Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2016 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagabreytingum vegna stofnunar millidómstigs til umsagnar

Innanríkisráðuneytið óskar umsagna við frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 6. september 2016.

Þann 26. maí 2016 samþykkti Alþingi tvö lagafrumvörp innanríkisráðherra sem koma á fót millidómstigi á Íslandi, annars vegar ný heildarlög um dómstóla, nr. 50/2016 og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Taka framangreind lög gildi þann 1. janúar 2018. Samþykkt framangreindra laga kallar á breytingar á fjölmörgum lagabálkum.

Til hægðarauka eru fyrirhugaðar breytingar settar fram í sérstöku samanburðarskjali sem er að finna hér að neðan. Skjalið er þannig uppsett að í vinstri dálki birtist gildandi réttur en í hægri dálki hafa fyrirhugaðar breytingar verið felldar inn með rauðum texta. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  1. Lagðar eru til breytingar á gildandi dómstólalögum nr. 15/1998 þannig að dómarar í Hæstarétti verði 10 út árið 2017 og dómarar í héraði 42.
  2. Lagðar eru til lagfæringar á bráðabirgðaákvæðum nýrra laga um dómstóla nr. 50/2016.
  3. Lagt er til að lagaskilaákvæði 78. gr. laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, verði breytt í þá veru að Hæstiréttur ljúki meðferð þeirra mála sem réttinum hafa borist þann 1. janúar 2018. Samkvæmt núgildandi ákvæði er ráðgert að þau mál sem Hæstiréttur hefur ekki lokið á þeim tíma færist til Landsréttar.
  4. Lagðar eru til breytingar á þeim ákvæðum laga um lögmenn nr. 77/1998 er varða málflutningsréttindi lögmanna. Er í þeim efnum byggt á tillögum sem samþykktar voru á félagsfundi Lögmannafélags Íslands.
  5. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum fjölmargra sérlaga, einkum á sviði fullnusturéttarfars, er varða kæruheimildir á milli dómstiga.

Aðrar breytingar eru minniháttar og lúta fyrst og fremst að lagasamræmingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum