Hoppa yfir valmynd
9. september 2022 Innviðaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Börn og foreldrar hvött til að ganga í skólann

Aðstandendur verkefnisins Göngum í skólann með skólakrökkum úr Melaskóla. - mynd

Verkefnið Göngum í skólann hófst með opnunarathöfn í Melaskóla í vikunni. Markmið þess er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar. 

Skólabörn og kennarar í Melaskóla tóku virkan þátt í opnunarathöfninni, sem Harpa Reynisdóttir skólastjóri setti. Góðir gestir tóku þátt í opnuninni, þ.á m. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ. Lalli töframaður galdraði loks fram nokkur töfrabrögð.

Í ávarpi sínu upplýsti Willum Þór að hann hefði gengið í Melaskóla og eigi þaðan dásamlegar minningar. Hann fór sérstaklega yfir mikilvægi þess að hreyfa sig daglega bæði fyrir líkamlega, sem og andlega heilsu. 

Sigurður Ingi hvatti krakkana til að vera dugleg að hjóla eða ganga í skólann og draga foreldra með sér. Mikilvægt væri fyrir alla í umferðinni að taka tillit hver til annars, bæði á gangstéttum og þegar farið væri yfir gangbrautir. 

Hvatning um heilbrigðan lífstíl

Markmið verkefnisins er að hvetja til heilbrigðs lífstíls fyrir alla fjölskylduna og auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann. Hreyfing vinnur m.a. gegn lífstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál.

Göngum í skólann er alþjóðlegt verkefni og tekur Ísland nú þátt í 16. skipti. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka aukist stöðugt. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn 5. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega deginum þann 5. október.

Þeir sem standa að verkefninu á Íslandi eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið og fleiri ráðuneyti í gegnum stofnanir sínar, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum