Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2004 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samkomulag Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) um loftferðir

Samkomulag hefur náðst um texta loftferðasamnings milli Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF). Stefnt er að undirritun hans næsta sumar.

Samkomulag Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) um loftferðir undirritað
Loftferðasamningur

Samningurinn kveður á um víðtækt frelsi og mun hann styrkja mjög stöðu íslensku flugfélaganna í flugi um Mið-Austurlönd og til að sinna verkefnum þar um slóðir. Viðskiptatækifæri og umsvif félaganna í þessum heimshluta og tengd honum hafa farið vaxandi.

Samningstextinn er ávöxtur viðræðna fulltrúa utanríkisráðuneytisins, samgönguráðuneytisins, Flugmálastjórnar og sendinefndar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum í Reykjavík dagana 5.-6. febrúar sl. Viðræðunum lauk með því að textinn var áritaður af formönnum nefndanna þeim Ólafi Egilssyni sendiherra og Mohamed Yahya Al-Suweidi aðstoðarráðherra flugmála sem felur í sér að hann verður nú lagður fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld ríkjanna til endanlegrar staðfestingar og síðan undirritunar.

Flugmálastjórnir ríkjanna munu hafa hliðsjón af ákvæðum samningsins í samskiptum sínum fram til formlegrar gildistöku hans.

Í stuttu máli má lýsa flugréttindum samkvæmt samningum svo:

Sameinuðu arabísku furstadæmin (SAF) og Ísland tryggja flugfélögum landa sinna, sem standast kröfur um tilnefningu, ótakmörkuð réttindi til leigu- og áætlunarflugs til og frá ríkjum sínum, með hugsanlegri viðkomu í öðrum ríkjum á leiðinni og flugi áfram til annarra landa. Þannig getur íslenskt flugfélag t.d. flogið leiðina Keflavík - Oslo - Abu Dhabi (SAF) - Macau (Kína).

Íslenskum flugmálayfirvöldum er einnig heimilt að tilnefna til flugs skv. hinum nýja loftferðasamningi flugfélög með flugrekstrarleyfi útgefin í öðrum EES-ríkjum hafi slík félög starfsstöð hér á landi skv. EES-samningnum.

Áætlunar- og leiguflug íslenskra flugfélaga frá öðru ríki en Íslandi til SAF án viðkomu hér á landi er heimilt, svo og flug áfram til annarra staða þar innanlands. Dæmi um þetta væri flug flugfélags tilnefnds af íslenskum flugmálayfirvöldum frá Bandaríkjunum beint til borga í SAF.

Í samanburði við EES-samninginn eru réttindi þessi víðtækari en hann að því er varðar flug handan ríkja gagnaðila (sem EES-samningurinn heimilar ekki nema til annarra landa innan EES-svæðisins), sem og flug frá þriðja ríki til ríkis gagnaðila og innanlandsflugs utan heimaríkis, sem EES-samningurinn heimilar einungis innan EES svæðisins.

Framangreindur loftferðasamningur Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, svo og fleiri samningar sem unnið hefur verið að undanfarin misseri eða eru framundan, eru gerðir að tilmælum íslenskra flugrekenda sem sífellt færa út kvíarnar.

Í íslensku samninganefndinni, ásamt Ólafi Egilssyni sendiherra, voru þau Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri, Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, Katrín Einarsdóttir, sendiráðsritari í utanríkisráðuneytinu, og Ástríður Sch. Thorsteinsson, lögfræðingur hjá Flugmálastjórn og sérfræðingur hennar í gerð loftferðasamninga. Nefndinni til ráðuneytis í viðræðunum voru fulltrúar flugrekenda, þeir Þórarinn Kjartansson frá Bláfugli, Einar Björnsson frá Íslandsflugi og Sveinn Zoëga frá Air Atlanta, auk þess sem samráð var haft við Icelandair.

Samninganefnd Sameinuðu arabísku furstadæmanna (SAF) var, auk Mohamed Yahya Al-Suweidi aðstoðarráðherra, skipuð þeim Mohamed A. Ahli, framkvæmdastjóra hjá Flugmálastjórn, Senarath D. Liyanage, flugmálaráðunaut samgöngumálaráðuneytisins, og þeim til ráðuneytis voru fulltrúar þriggja flugfélaga þ.e. þeir Khaled Al Mehairbi frá Etihad Airways, Mohamood Al Akram frá Gulf Air og Obeidalla Osman frá Emirates Airline.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira