Hoppa yfir valmynd
16. desember 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Verkefnið verður áfram að fækka banaslysum

Verkefni komandi ára verður að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni eins og kostur er, en metnaðarfull umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er ein af meginforsendum þess að svo megi verða, segir meðal annars í inngangi að skýrslu um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar 2010 sem nýlega er komin út.

Í skýrslu um umferðaröryggisáætlunina er gerð grein fyrir helstu verkefnum á síðasta ári en alls var kringum 330 milljónum króna varið til þeirra. Meðal verkefna voru eftirlit með hraðakstri, eyðist svartbletta og lagfæring á umhverfi vega, ýmis fræðslu- og áróðursverkefni, kynningarmál og rannsóknir. Birtar eru fjölmargar töflur og margs konar tölfræði um umfang eftirlits.

Fram kemur í skýrslunni að árið 2010 skráðu stafrænar eftirlitsmyndavélar 22.322 hraðakstursbrot sem er 3,5% færri brot en árið áður. Tíu vélar skráðu að meðaltali 61 slíkt brot á dag. Flest brot áttu sér stað á Suðurlandsvegi eða 41%, 27% í Hvalfjarðargöngum og 24% í Hvalfjarðarsveit en flestar myndavélarnar eru á suðvesturhorni landsins. Sá ökumaður sem hraðast fór var á 199 km hraða. Þá kemur fram í yfirlitinu að ökumenn keyra hlutfallslega hraðar um Fáskrúðsfjarðargöng en Hvalfjarðargöng.

Allt hafa tæplega 79% sekta verið greiddar sem er svipað hlutfall og fyrri ár. Rannsókn hefur verið hætt í tæplega 11% tilvika sem flest má rekja til þess að ökumenn hafi verið búsettir erlendis en ekið um landið á bílaleigubílum.

Umferðaröryggisráði er ætlað að vinna að framgangi umferðaröryggisáætlunar og tók ráðið til starfa árið 2005. Á síðasta ári sátu í ráðinu: Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Karl Ragnars, þáverandi forstjóri Umferðarstofu, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Þá starfar með ráðinu samstarfshópur en í honum sitja þau Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í ráðuneytinu, Gunnar Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu, Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar hjá Vegagerðinni, og Jónína Sigurðardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónnn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira