Hoppa yfir valmynd
25. september 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Ný heilsugæslustöð á Skagaströnd

Kæru gestir, íbúar Skagastrandar, sveitarstjórnarmenn og aðrir góðir gestir.

Ég vil til að byrja með óska okkur öllum til hamingju með þessa glæsilegu byggingu, sem við erum hér að vígja og taka í notkun. Þessi nýja stöð mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir íbúa Skagastrandar og nærsveita sem þurfa að sækja sér þjónustu heilsugæslunnar. Fyrir alllöngu var ljóst að húsnæði það sem nýtt hefur verið undir heilsugæslu hér á Skagaströnd þurfti mikilla úrbóta við, þótt það hafi þótt gott á sínum tíma þegar það var tekið í notkun 1967.

Til að gera langa sögu aðdragandans stutta þá varð sú lausn ofan á, að byggja hér samskonar hús og nýlega var tekið í notkun á Reyðarfirði og hefur reynst vel, arkitekt hússins er Björn Kristleifsson.  Ákveðið var að stöðin yrði tengd dvalarheimilinu Sæborgu.  Samnýting af ýmsum toga er því möguleg.  Eftir útboð var samið við trésmiðju Helga Gunnarssonar og er heildarkostnaður við framkvæmdina tæpar 65 milljónir króna.  Húsið er fullbúið um 250 fermetrar auk tengigangsins. Eins og sjá má þá er í því aðstaða fyrir einn lækni og hjúkrunarfræðing. Einnig má geta 40 fermetra aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun.

Í tengslum við þessa nýbyggingu hefur einnig verið ráðist í nánast algjöra endurnýjun alls tækja- og áhaldabúnaðar stöðvarinnar, og hún því búinn öllum þeim tækjum og tólum sem í dag eru talin sjálfsögð á stöð af þessari stærð. 

Það er mín sannfæring að þessi nýja og glæsilega aðstaða muni gjörbreyta allri heilsugæsluþjónustu hér á svæðinu, bæði gagnvart þeim sem hennar eiga að njóta og jafnt þeirra sem hana veita.

Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að heilsugæslan sé og eigi að vera grunnþjónustan í okkar íslensku heilbrigðisþjónustu.  Ég tel reyndar að svo muni verða um óákveðinn tíma og um það sé nokkuð mikil almenn sátt.  Það má um leið velta því fyrir sér, hvað átt er við þegar sagt er að heilsugæslan sé grunnþjónusta, eins og gjarnan er haft á orði. Jú, þá er átt við að heilsugæslan er þjónusta sem á að vera í boði nálægt íbúum landsins alls og því dreifð um landið allt; hún á að vera vel aðgengileg og því biðtímar stuttir, jafnt í síma og til að hitta heilbrigðisstarfsfólk; hún á að vera fjölhæf og á að veita úrlausn í flestum vandamálum íbúanna, ungra sem gamalla, karla sem kvenna; hún á að veita samfellu í þjónustu til langs tíma og hún á að vera í góðum tengslum við sérhæfðari þjónustu þegar á slíku er þörf. Á þennan hátt á heilsugæslan að  tryggja íbúunum, að vel sé um þá hugsað, þegar eitthvað bjátar á sem tengist heilsufari þeirra.

Þessi stöð sem hér starfar er í beinum tengslum við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi og er hluti hennar, læknar frá Blönduósi skiptast á um að hafa hér opna stofu.

Í þessu sambandi má til gamans aðeins rifja upp þá skemmtilegu tilviljun, að í ár eru 240 ár frá því Norðlendingar fengu fyrsta lækninn í landsfjórðunginn, sex árum eftir að Bjarni Pálsson landlæknir var skipaður fyrsti landlæknirinn og þar með eini læknirinn á Íslandi með setu í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Það var með konungsbréfi dagsettu 20. júní 1766 að Magnús Guðmundsson frá Stóra-Holti í Saurbæjarhreppi var skipaður læknir í Norðlendingafjórðungi. Magnús sat fyrst á Arnarnesi á Árskógsströnd, síðan á Ökrum og loks á Úlfsstöðum í Blöndudal.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, skipun héraða verið margoft breytt og aðlöguð breyttri byggð í landinu á hverjum tíma.  Grunnhugsunin hefur ætið verið að þjóna íbúum í heimabyggð.   Líkt og annars staðar á landinu hefur sameining stofnana átt sér stað í þessum landsfjórðungi og hefur þetta tvímælalaust styrkt heilsugæsluna og heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, auðveldað mönnun hennar  um leið og faglegri þjónustu við íbúana er haldið á hæsta mögulegu og skynsamlegu stigi.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að þessi þróun með stækkuðum stofnunum mun eiga sér áfram stað víða um landið eftir því sem tímanum vindur fram, en bættar samgöngur, bættir möguleikar á fjarlækningum, bættir möguleikar á viðhaldsnámi starfsmanna í gegnum netið o.s.frv., ætti að tryggja að áfram sé veitt, á stöðum eins og Skagaströnd, sú besta þjónusta sem völ er á eða þá að auðvelt sé að leita hennar þar sem hún býðst.  Í þessu sambandi tel ég t.d. sérstaklega mikilvægt að skoða alla möguleika á því að bæta sérfræðiþjónustu víða úti á landi, en eins og kunnugt er, er henni mjög misjafnlega skipt, sé litið til búsetu landsmanna. Tel ég sjálfsagt að aukin sérfræðiþjónusta verði hluti af heilsugæslu framtíðarinnar.

Annar þáttur sem hefur farið vaxandi í starfsemi heilsugæslunnar um land allt er þjónusta við aldraða, hún er óaðskiljanlegur hluti grunnþjónustunnar. Með öflugri heimahjúkrun, vitjunum lækna og virku samstarfi við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita, þá er hún besta aðferðin til þess að tryggja öldruðu fólki þau sjálfsögðu mannréttindi, að geta búið sem lengst á heimilum sínum. Fólk á ekki að þurfa að leita inn á stofnanir af ótta við að vera illa þjónað í heimabyggð.

Annar þáttur sem ég vil gjarnan nefna í þessu samhengi og ég er að leggja verulega mikla áherslu á núna, er aukin þjónusta á sviði geðlæknisþjónustu, bæði fyrir börn og fullorðna og í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að heilsugæslan um land allt mun gegna þar lykilhlutverki. 

Að endingu vil ég aftur óska okkur öllum til hamingju með þá glæsilegu stöð sem hér er verið að vígja og taka í notkun. Vona ég að heill og hamingja muni vera með störfum þeirra sem hér eiga eftir að starfa sem og með þeim sem hingað leita.

 

(Talað orð gildir)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum