Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2019 Innviðaráðuneytið

Markviss eftirfylgni með stöðu aðgerða í tengslum við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins ​

Aukningin er að sögn Ásmundar Einars hluti af umsömdu framlagi stjórnvalda til lífskjarasamninga sem gerðir voru síðasta vor. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku stöðu aðgerða stjórnvalda sem falla undir málefnasvið hans til stuðnings lífskjarasamningum á almennum vinnumarkaði frá því í vor. Stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamningana innihélt 38 aðgerðir og heyrir um helmingur þeirra undir félagsmálaráðuneytið og lúta flestar að húsnæðis- og vinnumarkaði.

Staða aðgerða á húsnæðismarkaði

Í yfirlýsingu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum kemur fram að stjórnvöld hyggjast vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál i samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. Er því ætlað að stuðla að auknu jafnvægi og stöðugleika á húsnæðismarkaði. „Unnið er að margvíslegum aðgerðum þessu tengt og er ánægjulegt að segja frá því að vinnan er í góðum farvegi,“ segir Ásmundur Einar.

Í stöðuskýrslu Íbúðalánasjóðs sem gefin var út í apríl síðastliðinn var farið yfir umgjörð verkefnisins og eftirfylgni en von er á nýrri stöðuskýrslu á haustmánuðum þar sem nánar verður gerð grein fyrir tímasetningu aðgerða vegna einstakra tillagna. Á ríkisstjórnarfundinum fór Ásmundur Einar yfir stöðuna eins og hún blasir við í dag.

Breytingar á húsaleigulögum til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda

Átakshópurinn lagði fram sex tillögur sem sneru að því að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Í maí var haldinn opinn samráðsfundur á vegum félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs til þess að kalla eftir hugmyndum haghafa að nauðsynlegum breytingum á húsaleigulögum. Í megindráttum var niðurstaða fundarins sú að æskilegt væri að breyta ákvæðum laga um ákvörðun húsaleigu, breytingar á húsaleigu á leigutíma og tímalengd leigusamninga. Hafinn er undirbúningur að frumvarpi til breytinga á húsaleigulögum sem lagt verður fram á haustþingi 2019.

Bætt upplýsingagjöf um húsnæðismarkaðinn

Sjö tillögur voru lagðar til grundvallar því að bæta upplýsingar um húsnæðismarkaðinn. Unnið hefur verið að því að leggja grunn að samvinnu allra þeirra opinberu aðila og félagasamtaka sem safna, vinna úr, greina og/eða birta upplýsingar um húsnæðismál. Verkefnahópar, sem skipaðir voru til að útbúa tímasettar aðgerðir þessu tengt, eru nú að störfum og er stefnt að því að þær liggi fyrir fyrstu vikuna í september og að frumvarp verði lagt fram á vorþingi 2020.

Almenna íbúðakerfið

Tillögur að eflingu almenna íbúðakerfisins voru settar fram í sjö liðum. Hluti þeirra er þegar kominn til framkvæmda. Frumvarp til breytingar á lögum um almennar íbúðir verður lagt fram nú í haust en í því er lagt til að tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða verði rýmkuð þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Þá er lagt til að fjármagnskostnaður stofnframlagshafa verði lækkaður. Einnig er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði gert fært að sækja um stofnframlög vegna byggingarverkefna sem þegar eru hafin. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að styðja við uppbyggingu leiguíbúða á svæðum þar sem misvægi ríkir á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs, í samræmi við niðurstöður tilraunaverkefnis um húsnæðismál á landsbyggðinni sem áður hefur verið kynnt.

Skipulags- og byggingarmál

Ákveðið hefur verið að endurskoða lög og reglur er snúa að skipulags- og byggingarmálum í  heild með einföldun og skilvirkni að leiðarljósi. Er unnið að því að tímasetja þessar aðgerðir auk þess að skilgreina nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar til þess að þær nái fram að ganga. Áformað er að tillögur að úrbótum liggi fyrir í september. Frumvarp um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verður lagt fram á haustþingi 2019 og frumvarp um endurskoðun byggingarmála á vorþingi 2020.

Aðgerðir til þess að auðvelda ungu fólki og tekjulágu innkomu á fasteignamarkað - hlutdeildarlán

Eitt af lykilatriðunum í yfirlýsingu stjórnvalda um stuðning við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins var að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á fasteignamarkaðinn. Unnið hefur verið að útfærslu svokallaðra hlutdeildarlána til að auðvelda ungu fólki, tekju- og eignalágum, fyrstu kaupendum og þeim sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár eða meira að kaupa fasteign. Tillagan hefur verið unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Gert er ráð fyrir að frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál vegna þessa verði lagt fram í vor. 

„Þegar kemur að húsnæðismarkaðnum er um er að ræða mjög umfangsmiklar aðgerðir og ríður á að eftirfylgni með þeim sé markviss og góð. Ég legg mikla áherslu á að þau atriði sem lúta að húsnæðismarkaðnum muni raungerast á næstu vikum og mánuðum í formi laga og breytinga á reglugerðum og mun fylgja því eftir,“ segir Ásmundur Einar.

Staða aðgerða á vinnumarkaði

Stór hluti aðgerða til stuðnings lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, sem falla undir málefnasvið félags- og barnamálaráðherra, snýr að því að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Eftirlit með brotastarfsemi á vinnumarkaði

Ein veigamesta aðgerðin snýr að því að þau stjórnvöld sem fara með eftirlitsheimildir á vinnumarkaði; það er lögreglan, ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun geri með sér formlegt samkomulag um samstarf í tengslum við eftirlitið og að kortlagðar verði þær lagaheimildir sem stjórnvöld hafa til að skiptast á gögnum og upplýsingum í því sambandi.

Samstarfshópur með fulltrúum frá fyrrnefndum aðilum hefur, að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins, hafið störf og hefur þegar komið fram ávinningur af þéttara samstarfi þessara aðila í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. Fyrirhugað er að hópurinn geri grein fyrir því hvort og þá hvaða lagabreytinga er þörf þannig að nauðsynleg úrræði séu til staðar til að bregðast við brotastarfsemi á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að frumvarp með nauðsynlegum lagabreytingum vegna þessa verði lagt fram á vorþingi 2020 en auk þess er unnið að gerð formlegs samkomulags um samstarf þessara aðila. Aðrar aðgerðir snúa meðal annars að auknum heimildum stjórnvalda til refsinga, þvingunarúrræða og stjórnvaldsviðurlaga vegna brota á vinnumarkaði.

Félags- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu, samtökum aðila vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitinu sem falið verður það verkefni að rita lagafrumvarp þar sem lagðar verða til nauðsynlegar lagabreytingar þannig að hrinda megi í framkvæmd umræddum aðgerðum. Hefur ráðherra þegar óskað eftir tilnefningum um fulltrúa í nefndina.

„Það er mjög rík krafa aðila vinnumarkaðarins að þessi mál séu tekin föstum tökum. Vinnan sem fór af stað í vetur sem leið undir forystu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi ráðherra og Seðlabankastjóra, heldur nú áfram og hef ég þegar óskað eftir samstarfi við aðila vinnumarkaðarins við gerð frumvarps á grundvelli þeirra tillagna sem þar komu fram. Hef ég einnig samið um það við Jón að hann muni leiða þessa vinnu áfram en eitt af meginmarkmiðum hennar er að tryggja samstarf opinberra aðila sem fara með eftirlit á innlendum vinnumarkaði og er þegar ljóst að sú nálgun skilar árangri,“ segir Ásmundur Einar.

Fæðingarorlof

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem lögð verður til lenging á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði verður lagt fram á haustþingi 2019. Í frumvarpinu verður gert ráð fyrir að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020 og 2021. Þannig mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2020 eða síðar lengjast um einn mánuð eða úr níu mánuðum í tíu mánuði. Síðan mun samanlagður réttur foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar lengjast enn frekar eða um tvo mánuði og fer þá úr tíu mánuðum í tólf mánuði. Þá hefur verið skipuð nefnd með fulltrúum frá samtökum aðila vinnumarkaðarins og Vinnumálastofnun en hlutverk hennar er heildarendurskoðun laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Nefndinni er ætlað að skila félags-og barnamálaráðherra frumvarpi sem gert er ráð fyrir að ráðherra leggi fram á haustþingi 2020.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum