Hoppa yfir valmynd
30. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fundur Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu

Huga þarf að breyttu skipulagi í öldrunarþjónustu þannig að verkefnum sé sinnt sem best og á sem hagkvæmastan hátt. Þetta kom fram í ávarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, á fundi Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu í dag. Hrannar Björn Arnarsson flutti ávarpið fyrir hennar hönd.

Í ávarpi ráðherra kom fram að þrátt fyrir breyttar aðstæður verði áfram unnið að því markmiði að flytja ábyrgð á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. „Þessi þjónusta er í eðli sínu nærþjónusta og á best heima hjá sveitarfélögunum. Það þori ég að fullyrða að þjóni best hagsmunum aldraðra og sömuleiðis er ég viss um að þannig fáist betri nýting fjármuna, hægt sé að veita meiri og betri þjónustu fyrir hverja krónu.“ Ráðherra vísaði meðal annars til þjónustusamninga við Akureyrarkaupstað sem annast rekstur á allri öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þar væru daggjöld greidd fyrir dvalar- og hjúkrunarrými á stofnunum eftir nýtingu þeirra en bærinn hefði ekki fjárhagslegan ávinning af því að draga úr stofnanavistun aldraðra með því að gera fleirum kleift að búa heima með aukinni heimaþjónustu.

„Nú reynir á fyrirhyggju og útsjónasemi til að sinna verkefnum sem best á eins hagkvæman hátt og kostur er. Þá er mér ekki efst í huga aðhaldssemi í rekstri á öldrunarstofnunum, því ég veit að stjórnendur þeirra hafa gert flest sem í þeirra valdi stendur til að hagræða í rekstri sínum. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til breytinga á skipulagi öldrunarþjónustunnar í heild til að tryggja betur notkun úrræða í samræmi við þarfir notendanna.“

Ráðherra lagði í ávarpi sínu áherslu á að vinnu við einföldun almannatryggingakerfisins yrði haldið áfram af kappi, enda hefði síður en svo dregið úr mikilvægi þess við þær aðstæður sem upp væri komnar. Þá gerði ráðherra mönnun öldrunarþjónustunnar að umtalsefni í ljósi breyttra aðstæðna.

„Það er ábyggilegt að mönnun öldrunarþjónustunnar verðu ekki vandamál á næstu misserum þar sem atvinnuleysi er nú þegar orðið verulegt vandamál. Við megum samt ekki láta þessa staðreynd slá ryki í augun á okkur. Mönnunarvandi öldrunarþjónustunnar mun leysast tímabundið vegna aðstæðna. Þann tíma ber okkur að nýta til þess að byggja upp öflugan og vel menntaðan hóp starfsfólks sem verður viljugt og reiðubúið til að halda áfram störfum þegar betru tíð gengur aftur í garð. Því vil ég eftir sem áður endurskoða launakjör fólks í umönnunarstörfum með hliðsjón af öðrum hópum og tryggja til framtíðar að störf í öldrunarþjónustu verði eftirsóknarverður kostur fyrir fólk sem hefur áhuga á að vinna með fólki og fyrir fólk.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp sem flutt var á fundi Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum