Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 9. júní 2023

Heil og sæl, 

Var þetta tíðindalítil vika í utanríkisþjónustunni? Að sjálfsögðu ekki. Byrjum á fréttum dagsins. 

Starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu verður lögð niður frá 1. ágúst næstkomandi. Tilkynnt var um ákvörðunina á vef stjórnarráðsins nú í morgun. Sendiherra Rússlands var í dag kallaður í utanríkisráðuneytið og tilkynnt um þessa ákvörðun og að janframt væri Rússlandi gert að lágmarka starfsemi sendiráðs síns á Íslandi, fækka starfsliði og lækka fyrirsvar sitt þannig að sendiherra stýri ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík. Öll samskipti við Rússland eru í lágmarki hvort sem litið er til viðskiptalegra, menningarlegra eða stjórnmálalegra tengsla og forsendur fyrir starfsemi sendiráðs í Moskvu því gjörbreyttar. Ákvörðunin felur ekki í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. Varla þarf að taka fram að um söguleg tíðindi í utanríkisþjónustunni er að ræða enda hefur Ísland rekið sendiráð í Moskvu allt frá árinu 1944, að undanskildum árunum 1951-1953 þegar viðskipti lágu niðri milli ríkjanna. 

Orkuöryggi, samfélagsleg þrautseigja og Úkraína voru meðal þess sem var rætt á ráðherrafundi Eystrasaltsráðsins sem fór fram í Wismar í Þýskalandi síðastliðinn föstudag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar og svæðisbundinnar samvinnu og lýðræðislegra gilda í álfunni. Í sameiginlegri yfirlýsingu lýstu utanríkisráðherrarnir algerri samstöðu með Úkraínu og fordæmdu harðlega innráðsarstríð Rússlands þar í landi. 

Á mánudag voru niðurstöður úr jafningjarýni á þróunarsamvinnu Íslands kynntar. Carsten Staur, formaður þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) kynnti helstu niðurstöður rýninnar og fór yfir styrkleika og áskoranir í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Í máli hans kom fram að niðurstöðurnar væru jákvæðar og að Ísland hafi sýnt í verki hvernig lítið framlagsríki getur náð umtalsverðum árangri með skýrri og einbeittri nálgun. „Niðurstöðurnar undirstrika að þrátt fyrir smæð hefur Ísland náð að hámarka framlag sitt með því að nýta styrkleika sína og sérþekkingu, til dæmis á sviði jafnréttismála", sagði ráðherra af tilefninu. 

Þá hélt ráðherra opnunarávarp á málþingi um öryggismál á norðurslóðum sem fór fram í Þjóðminjasafninu á miðvikudag þar sem hún áréttaði mikilvægi þess að lýðræðisríkin á norðurslóðum efldu samstarf sín á milli um öryggis- og varnarmál, stæðu vörð um gildi alþjóðalaga og að Atlantshafsbandalagið héldi úti virku eftirliti og viðveru á svæðinu. „Ef það er ein leiðarstjarna í íslenskri utanríkistefnu þá eru það gildin og meginreglurnar sem endurspeglast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalögum. Ísland má sín lítils í heimi þar sem valdbeiting ræður ferðinni, sem er sú heimsmynd sem rússneskir og aðrir ólýðræðislegir valdhafar halda á lofti“, sagði Þórdís í ávarpi sínu.

Í Heimsljósi var greint frá því að UN Women hefði hrundið af stað árlegri FO-herferð með spánýjum varningi, sem í ár er svört derhúfa með dökkgráu FO merki. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins ávarpaði samkomu af því tilefni síðastliðinn föstudag og kom inn á það í ræðu sinni að það væri sannarlega viðeigandi fyrir utanríkisráðuneytið að styrkja FO herferðina að þessu sinni í ljósi þess að íslensk stjórnvöld muni opna sendiráð í Freetown í Sierra Leóne síðar á árinu en herferðin þetta árið er einmitt til stuðnings verkefnum UN Women þar í landi. 

Að venju var margt um að vera á sendiskrifstofum okkar um víða veröld. 

Í París var sagt frá árlegu þróunarsamráði Norðurlandanna og UNESCO sem fer fram þessa dagana, þar sem farið er yfir stuðning þeirra til þróunarverkefna stofnunarinnar. Ísland styður við verkefni UNESCO á sviði menntunar með sérstaka áherslu á menntun stúlkna í Afganistan. Ísland styður einnig alþjóðaáætlun stofnunarinnar um tjáningarfrelsi og um öryggi fjölmiðlafólks og þróun fjölmiðlafrelsis. Þá er Ísland í framboði til framkvæmdastjórnar alþjóðahaffræðinefndarinnar IOC, sem hefur umsjón með áratug hafvísinda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en kosningar fara fram síðar í mánuðinum. Á myndinni er hluti fastanefndar ásamt framkvæmdastjóra alþjóðahaffræðinefndarinnar og starfsfólki hennar þegar farið var yfir samstarf við Norðurlöndin.

Sendiráð Íslands í París fer með fyrirsvar fyrir fleiri lönd, þar á meðal Spáni en Una Jóhannsdóttir, sendiráðunautur í sendiráðinu í París gerði út þaðan í vikunni. 

Sendinefnd frá Shanxi héraði í Kína sótti sendiráð Íslands í Peking heim til að ræða möguleika á samstarfi við íslenska sérfræðinga og fyrirtæki um nýtingu jarðvarma í héraðinu. 

Auk þess kynntu sendiherrar Norðurlandanna í Peking norræna stjórnarhætti á ýmsum sviðum á hringborði CCG hugveitunnar í Peking og skiptust á skoðunum við fræðafólk og embættismenn um hvaða lærdóm Kína gætið dregið af reynslu Norðurlandanna. 

Í Kaupmannahöfn var sýningin Samband/Connection opnuð í anddyri sendiráðsins síðastliðinn þriðjudag. Sýningin er liður í 3 Days of Design og er á henni að finna framúrskarandi vörur eftir 9 íslenska hönnuði sem eiga það sameiginlegt að hafa hannað vörur sem eru þróaðar, framleiddar og seldar í Skandinavíu. Sýningin er framleidd af Epal í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Íslandsstofu og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Húsfyllir var við opnunina og hélt Helga Hauksdóttir sendiherra opnunarávarp, auk þess sem Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs ávörpuðu gesti. Hefur mikill áhugi verið fyrir sýningunni meðan á 3 Days of Design hefur staðið og hafa fjölmargir heimsótt sendiráðið til að bera sýninguna augum, en hún verður áfram aðgengileg fram til 15. ágúst á almennum opnunartíma sendiráðsins. 

Makafélag sendiherra í Danmörku, Ambassador Spouses Group, stóð fyrir basar til stuðnings dönsku flóttamannahjálpinni síðasta laugardag. Eiginmaður sendiherra, Hafþór Þorleifsson gegnir starfi formanns makafélagsins, en um 25 erlend sendiráð í Danmörku tóku þátt í basarnum auk þess sem erlend fyrirtæki með starfsemi í Danmörku lögðu hönd á plóg með ýmis konar stuðningi. Hátt í þúsund gestir komu á basarinn og er félagið afar ánægt með hve vel hann tókst og hve margir sóttu hann. Vonir standa til að um árlegan viðburð verði að ræða í Danmörku hér eftir. 

Sendiráð Íslands í Svíþjóð hélt upp á 500 ára afmæli Svíþjóðar.

Í Kanada tóku íslenskir kokkar þátt í árlegri matarráðstefnu þar í landi. Þar kynntu þeir ásamt norrænum kollegum norræna matargerð þar sem lögð var áhersla á sjálfbæra framleiðslu og neyslu. Sendiráð Íslands deildi svo norrænum matreiðslubókum með sigurvegurum á ráðstefnunni.

Sendiráð Íslands í Malaví fagnaði alþjóðlega reiðhjóladeginum í vikunni. Sendiráðið hefur tekið þátt í að fjármagna Empower2Transform verkefni í samstarfi við Go Fund A Girl Child, en starfsmenn samtakanna notast gjarnan við hjól til að ná til kvenna og stúlkna á afskekktum svæðum.

Sendiherra Íslands gagnvart Eistlandi, Harald Aspelund, hefur vafalítið fagnað alþjóðlega reiðhjóladeginum með eiginkonu sinni Ástu Jónsdóttur en eins og áður hefur verið greint frá í föstudagspóstinum segja þau frá hjólreiðum sínum um Finnland á Facebook síðunni Diplomats for SustainabilityÍ vikunni sótti sendiherrann fund eistneska utanríkisráðuneytisins, þar sem fjallað var um stefnu landsins í öryggis og utanríkismálum. Fundinn sóttu sendiherrar gagnvart Eistlandi með aðsetur utan landsins.

Sendiráð Íslands í Brussel opnaði pop-up sendiráð í Amsterdam. Eins og nafnið gefur til kynna felur pop-up sendiráðið í sér að sendiráð Íslands í Brussel færir tímabundið starfsemi sína að hluta til Amsterdam og sinnir þar hefðbundnum sendiráðsstörfum dagana 6. til 11. júní. Holland stóð fyrir pop-up sendiráði á Íslandi árið 2019. Til stóð að endurgjalda þann vináttuvott en vegna heimsfaraldursins varð ekki af því fyrr en nú. Með þessu er verið að styrkja starfsemi sendiráðsins sem snýr að Hollandi, greiða fyrir auknum viðskiptum ríkjanna og rækta tengslin við Íslendingasamfélagið þar í landi. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem Ísland stendur fyrir pop-up sendiráði. Nánari upplýsingar um pop-up sendiráðið í Amsterdam má finna hér.

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, átti fund með Dereck Hogan, starfandi aðstoðarutanríkisráðherra, þar sem rætt var um heimsókn sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu Þjóðunum á Evrópuráðsfundinn, tvíhliða málefni og önnur mikilvæg mál, m.a. Úkraínu.

Fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu Þjóðunum, Jörundur Valtýsson, tilkynnti að Ísland myndi tvöfalda framlög sín til UNRWA á næsta ári, en stofnunin hefur lengi glímt við fjárhagsvandræði.

Í New York flutti Hendrik Daði Jónsson jafnframt ræðu fyrir Íslands hönd á óformlegum samráðsvettvangi Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins og hafréttarmál. 

Þá var hamarinn góði, Ásmundarnautur, brúkaður í tilefni kosninga til Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) en fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum óskaði kjörnum ríkjum til hamingju með góða kosningu og velfarnaðar í störfum sínum fyrir ráðið.

Í Póllandi hitti sendiherra Íslands Hannes Heimisson fulltrúa frá GLOBEnergia tímaritinu og ræddi við þá um jarðhita og endurnýjanlega orku.

Fleiri verða fréttir af störfum utanríkisþjónustunnar ekki að þessu sinni. Við biðjum ykkur vel að lifa þangað til næst.

Upplýsingadeild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum