Hoppa yfir valmynd
8. desember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Tryggingastofnun 70 ára – ávarp ráðherra

Ágætu gestir.

Fáar íslenskar stofnanir eru eldri en sjálft lýðveldið Ísland – Tryggingastofnun ríkisins er ein þessara stofnana. Ef við lítum yfir söguna tel ég að við getum í stærstu dráttum verið stolt af því sem gert hefur verið í nafni stofnunarinnar fyrir hönd löggjafans.

Þegar Tryggingastofnun ríkisins stóð á sextugu, 1. apríl 1996, lét einn fyrrverandi tryggingamálaráðherra svo um mælt að hann teldi vafasamt að Tryggingastofnun ríkisins yrði til eftir tíu ár. Spá hans gekk ekki eftir.

Kannski var hann að vísa til þess að á sjötugs afmælinu væri komið að hefðbundnum starfslokum stofnunarinnar í skilningi verkloka embættismannsins, gerandi ráð fyrir að okkur tækist ekki að ná samkomulagi við aldraða um sveigjanleg starfslok, eins og við gerðum fyrr á þessu ári. Kannski hefur hann mislesið hið pólitíska landslag eða talið að breytingar yrðu á samfélagsháttum sem yllu því að TR væri ekki starfandi í dag, en slíkar breytingar hafa ekki orðið. Tryggingastofnun ríkisins verður starfandi enn um langa hríð og starfsemin og hlutverk stofnunarinnar munu breytast, rétt eins og þau hafa breyst í áranna rás.

Tryggingastofnun ríkisins og hugmyndafræðin sem hún byggðist á í upphafi mótaðist og varð til á þeim árum þegar hér var við völd ríkisstjórnin sem kallaði sig “stjórn hinna vinnandi stétta”. Ríkisstjórn sem í sögulegu ljósi var ein sú merkasta á liðinni öld. Ríkisstjórn sem hafði skilning á mikilvægi atvinnuuppbyggingar og félagslegra umbóta, ríkisstjórn sem studdist við þingmeirihluta sem hafði næman skilning fyrir vondum afleiðingum félagslegs óöryggis og gerði sér grein fyrir því böli sem atvinnuleysi gat orðið fyrir þann sem missti atvinnuna. Í orðræðu hvunndagsins finnst mér stundum að við gætum í þessum efnum lært svolítið af áum okkar í pólitískum skilningi.

Það varð á þessum tímum félagsumbylting í landinu með gildistöku laga um alþýðutryggingar á árinu 1936. Þá var hér komið á virku almannatryggingakerfi og allt frá þeim tíma hafa almannatryggingar og Tryggingastofnun ríkisins verið nátengd í hugum almennings. Tryggingastofnun ríkisins hefur verið hinn sýnilegi framkvæmdaaðili, stofnunin sem falið var að hrinda í framkvæmd því sem ákveðið var og er á Alþingi – og af framkvæmdavaldinu sem stofnunin heyrir undir.

Um það leyti sem menn voru að venjast tilhugsuninni um íslenskt lýðveldi veltu hugsuðir á sviði almannatrygginga því fyrir sér hvort það væri ekki verðugt markmið fyrir hið nýfædda lýðveldi að taka upp eftir Roosevelt bandaríkjaforseta það sem hann hafði skilgreint sem eitt af fjórum frelsishugtökum mannkyns – The Freedom from Want – eða frelsi frá skorti. Og þeir spurðu: Er hægt að skapa félagslegt öryggi með almannatryggingum?

Þessir menn sem voru djúpvitrir í skilningi almannatrygginga treystu sér ekki til að svara spurningunni játandi.

Það er hins vegar afar athyglisvert að skoða hvað þeir töldu að til þyrfti svo skapa mætti það sem þeir skilgreindu sem félagslegt öryggi. Nálgun þess að vera frjáls frá skorti.

Þeir skilgreindu félagslegt öryggi víðtækt. Í fyrsta lagi þyrfti að útrýma atvinnuleysinu að mestu leyti, í öðru lagi að gefa almenningi kost á að lifa sómasamlegu menningarlífi, í þriðja lagi að bægja frá skorti á brýnustu lífsnauðsynjum, og í fjórða lagi að tryggja almenningi góða almenna uppfræðslu.

Þannig töldu þeir að nálgast mætti frelsi frá skorti.

Ég vísa til þessa hér vegna þess að mér finnst á stundum eins og þessari hér í dag bæði áhugavert og nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað það er sem við erum að reyna að tryggja og köllum velferð. Hvað við getum gert sameiginlega, hvað við eigum að gera sameiginlega og hvað af velferðinni verður ávallt í okkar eigin höndum.

Ég sagði áðan að hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins hefði breyst í tímans rás og ætti enn eftir að breytast. Stofnunin er nú fyrst og fremst þjónustustofnun við almenning og ég sé fyrir mér að stofnunin muni þróast enn frekar til þeirrar áttar. Stefna TR er enda sú að vera þjónustustofnun sem gegnir veigamiklu hlutverki í íslensku velferðarkerfi.

Á heimasíðu Tryggingastofnunar kemur þessi stefna stofnunarinnar fram og þar skilgreinir hún sig, með réttu “sem eina af undirstoðum íslenska velferðarkerfisins”. Þar kemur líka fram að stofnunin lítur svo á að hún sé “frumkvæðisstofnun sem stendur vörð um íslenska velferðarkerfið” og hún hafi að stefnumiði að vera “öflug og traust stofnun, sem ákvarðar og greiðir réttar tryggingabætur, sem veitir gagnlegar upplýsingar og ráðgjöf til almennings, annast eftirlit með málefnum sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum á faglegan, öruggan og hagkvæman hátt.”

Það er stundum talað um að kerfi almannatrygginga sé flókið, illskiljanlegt og þunglamalegt. Að sumu leyti er þetta rétt og að sumu leyti ekki. Löggjafinn hefur kosið að skipa málum þannig, að í Tryggingastofnun ríkisins erum við að vinna eftir almennum lögum og reglum, að tryggja almennan rétt manna og hins vegar höfum við kosið að byggja inn í lög og regluverk takmarkanir og ívilnanir sem ákvarðast af félagslegum og einstaklingsbundnum þáttum. Af sjálfu leiðir að í slíku kerfi er hætt við að upp komi flókin dæmi og veruleiki sem oft getur verið erfitt að skilja við fyrstu sýn. Eðli málsins samkvæmt hlýtur slíkt kerfi að vera nokkuð flókið. Nálgunin er að líta til einstaklingsbundinna þátta eða hópa og þar af leiðandi hljóta að gilda mismunandi reglur um réttindi aðilanna.

Það er hlutverk okkar að leitast við að gera þetta regluverk skiljanlegra gagnvart þeim sem við þjónum, en ég segi nú eins og ég hef áður sagt: Einföldun má ekki fela í sér að réttur einstaklinga eða hópa sé fyrir borð borinn.

Hvernig á að nálgast óskina um einföldun á almannatryggingakerfinu sem margir, þ.á.m. Öryrkjabandalag Íslands og Landamband eldri borgara, bera fram?

Ég hef velt því fyrir mér hvort við ættum að fara að dæmi frænda okkar Dana og setja niður nefnd óháðra sérfræðinga sem hefði það að verkefni um nokkra hríð að skoða hvers konar velferðaþjónustu við viljum veita, hvers konar velferðaþjónustu við viljum veita til næstu 30 til 50 ára. Nefnd af þessu tagi hefði það hlutverk að horfa inn í framtíðina á grundvelli nútímans, og leggja fram hugmyndir og jafnvel beinar tillögur um velferðar-  og þar með almannatryggingakerfi 21. aldarinnar.

Það er afar óheppilegt að tjalda til einnar nætur í þessum mikilvæga málaflokki. Ákvarðanir sem við tökum í dag hafa nefnilega áhrif langt inn í framtíðina og það gæti verið kostur í okkar fámenna, en flókna samfélagi, að leiða saman færa óháða sérfræðinga sem upplýsa okkur um það hvernig hin hugsanlega framtíð gæti litið út. Slíkt nefndarstarf gæti verið forsenda þess að stjórnmálamenn og almenningur geti myndað sér skoðun og tekið ákvarðanir um almannatryggingakerfi næstu áratuganna.

Fyrir ekki löngu síðan flutti Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti Alþýðusambandsins, erindi á vettvangi Tryggingastofnunar ríkisins, en það fjallaði einmitt um hluta af þessari framtíð sem ég er að tala um. Orð Ásmundar vöktu að mínum dómi allt of litla athygli miðað við hvað greining hans og framsetning var merkileg. Í þessum anda teldi ég æskilegt að sérfræðingar opnuðu okkur sýn inn í framtíðina.

Í þessum anda voru þeir raunar að fjalla um almannatryggingar fyrir sextíu árum sem ég vitnaði til hér að framan. Mennirnir sem voru uppteknir af frelsishugtökunum fjórum, sem Roosevelt bandaríkjaforseti hafði skilgreint.

Góðir gestir.

Hún Tryggingastofnun ríkisins er sjötug. Ég óska ykkur og þjóðinni allri til hamingju með það. Ég mun sem ráðherra áfram leggja mig fram um að tryggja rekstrargrundvöll TR af því ég veit að stofnunin er að sinna mikilvægu hlutverki sem krefst talsverðs mannafla og tækjabúnaðar.

Þessi aldna frú, Tryggingastofnun ríkisins, eldist hægt og verður vonandi áfram öflug – öflug þjónustustofnun í þágu almennings. Besta afmælisgjöfin sem stofnunin getur gefið sér sjálf er að verða enn virkari og enn betri í þessu þjónustuhlutverki.

Ég vil óska Karli Steinari Guðnasyni, forstjóra TR og starfsmönnum stofnunarinnar til hamingju með afmælið. Á þessum tímamótum vil ég þakka starfsmönnum öllum, bæði þeim sem hér eru og þeim sem voru hér á undan ykkur, fyrir vel unnin störf.

 

Talað orð gildir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum