Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 52/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 52/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19010023 og KNU19010024

 

Beiðnir [...], [...] og barna þeirra um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 543/2018, dags. 12. desember 2018, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 11. október 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir […], fd. […], […], fd. […], og barna þeirra […], fd. […], […], fd. […], og […], fd. […], ríkisborgara Pakistans, um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 17. desember 2018. Kærendur lögðu fram beiðnir um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 11. janúar 2019. Beiðnum kærenda um frestun réttaráhrifa var vísað frá af kærunefnd með úrskurði nr. 18/2019, dags. 14. janúar sl. Þann 21. janúar sl. bárust kærunefnd beiðnir kærenda um endurupptöku málanna, ásamt beiðnum um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar nr. 543/2018. Með beiðnunum lögðu kærendur fram greinargerð og fylgigögn. Kærendur óskuðu eftir því í greinargerð að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málanna. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kærendum kost á að koma fyrir nefndina.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar munu mál kærenda haldast í hendur í úrskurði þessum.

Beiðnir kærenda um endurupptöku mála þeirra er byggð á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá fara kærendur fram á frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í málum þeirra.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðnir sínar um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga, annars vegar á grundvelli þess að aðstæður hafi breyst frá því að ákvarðanir voru teknar í málum þeirra og hins vegar á þeim grundvelli að ákvarðanirnar hafi verið byggðar á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að kærendur telji að íslensk stjórnvöld hafi, við ákvarðanatöku í málum þeirra, ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga eða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 10. gr. og 12. gr. síðarnefndu laganna. Því hafi kærendur ákveðið að fara með málið fyrir íslenska dómstóla, hvar þau muni krefjast þess að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd verði teknar til efnismeðferðar hérlendis.

Íslensk yfirvöld hafi hafnað umsóknum kærenda á þeim grundvelli að þau hafi verið með vegabréfsáritun til Spánar, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), en kærendur hafi einungis aflað vegabréfsáritunarinnar til að geta flúið heimaríki sitt. Þeirra bíði nú það eitt að verða send frá Spáni til heimaríkis þar sem þau hafi ástæðuríkan ótta við aftökur, pyndingar, ofbeldi eða aðra ómannúðlega meðferð. Af þeim ástæðum glími þau við andleg veikindi, kvíða, ótta, streitu, áráttu- og þráhyggjuröskun, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir.

Kærendur óttist samtök talibana í heimaríki og vísi til framlagðra hótunarbréfa, svo og þýðinga á þeim, og annarra gagna sem þau hafi lagt fram máli sínu til stuðnings. Þá óttist kærendur endursendingu til Spánar, m.a. sökum þess að þar séu margir Pakistanar. Kærendur kveða að margir þeirra séu múslimar og tengdir talibönum. Þau hafi ástæðuríkan ótta við að þeir talibanar, sem hafi hótað fjölskyldunni lífláti, muni frétta af veru þeirra á Spáni og að af því muni hljótast hræðilegar afleiðingar. Enn fremur óttist kærendur synjanir á umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á Spáni og þar með endursendingu til heimaríkis. Við mat á stöðu fjölskyldunnar beri að taka mið af því að meðal kærenda séu þrjú ung börn og að aðdragandi flótta þeirra hafi haft veruleg andleg áhrif á alla fjölskylduna. Fjölskyldan sé í viðkvæmri stöðu og beri að taka mál þeirra til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærendur telji að íslensk stjórnvöld hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti hvort fjölskyldan verði örugg á Spáni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og enn fremur að endursending þangað muni fela í sér brot á meginreglunni um non-refoulement. Þá beri íslenskum stjórnvöldum ekki einungis að líta til aðstæðna kærenda á Spáni heldur jafnframt í heimaríki. Kærendur vísa þá til 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þá rekja kærendur í greinargerð sinni lagarök að baki rétti flóttamanna til alþjóðlegrar verndar, sbr. 37. gr. og 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, og bann við því að vísa fólki þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna,  68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Kærendur rekja þá 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með beiðnum sínum lögðu kærendur m.a. fram gögn sem þau kveða að innihaldi hótanir af hálfu aðila sem þau óttist í heimaríki.

III.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðnir um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. desember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kærenda til Spánar bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kærunefndar var staða fjölskyldunnar ekki talin þess eðlis að fjölskyldan í heild væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, en tekið var tillit til þess við meðferð málsins að meðal kærenda væru ung börn. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í málum kærenda, þ.e. kærendur hefðu hvorki slík sérstök tengsl við landið né væru aðstæður þeirra að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Með úrskurði kærunefndar nr. 18/2019, frá 14. janúar 2019, var jafnframt tekin afstaða til beiðna kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar frá 12. desember sl., sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Svo sem fram hefur komið byggja kærendur endurupptökubeiðnir sínar m.a. á framlögðum hótunarbréfum. Kærendur telji þau upplýsa enn frekar um þá hættu sem bíði þeirra á Spáni og í heimaríki, verði þeim synjað um alþjóðlega vernd á Spáni.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðnir kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 12. desember sl., ásamt áðurgreindum fylgigögnum sem liggja fyrir í málunum. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir við uppkvaðningu úrskurðar í málum kærenda. Að mati kærunefndar benda áðurgreind gögn, sem kærendur hafa lagt fram með beiðnum sínum, ekki til þess að um verulega breyttar aðstæður kærenda sé að ræða frá því að úrskurður nefndarinnar lá fyrir í málum þeirra. Þá þegar lá fyrir að kærendur óttuðust téða aðila í heimaríki sínu og var það lagt til grundvallar við úrlausn málanna.

Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kærenda, sem þau bera fyrir sig í málum þessum, í úrskurði kærunefndar frá 12. desember 2018. Kærunefnd ítrekar það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar, þ.e. að synjun á efnismeðferð umsókna þeirra leiði að mati nefndarinnar ekki til brots gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, þ. á m. sé ljóst af rannsókn nefndarinnar að kærendur muni ekki sæta varðhaldi við flutning til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá verði jafnframt ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærendur geti leitað aðstoðar spænskra yfirvalda, telji þau öryggi sínu ógnað á Spáni. Að teknu tilliti til frásagnar kærenda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðnum um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 12. desember 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málanna hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfum kærenda um endurupptöku málanna er því hafnað.

Með úrskurði nr. 18/2019, frá 14. janúar sl., vísaði kærunefnd frá beiðnum kærenda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar frá 12. desember sl., þar sem þær voru of seint fram komnar, sbr. 3. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Í málum þessum hefur ekkert komið fram sem kallar á að vikið verði frá tímafresti ákvæðisins.

Við meðferð málanna hefur verið tekið tillit til hagsmuna barna kærenda, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kærenda um endurupptöku er hafnað.

 

The requests of the appellants to re-examine the cases is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum