Hoppa yfir valmynd
31. maí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

500 í sumardvöl hjá Reykjadal

Skrifað undir samninginn: Margrét Vala Marteinsdóttir forstöðukona Reykjadals, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Hörður Sigurðsson formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um sumarverkefni Reykjadals. Með samningnum leggur félagsmálaráðuneytið alls til 105 milljónir króna sem notaðar verða til þess að styðja við og efla orlofsþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni í sumar. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra fékk samskonar styrk í fyrra frá félagsmálaráðuneytinu til að skipuleggja afþreyingu fyrir fötluð börn og ungmenni sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-19.

Styrkurinn frá félagsmálaráðuneytinu er Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra gríðarlega mikilvægur því í sumar koma 500 einstaklingar í einhverskonar sumardvöl. Í fyrsta sinn síðan árið 2014 tókst að veita öllum þeim sem voru á biðlista undanfarin ár pláss. Nú eru aðeins fáeinir á biðlista sem sóttu um í fyrsta sinn í vor en mikil aðsókn hefur verið í verkefnin.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumarbúðir í Reykjadal í Mosfellsdal. Í ár bætast nokkur verkefni við og eru það Sumarnámskeið Reykjadals, Ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði, Sumarfrí fyrir fullorðið fatlað fólk og Sumarfrí fjölskyldunnar í Vík og á Húsavík. Með samningnum við félagsmálaráðuneytið verður hægt að verða við óskum 90% þeirra sem sótt hafa um orlofsþjónustu í sumar. Þá lengist dvalartími hjá mörgum og getur orðið allt að tveimur vikum

Um 100 manns starfa í sumarverkefnum Reykjadals í sumar og er mikil ánægja með samstarfið frá báðum aðilum. 

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Ég er mjög ánægður með þetta verkefni enda hefur Covid-19 faraldurinn haft mikil áhrif á þessar fjölskyldur. Það er frábært að fá að vera hluti af þessu frábæra starfi sem Styrktarfélagið er að vinna og gerir fjölskyldum kleift að eiga saman skemmtilegan og dýrmætan tíma víða um landið. Vonandi verða veðurguðirnir með okkur í liði líka í sumar.“

Margrét Vala Marteinsson, forstöðukona Reykjadals: „Við erum gríðarlega þakklát fyrir að ráðherra og félagsmálaráðuneytið treysti okkur fyrir þessu stóra verkefni. Samstarfið við ráðuneytið hefur verið frábært og lausnamiðað. Við fengum mikið frelsi til þess að koma með hugmyndir og þessi styrkur gerir okkur kleift að gera sumarstarfið fyrir fötluð börn og ungmenni fjölbreytt og af metnaði en Covid-19 faraldurinn hefur reynt mjög mikið á þennan hóp.  Okkur hlakkar því mjög til sumarsins sem verður vonandi ógleymanlegt.“

  • 500 í sumardvöl hjá Reykjadal  - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum