðal annars fram, þar sem hann vitnaði til stjórnarsáttmálans, að á næstunni verði unnið „að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar.

Enn fremur segir að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu, m.a. verði skerðing tryggingabóta vegna tekna maka afnumin og skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þá segir að stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67 til 70 ára og að almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%. Að lokum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri frá lífeyrissjóði að lágmarki 25.000 krónur á mánuði“.

Sjá nánar ræðu ráðherra (bráðabirgðaútgáfa á vef Alþingis).

Sjá nánar frumvarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á vef Alþingis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum