Hoppa yfir valmynd
25. október 2006 Heilbrigðisráðuneytið

„Áfall en ekki endirinn!“

Ávarp ráðherra á ráðstefnu Heilaheilla

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með ykkar mikla starf. Það er mikilvægt fyrir svo stóran hóp að eiga sér félagsskap sem getur stuðlað að framförum í meðferð og stutt þá, sem verða fyrir slagi og fjölskyldur þeirra, við að takast á við það sem á eftir kemur. Þá er líka mikilvægt fyrir þá sem móta stefnu í heilbrigðismálum og fagfólk að geta leitað í smiðju þeirra sem hafa beina reynslu af þjónustunni.

Heilaheill hefur verið með öflugt starf. Heimasíða félagsins er glæsileg og greinilega uppfærð reglulega. Þá hefur félagið ásamt nokkrum öðrum félögum fólks með sjúkdóma í taugakerfi, m.a. gefið taugadeild LSH ýmsa góða gripi og það er sannarlega gott fyrir stofnanir og deildir að eiga slíka hauka í horni.

Um það bil 700 Íslendingar fá slag á hverju ári sem er jafnframt algengasta ástæða fötlunar hér á landi. Afleiðingar slags geta verið með ýmsu móti og fara eftir eðli og umfangi áfallsins. Allt frá því að vera mjög vægt með litlar sem engar afleiðingar í það af hafa í för með sér mjög mikla líkamlega og/eða andlega skerðingu eða jafnvel dauða. Slag er 3. algengasta dánarorsökin í hinum vestræna heimi.

Í Bandaríkjunum er talið að um 750.000 manns fái slag árlega sem miðað við höfðatölu eru nokkru fleiri en þeir 700 sem talað er um hér á landi. Þar er talið að yfir 4 milljónir manna séu á lífi sem hafa lifað af slag en það samsvarar um 4 þúsund manns hér á landi. Þetta svarar til um það bil 1,3% allra Íslendinga sem er ekki lítið. Þegar litið er til þess að meiri hluti þeirra sem verða fyrir slagi verður fyrir tímabundinni eða varanlegri færniskerðingu má álykta að fáir sjúkdómar hafi eins mikil áhrif á daglegt líf eins margra og slag.

Þekking á slagi hefur aukist á undanförnum árum. Áhættuþættir eru orðnir ljósari og þess vegna hefur tekist að vinna fyrirbyggjandi starf m.a. með því að meðhöndla háþrýsting og hjartsláttaróreglu. Einnig hafa orðið framfarir í bráðameðferð. Endurhæfing er afar mikilvæg þegar slag hefur í för með sér skerðingu á færni hvort sem er andlega eða líkamlega. Frumendurhæfing heilaáfallssjúklinga hefur að mestu farið fram á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og á Kristnesi fyrir norðan en framhaldsendurhæfing hefur verið á Reykjalundi og í Hveragerði eftir atvikum. Þá hefur fólk einnig átt kost á framhaldsendurhæfingu á göngudeildum og oft er hægt að vinna með afmörkuð vandamál á stofum hjá talþjálfum, iðjuþjálfum eða sjúkraþjálfurum ef svo ber undir. Þess ber einnig að geta að meðferð og endurhæfing fer líka fram á fleiri stöðum, bæði heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum víða um land.

Afar mikilvægt er að fast verði tekið á þeim þáttum sem lúta að forvörnum. Þær forvarnir sem þarf að beita eru ekki allar sértækar til varnar slagi heldur virka einnig verndandi gagnvart ýmsum öðrum vandamálum. Það er með slag eins og svo margt annað, það þarf að fylgjast með blóðþrýstingi, þyngd og blóðfitu, það þarf að hreyfa sig, vera í eins góðu líkamlegu ásigkomulagi og nokkur kostur er. Og sama gildir eftir að áfall hefur dunið yfir. Þá þarf að vinna áfram með áhættuþætti, þjálfa sig og viðhalda þeirri færni sem náðst hefur.

Að mínu mati stöndum við vel að vígi í því sem lýtur að meðferð fólks eftir slag. Á sjúkrahúsum er starfandi afbragðs fagfólk og meðferð í bráðafasa er góð. Frumendurhæfing er almennt aðgengileg og á því stigi eru slagsjúklingar ekki látnir bíða eftir endurhæfingu, hvort sem hún fer fram á bráðadeild eða endurhæfingardeild. Ég held ég geti fullyrt að meðal fagfólks þyki eðlilegt að slagsjúklingar hafi forgang umfram ýmsa aðra hópa í endurhæfingu, því mikið er í húfi að fólk fái viðeigandi endurhæfingu sem fyrst þegar færniskerðing hefur orðið. Þá er almennur aðgangur að læknisþjónustu og annarri heilbrigðisþjónustu almennt góður og því ætti að vera hægt um vik að fylgja langtímameðferð eftir til að fyrirbyggja frekari áföll í framtíðinni.

Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið rannsakað sérstaklega meðal fólks sem fengið hefur slag hvernig það metur aðgengi sitt að endurhæfingu en samkvæmt biðlistum á fjórar helstu endurhæfingarstofnanir landsins sl. vor þá voru mjög fáir sem biðu eftir endurhæfingu vegna langtímaafleiðinga slags. Ég vona að það sé vísbending um að þörfum hópsins sé vel sinnt hvað varðar endurhæfingu.

Eins og fram kom hér að framan er verið að vinna að því að draga úr áhættuþáttum. Tíðni slags hefur samt ekki dregist saman á undanförnum árum þrátt fyrir það, heldur aukist. Sú aukning stafar fyrst og fremst af því að þjóðin eldist því tíðnin eykst með hækkandi aldri. Ekki hefur verið lagt mat á það hvort tíðni hefur breyst, ef áhrif af aldri eru tekin út. Hins vegar virðast þessi áföll orðin mildari en þau voru áður. Eins og yfirskrift þessa málþings ber með sér, er áfall ekki endirinn og fjölmargir snúa aftur til sömu starfa, eða annarra þótt þeir hafi fengið slag.

Það er von mín, að enn takist að bæta og efla þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem draga úr tíðni slags. Með öflugri heilsugæslu og almennri vitund manna um gildi heilbrigðra lífshátta ættum við að geta gert enn betur. Lýðheilsustöð leggur í starfi sínu mikla áherslu á heilsusamlegt mataræði og að auka hreyfingu meðal fólks, eins og ýmis átaksverkefni og fræðsla sem hún stendur fyrir sýnir. Báðir þessir þættir skipta máli við að draga úr tíðni slags eins og ýmissa annarra sjúkdóma. Í okkar litla samfélagi skiptir máli að allir leggi sitt af mörkum. Heilbrigðisstarfsfólk er í lykilhlutverki við að aðstoða þá sem hafa orðið fyrir slagi til að bæta lífsskilyrði þeirra, en samtök eins og Heilaheill hafa líka miklu hlutverki að gegna. Hlutverk við að upplýsa almenning, styðja þá sem hafa fengið slag og veita þeim sem halda um stjórnvölinn, aðhald og upplýsingar.

Ég óska hér með eftir góðu samstarfi við samtökin og óska ykkur alls góðs í störfum ykkar.

 

Takk fyrir.

 

 

(Talað orð gildir)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum