Hoppa yfir valmynd
22. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íslenska foreldra- og fæðingarorlofskerfið fyrirmynd í Evrópu

Formenn sendinefnda á fundi félagsmála- og jafnréttisráðherra í Bad Pyrmont
Formenn sendinefnda á fundi félagsmála- og jafnréttisráðherra í Bad Pyrmont

Félags- og jafnréttismálaráðherrar Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna komu saman til fundar í Bad Pyrmont í Þýskalandi í síðustu viku. Tilgangur fundarins var að ræða leiðir til að auka jafnrétti kynjanna á evrópskum vinnumarkaði og skoða hvernig hægt er að stuðla að aukinni samþættingu vinnu og fjölskyldulífs.

Það var Ursula von der Leyen, félags- og fjölskyldumálaráðherra Þýskalands, sem boðaði til fundarins en Þýskaland gegnir nú formennsku í Evrópusambandinu. Í opnunarræðu sinni sagði hún að mikilvægt væri að gefa konum og körlum tækifæri til að samþætta eins og best verður á kosið vinnu og fjölskyldulíf. Sérstaklega þyrfti að huga að stöðu kvenna á evrópskum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka þeirra er enn 15 prósentustigum lægri en hún er að meðaltali hjá körlum og kannanir hafa leitt í ljós mikið ójafnræði þegar stjórnunarstöður í atvinnulífi eru skoðaðar, til dæmis er að jafnaði aðeins ein kona í æðstu stjórn 50 stærstu fyrirtækja í Evrópu á móti tíu körlum.

Þá liggur fyrir að þátttaka karla í uppeldi barna og fjölskylduábyrgð er óviðunandi í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Það var því niðurstaða að finna þyrfti leiðir til að skapa körlum aukin tækifæri til að samþætta betur vinnu og fjölskyldulíf.

Í því sambandi vakti íslenska foreldra- og fæðingarorlofskerfið sérstaka athygli. Upplýst var að allt að 90% karla sem rétt eiga á hafa nýtt sér fæðingarorlof á Íslandi að meðaltali í 92 daga sem er margfalt meiri þátttaka en þekkist í öðrum löndum. Í tengslum við þá umræðu var sérstaklega óskað eftir því við íslensku sendinefndina að kerfið yrði kynnt á ráðstefnu í Portúgal sem haldin verður í júlí næstkomandi en þá hafa Portúgalar tekið við formennskuhlutverki í Evrópusambandinu.

Á blaðamannafundi eftir fundinn fjallaði Ursula von der Leyen, félagsmálaráðherra Þýskalands, um þá góðu fyrirmynd sem íslensku foreldra- og fæðingarorlofslögin væru fyrir önnur Evrópuríki. Auk þess sýndu ýmsir fundarmenn áhuga á að fá sendar frekari upplýsingar um lögin.

Sjá nánar á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum