Hoppa yfir valmynd
16. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkissjóður greiðir upp skuldabréf fyrir 62 milljarða króna

Ríkissjóður Íslands hefur í dag greitt upp skuldabréf sem gefin voru út árið 2011 og voru á gjalddaga í dag. Eftirstöðvar skuldabréfanna námu 503 milljónum Bandaríkjadala eða um 62 milljörðum króna. Bréfin verða greidd af gjaldeyrisinnstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands.

Útgáfan árið 2011 var fyrsta útgáfa ríkissjóðs á alþjóðamarkaði eftir fjármálahrunið. Heildarnafnverð útgáfunnar nam á sínum tíma 1.000 milljónum Bandaríkjadala. Á síðasta ári leysti ríkissjóður til sín um helming af útistandandi bréfum og voru uppkaupin liður í lausafjár- og skuldastýringu ríkissjóðs. Skuldabréfin voru gefin út til 5 ára og báru 4,875% fasta vexti sem samsvaraði 3,2% álagi á vexti á millibankamarkaði.

Í fjárlögum ársins 2016 var gert ráð fyrir endurfjármögnun lánsins ef markaðsaðstæður væru hagstæðar. Ríkissjóður kann að skoða endurfjármögnun síðar á árinu ef þörf verður á að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands frekar, en erlend lán ríkissjóðs eru tekin til þess að fjármagna gjaldeyrisforðann.

Heildarskuldir ríkissjóðs nema eftir uppgreiðsluna 1.252 milljörðum króna og þar af nema erlendar skuldir 230 milljörðum króna. Erlendar skuldir samanstanda af tveimur markaðsútgáfum, annarri í Bandaríkjadölum frá árinu 2012 og nema eftirstöðvar 1 milljarði Bandaríkjadala, og hinni í evrum frá árinu 2014, alls að fjárhæð 750 milljónir evra.

Nánari upplýsingar gefur Esther Finnbogadóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti í síma 545-9200.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum