Hoppa yfir valmynd
10. október 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 4. - 10. okt. 2003

Verksvið Landspítala og FSA endurskilgreint
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til þess að gera tillögur til ráðherra um hvernig endurskilgreina megi verksvið Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Nefndinni er falið að skilgreina sérstaklega verksvið stofnananna sem hátæknisjúkrahúsa landsmanna, kennslustofnana, miðstöðva faglegrar þróunar, stofnana sem veita öllum landsmönnum þjónustu og sem svæðisbundin sjúkrahús. Formaður nefndar ráðherra er Jónína Bjartmarz, formaður heilbrigðis-og trygginganefndar Alþingis og varaformaður er Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss. Nefnd heilbrigðismálaráðherra er einnig falið að kanna verkaskipti milli þessara stofnana og annarrar heilbrigðisþjónustu, svo sem einkarekinna læknastofa. Nefndin skal leita ráðgjafar landlæknis m.a. um faglegt mat á því hvaða heilbrigðisþjónustu sé skynsamlegt að veita utan sjúkrahúsa. Nefndin á að skila heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra niðurstöðum sínum í vor.
NEFNDIN...

Nefnd skipuð til að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað fimmtán manna nefnd til að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1999. Í nefndinni eiga sæti: Landlæknir, fulltrúar allra þingflokka, fulltrúar frá aðilum vinnumarkaðarins, fulltrúar Læknafélagsins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, fulltrúi Öryrkjabandalagsins og fulltrúi Umhyggju sem er félag til stuðnings langveikum börnum. Formaður nefndarinnar er Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að frumvarpið verði flutt á 130. löggjafarþingi.
NEFNDARMENN...

Geðheilbrigðisdagur ? verkefnisstjóri ráðinn
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, greindi frá því á geðræktarþingi sem haldið var í tengslum við alþjóðageðheilbrigðisdaginn í dag að hann hefði ákveðið að ráða sérstakan verkefnisstjóra sem hafa á það hlutverk að stuðla að og gera beinar tillögur um hvernig koma má þjónustu við einstaklinga sem glíma við geðraskanir í einn farveg og bæta með því þjónustu við þá. Ráðherra lagði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun fram greinargerð um þær aðgerðir og þær fjárveitingar sem runnið hafa til geðheilbrigðismálanna undanafrið og tilkynnti þar um ráðningu verkefnisstjórans.
NÁNAR...

Háskólasjúkrahús framtíðarinnar verður umræðuefni Heilbrigðisþings í nóvember
Hvernig viljum við hafa háskólasjúkrahús framtíðarinnar og hvaða kröfur gera ólíkir aðilar til slíkra stofnana? Þetta verður umfjöllunarefni Heilbrigðisþings sem haldið verður 7. nóvember í Salnum í Kópavogi. Yfirskrift þingsins er: Háskólasjúkrahús á Íslandi - Framtíðarsýn, hlutverk og samfélagsleg ábyrgð. Heilbrigðisþing er haldið hið minnsta fjórða hvert ár, líkt og kveðið er á um í lögum um heilbrigðisþjónustu. Verkefni heilbrigðisþings eru ráðgjafar- og umsagnastörf á sviði heilbrigðismála og skulu boðaðir til heilbrigðisþings fulltrúar einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar og fulltrúar heilbrigðisstétta. Dagskrá þingsins verður kynnt nánar þegar nær dregur.

Nýr framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Blönduósi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Valbjörn Steingrímsson framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Blönduósi til næstu fimm ára, að fengnu mati sérstakrar nefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöðu framkvæmdastjóra sjúkrahúsa, líkt og kveðið er á um í 30. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Valbjörn var valinn úr hópi níu umsækjenda.

Tryggja þarf öryggi notenda óhefðbundinnar meðferðar og setja kröfur um störf þeirra sem veita slíka meðferð
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagði fram á Alþingi í vikunni áfangaskýrslu um störf nefndar sem fjallar um stöðu óhefðbundinna lækninga. Í skýrslu nefndarinnar kemur m.a. fram að notendum og veitendum óhefðbundinnar meðferðar fjölgi stöðugt. Nefndin telur annars vegar nauðsynlegt að tryggja eins og kostur er öryggi þeirra sem nýta sér óhefðbundna meðferð. Í því felist að gera aðgengilegar upplýsingar um einstakar greinar, í hverju þær felast og hvers megi vænta af þeim sem stunda slík meðferðarform m.t.t. menntunar, kunnáttu og færni. Hins vegar telur nefndin að ,,bæta þurfi starfsumhverfi þeirra sem stunda óhefðbundna meðferð á þann hátt að það hvetji til metnaðar, starfsábyrgðar, faglegra vinnubragða og innra eftirlits". Telur nefndin að til að gera þetta kleift sé skipulagt eftirlit og aðhald af einhverju tagi nauðsynlegt. Enn fremur segir í skýrslu nefndarinnar að nauðsynlegt sé ,,að skapa öllum greinum óhefðbundinnar meðferðar ákveðinn starfsramma sem geri kleift að setja lágmarkskröfur um menntun, fagleg vinnubrögð og ábyrgð í starfi... " og telur nefndin að það komi jafnt notendum og veitendum óhefðbundinnar meðferðar til góða.
SKÝRSLAN...

Heilbrigðismálaráðherra í KR
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, sótti í gær KR-inga heim í höfuðstöðvar Knattspyrnufélags Reykjavíkur við Frostaskjól og Kaplaskjólsveg í Reykjavík. Formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur, Guðjón Guðmundsson, Flosi Kristjánsson, ritari, og Örn Steinsen, framkvæmastjóri íþróttahúss KR tóku á móti ráðherra í Frostaskjólinu þar sem hann kynnti sér aðstæður félagsins og skoðaði allar aðstæður félagsins í Vesturbænum. Forystumenn félagsins kynntu heilbrigðismálaráðherra, sem býr á félagssvæði KR, sögu félagsins, starfsemi og framtíðaráform þess. Var ráðherra m.a. upplýstur um uppeldisstefnu félagsins og starf þess með börnum og ungmennum. Forystumenn KR undirstrikuð þátt íþrótta í forvörnum og áhersluna sem KR leggur á þetta atriði í uppeldisstarfi sínu. Ráðherra undirstrikaði í viðræðunum við KR-inga þá skoðun sína að íþróttir og sérstaklega unglingastarf íþróttafélaga almennt hefði umtalsvert uppeldislegt gildi og væri ómetanlegt sem fyrirbyggjandi þáttur til að tryggja einstaklingunum betri heilsu. Skiptust forystumenn KR og ráðherra á skoðunum um þessi mál og nauðsyn þess að reyna að draga fram sameiginlegar áherslur og aðgerðir heilbrigðisyfirvalda og íþróttafélaga til að stuðla að heilsusamlegri lífsháttum manna. Sagðist ráðherra fagna því ef félög á borð við KR setti fram hugmyndir eða tillögur og hugsanlega samvinnu heilbrigðisyfirvalda og íþróttahreyfingarinnar.

Hjúkrunarrýmum fyrir aldraðra á höfuðborgarsvæðinu fjölgar um 177 á árunum 2003 og 2004
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi um uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu og hve mörg rými bætast við á þessu ári og því næsta. Í svari ráðherra kom fram að á þessu ári bætast samtals við 59 ný hjúkrunarrými fyrir aldraðra og 118 ný rými árið 2004. Samtals fjölgar hjúkrunarrýmum um 177 á þessum tveimur árum. Á þessu ári munar mestu um fjörutíu ný hjúkrunarrými við Eir í Reykjavík sem reiknað er með að tekin verði í notkun fyrir árslok 2003. Þar verður einnig aðstaða fyrir 20 dagvistarrými. Heimildum fyrir 19 hjúkrunarrýmum sem ekki reyndist unnt að koma fyrir á Hólnum við Vífilsstaði eins og til stóð var dreift til nokkurra hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2004 bætast við 118 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Í byrjun árs verða væntanlega tekin í notkun 50 ný rými á Vífilsstöðum. Við Hrafnistu í Reykjavík er verið að byggja 60 ný hjúkrunarrými sem taka á í notkun um mitt ár 2004 en þar kemur á móti fækkun dvalarrýma. Við Roðasali í Kópavogi er verið að byggja hjúkrunarrými fyrir 8 heilabilaða vistmenn sem tekin verða í notkun um mitt næsta ár. Þar er einnig gert ráð fyrir 20 dagvistarrýmum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
10. október 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum