Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýtt tónlistarfrumvarp samþykkt í ríkisstjórn

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti nýtt tónlistarfrumvarp fyrir ríkisstjórn sem samþykkti frumvarpið. 

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um tónlist í fyrsta skipti en þar með er löggjöfin uppfærð og sameinuð fyrir allar listgreinar tónlistar. Frumvarpið útfærir einnig hlutverk og verkefni nýrrar Tónlistarmiðstöðvar sem á að taka til starfa eftir áramótin. Henni er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við tónlistarstarfsemi og styðja útflutn­ings­verkefni allra tónlistargreina auk þess að sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Nýr tónlistarsjóður sameinar þrjá sjóði á sviði tónlistar sem starfræktir eru í dag og mun hann vera í umsýslu tónlistarmiðstöðvar.

„Tónlist er blómstrandi list- og atvinnugrein og við þurfum að búa henni frjósaman jarðveg til vaxtar. Með frumvarpinu er markaður heildarrammi fyrir málefni tónlistar og er markmiðið að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að búa henni hagstæð skilyrði. Strax á næsta ári munum við auka framlög til nýrrar Tónlistarmiðstöðvar og nýs tónlistarsjóðs um 150 milljónir króna,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra.

Frumvarpið tekur mið af drögum að tónlistarstefnu 2023–2030 sem unnin var samhliða samningu frumvarpsins. Með frumvarpinu er gildandi löggjöf um Sinfóníuhljómsveit Íslands jafnframt færð undir heildarlög um tónlist.

Við samningu frumvarpsins var litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en í honum kemur fram að ætlunin sé að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess og máli skiptir að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum