Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Ný hugsun í geðheilbrigðismálum

Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir!

Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn er nú haldinn í fjórtánda sinn en 10 október hefur árlega verið helgaður umræðum um geðheilbrigðismál frá árinu 1992. Forvarnir gegn sjálfsvígum eru umfjöllunarefnið að þessu sinni og kjörorð dagsins vaxandi vitund - aukin von.

Ráðstefnan hér í dag ber yfirskriftina ,,Ný hugsun í geðheilbrigðismálum." Í kynningu segir að gagnrýni á hefðbundna meðferð geðröskunar hafi aukist á undanförnum árum og að gagnrýnin beinist að of mikilli áherslu á lyfjagjöf í meðferð og of lítilli áherslu á þætti sem auðvelda fólki með geðraskanir að lifa eðlilegu lífi í samfélaginu. Þá segir í kynningu að tímabært sé að opna þessar umræður, leiða fram gagnstæð sjónarmið og vega þau og meta.

Um leið og ég tek heilshugar undir að umræðan sé þörf vil ég samt hvetja til varfærni í framsetningu og yfirlýsingum. Ný hugsun í geðheilbrigðismálum er af hinu góða, en við megum samt ekki kasta fyrir róða því sem við höfum byggt upp á undanförnum árum. Heilbrigðisþjónustan er í stöðugri þróun og geðheilbrigðisþjónusta er þar ekki undanskilin. Við skulum með yfirvegaðri og sanngjarnri umræðu efla vitund okkar um geðheilbrigðismál en varast stóryrði sem varpa rýrð á viðurkennd meðferðarúrræði sem komið hafa mörgum að góðum notum.

Mér finnst varasamt að taka almennt undir þá fullyrðingu að of mikil áhersla sé lögð á lyfjagjöf við meðferð geðsjúkdóma. Til þess hef ég ekki nógu órækar sannanir í höndunum, en ég veit hins vegar að lyf hafa aukið og bætt lífsgæði fjölda fólks, ekki síst þeirra sem þjáðst hafa af þunglyndi. Mikið hefur verið rætt um að notkun geðdeyfðarlyfja sé óeðlilega há hér á landi miðað við nágrannaþjóðir okkar. Rétt er það að hún er mun meiri hér. En við vitum ekki hvort hún sé óeðlilega há hér á landi eða hvort nágrannaþjóðir okkar séu of aðhaldssamar í þessum efnum.

Í ljósi umræðunnar að undanförnu um notkun geðlyfja hefur Kristinn Tómasson, geðlæknir, bent á hvernig aðstæður geðsjúkra gjörbreyttust með tilkomu m.a. geðlyfja. Um 1960 voru um 300 einstaklingar á Kleppi, langflestir til langtímaumönnunar og gátu ekki verið heima vegna veikinda sinna. Í dag eru um 150 rúm fyrir geðsjúka, langflest til skamms tíma í senn. Kristinn segir að ef ekki hefði komið til gjörbylting með tilkomu geðlyfjanna þyrftu líklega um 600 manns að dvelja langdvölum á geðdeild, en þeir eru nú á bilinu 50 – 60. Hinir 550 lifa í samfélaginu með stuðningi í formi almennrar geðlæknismeðferðar, lyfja og viðtala, auk iðju- og félagsþjálfunar.

Sagt er að of lítil áhersla sé lögð á þætti sem auðvelda fólki með geðraskanir að lifa eðlilegu lífi í samfélaginu. Þar erum við að gera bragarbót á eins og kynnt var m.a. í gær af félagsmálaráðherra, en nefnd á hans vegum sem heilbrigðisráðuneytið á fulltrúa í, er að bæta búsetuskilyrði og þjónustu þessa hóps. Ég er sammála því að við eigum að hafa notendur geðheilbrigðisþjónustunnar meira með í ráðum en hingað til, þjónustan þarf að vera fjölbreytt og einstaklingsmiðuð og varast þarf forræðishyggju gagnvart þeim sem vilja og geta haft áhrif á eigin meðferð og úrræði sér til handa.

Hér á landi hafa sprottið upp öflug notendasamtök sem hafa látið til sín taka, veitt stjórnvöldum bæði stuðning og aðhald með uppbyggilegri gagnrýni og átt þátt í uppbyggingu nýrra úrræða. Þessi aðkoma notenda að þróun geðheilbrigðisþjónustunnar er afar mikils virði. Kynntist ég því m.a. á skemmtilegri ráðstefnu sem Hugarafl hélt fyrir skömmu á Hótel Sögu.

Nýlega kynnti ég stefnumótun í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með hegðunar- og geðraskanir. Þar er megináhersla lögð á að efla grunnþjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði þannig að sem flestir geti sótt þangað með vægari vandamál, en að sérhæfðari þjónusta fái nauðsynlegan styrk og aukið svigrúm til að sinna þeim sem veikastir eru.

Ég tel að með þessum aðgerðum batni aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er slík að okkur er eðlilegt og sjálfsagt að leita til heilsugæslunnar þegar við verðum veik. Þannig á það ekki aðeins að vera þegar um er að ræða líkamleg veikindi, heldur einnig þegar að okkur sækir andleg vanlíðan. Þá þarf að hafa í huga að líkamlegt og andlegt heilbrigði verður ekki aðskilið. Starfsfólk heilsugæslunnar verður því að hafa kunnáttu og þekkingu til þess að greina heilsufarsvandamál hverjar sem rætur vandans eru, enda eru þær iðulega samofnar.

Fyrir rúmu ári voru gerðir samningar um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni milli Landspítala – háskólasjúkrahúss, Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið styrkir. Þetta verkefni hefur fallið í frjóan jarðveg og ég tel það tímamótaverkefni í því skyni að efla geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar og bæta verulega þjónustu við geðsjúka.

Vaxandi vitund, aukin von er kjörorð okkar í dag. Vitund okkar vex best með hreinskiptinni umræðu, uppbyggilegri gagnrýni og virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra sem hafa til málanna að leggja. Við þurfum að halda áfram baráttu gegn fordómum og við þurfum að leggja ríka áherslu á forvarnir. Talið er að um fjórðungur fólks þjáist einhvern tímann á ævinni af geðrænum vandamálum. Okkur er því öllum málið skylt. Við þurfum að gera fólki sem auðveldast fyrir að leita sér aðstoðar þegar hennar er þörf og vinna þannig gegn vandanum áður en hann verður djúpstæður og erfiður viðureignar. Ég fagna því að fordómar gagnvart þeim sem eiga við geðraskanir að stríða hafa farið minnkandi hin seinni ár.

Í janúar í fyrra var undirrituðu í Helsinki Evrópuyfirlýsing um geðheilbrigðismál af heilbrigðisráðherrum aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Yfirlýsingin er afar víðfeðm og tekur til stefnumótunar og aðgerða sem snerta fjölmörg svið samfélagsins. Ég hvet alla til að kynna sér efni þessarar yfirlýsingar. Hún er bæði metnaðarfull og framsýn og það er mikils virði fyrir heilbrigðisyfirvöld að eiga slíkan vegvísi að fara eftir.

Mér er fyllilega ljóst að við höfum verk að vinna í geðheilbrigðismálum hér á landi. Þetta er mikilvægur málaflokkur sem þarf að sinna vel. Að undanförnu hefur verið unnið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu að stefnumótun á þessu sviði. Ég hef nú ákveðið að ráða í hlutastarf sérfræðing, geðlækninn Ólaf Þór Ævarsson, til að sinna þessum málum sérstaklega í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, ekki síst til að fylgja eftir framkvæmd þeirra verkefna sem stefnumótunin felur í sér.

Ágætu ráðstefnugestir!

Það er tímabært að hefja umræðurnar og um leið og ég óska ráðstefnugestum innihaldsríks dags lýsi ég ráðstefnuna setta.   

 

(Talað orð gildir)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira