Hoppa yfir valmynd
2. september 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Norðurlöndin setja fimm og hálfan milljarð í sjálfbæra atvinnuþróun og nýsköpun

Norrænu atvinnuvegaráðherrarnir hafa samþykkt áætlun sem er ætlað að koma hreyfingu á efnahagslífið í kjölfar Covid-19 og stuðla að sjálfbærum vexti í atvinnulífi á Norðurlöndum. Þau verkefni sem verða fjármögnuð eiga að styðja við sjálfbærar lausnir, hringrásarhagkerfi, stafræna þróun og nýsköpun í löndunum. Stuðningur við Nordic Smart Government er hluti af þessum áætlunum, en um er að ræða umfangsmikið samstarfsverkefni sem ætlað er að auðvelda rekstur fyrirtækja þvert á Norðurlöndin gegnum aukna samtengingu stafrænna kerfa.

Verkefnum áætlunarinnar er ætlað að auðvelda norrænum fyrirtækjum að starfa þvert á landamæri og styðja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Fjárframlögin nema 250 milljónum danskra króna og taka til átta verkefna sem munu koma til framkvæmda á tímabilinu 2021-2024. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, og norrænu atvinnuvegaráðherrarnir samþykktu áætlunina á fjarfundi þann 1. september.

Græn og samkeppnishæf Norðurlönd

Samgöngumál eru meðal þeirra sviða þar sem atvinnuvegaráðherrarnir sjá tækifæri í auknu samstarfi. Ráðherrarnir hyggjast vinna að grænni, norrænni samgönguáætlun um flutninga á sjó og landi með það að markmiði að knýja norræn samgöngutæki í auknum mæli með endurnýjanlegri orku og vinna að innviðauppbyggingu þar að lútandi. Aðgerðirnar fela einnig í sér fjárfestingu  í stafrænum lausnum á sviði flutninga, þar sem ætlunin er að skapa aukin tækifæri til þess að skiptast á gögnum, með það að markmiði að flutningabílar og skip ferðist ekki með tómar lestir.

Atvinnuvegaráðherrarnir vilja sjá auknar áherslur á sviði líftækni og heilbrigðistækni. Norræn fyrirtæki í þessum geira eru leiðandi á heimsvísu en tækifæri eru til þess að gera betur og sækja enn meira fram. Liður í því er að gera aðilum kleift að miðla og fá aðgang að heilbrigðisgögnum á öruggan hátt, þvert á landamæri Norðurlandanna.

Ráðherrarnir vilja einnig vinna að því að Norðurlöndin verði leiðandi í viðskiptalíkönum sem byggja á hringrásarhagkerfi, sjálfbærni, opnum gögnum og stafrænni þróun.

Þá mun framlögum verða beint í byggingargeirann með það að markmiði að stuðla að umhverfisvænni byggingum og aukinni endurnýtingu byggingarefna og veitt verða framlög til þróunar á sjálfbærri námuvinnslu og framleiðslu málma.

Verkefnin átta sem voru samþykkt nú verða fyrst og fremst rekin af Nordic Innovation, stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.

Þessari öflugu fjárfestingu er ætlað að gera Norðurlöndin að kraftmeira og sjálfbærara svæði. Hér eru stigin mikilvæg skref í átt að til grænu og kolefnishlutlausu atvinnulífi og hringrásarhagkerfi í samræmi við framtíðarsýn Norðurlandanna. Þetta er jákvætt fyrir bæði þróun loftslagsmála sem og hagkerfi okkar á Norðurlöndum, segir Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Stafrænt viðskiptavistkerfi þvert á Norðurlönd

Áframhaldandi fjárfesting í Nordic Smart Government (NSG) er liður í áætlun ráðherranefndarinnar, en um er að ræða eitt mikilvægasta norræna samstarfsverkefnið á sviði atvinnulífsins næstu árin. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir að  ýtt yrði úr vör stefnumótunaráætlun verkefnisins (e. roadmap). Markmiðið með NSG er að gera fjárhagsupplýsingar fyrirtækja aðgengilegri og hæfari til nýsköpunar og vaxtar á öruggan hátt. Unnið verður að aukinni samþættingu og einföldun ferla svo auðveldara verði fyrir norræn fyrirtæki að stunda viðskipti innbyrðis, senda tilkynningar til stjórnvalda og þróa stafrænar lausnir með betri og aðgengilegri gögnum. Á vegum Nordic Smart Government mun fljótlega fara í gang samstarfsverkefni milli stjórnvalda og einkaaðila um innleiðingu tiltekinna verkefna. Eitt af fyrstu skrefunum verður að auka notkun rafrænna reikninga þvert á Norðurlönd.

Þessi áætlun norrænu atvinnuvegaráðherranna er í góðu samræmi við markmið okkar hér á landi um uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á stoðum hugvits, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar. Við fögnum því þessari áætlun og hlökkum til áframhaldandi samstarfs við hinar Norðurlandaþjóðirnar, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum