Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2003 Dómsmálaráðuneytið

Tilkynning frá Landskjörstjórn til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Landskjörstjórn hefur tilkynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu drög að skiptingu Reykjavíkur í norður- og suðurkjördæmi. Endanleg skipting mun hins vegar ekki liggja fyrir fyrr en í síðasta lagi fjórum vikum fyrir kjördag.

Tilkynning frá Landskjörstjórn til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.



Á fundi landskjörstjórnar í gær, miðvikudaginn 12. febrúar 2003, var fjallað annars vegar um skiptingu Reykjavíkur í suðurkjördæmi og norðurkjördæmi og hins vegar um skiptingu þeirra ríkisborgara sem flutt hafa lögheimili af landinu en kosningarétt eiga í Reykjavík milli kjördæmanna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis (kosningalög), skal við það miðað að kjósendur í hvoru kjördæmi fyrir sig að baki hverju þingsæti séu nokkurn veginn jafnmargir og að hvort kjördæmi sé sem samfelldust heild.

Ákvörðun um mörk kjördæma í Reykjavík ber að miða við íbúaskrá fimm vikum fyrir kjördag og skulu þau auglýst í Stjórnartíðinum eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag. Til undirbúnings þeirri ákvörðun fjallaði landskjörstjórn á fundinum um tillögu að kjördæmamörkum í Reykjavík sem uppfyllir áðurnefnd lagaskilyrði, sbr. og niðurlag 1. mgr. 6. gr. kosningalaga. Tillagan er eftirfarandi:
Mörk Reykjavíkurkjördæma suður og norður skulu dregin um miðlínu eftirfarandi gatna frá vestri til austurs: Eftir Hringbraut (frá Ánanaustum), Miklubraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsvegi að mótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar (þjóðvegur 1) en þaðan eftir Suðurlandsvegi og að borgarmörkum við Geitháls.

Tillagan felur í sér að Grafarholtshverfi (póstnúmer 113), austan Vesturlandsvegar, er innan marka Reykjavíkurkjördæmis norður, auk þess sem Kjalarnes (póstnúmer 116) er í því kjördæmi. Kjósendur sem búa við sunnanverða Hringbraut eða Miklubraut verða samkvæmt tillögunni á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en kjósendur sem búa við þessar götur að norðanverðu eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Þá ákvað landskjörstjórn á fundi sínum að þeim sem taka ber á kjörskrá samkvæmt b-lið 1. mgr. 23. gr. kosningalaga skuli skipt milli Reykjavíkurkjördæma þannig að í suðurkjördæmi komi allir þeir sem fæddir eru 1. – 15. dag hvers mánaðar en í norðurkjördæmi komi þeir sem fæddir eru 16. dag hvers mánaðar eða síðar, sbr. 2. mgr. 23. gr. kosningalaga. Sama regla gildir um þá sem skráðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum