Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2023 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 87/2022-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 87/2022

 

Frístundabyggð: Fundarboð á aðalfundi. Kostnaður vegna brennu og flugeldasýningar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 14. september 2022, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Frístundasvæði B, hér eftir nefnt gagnaðili. 

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, sbr. og 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 4. október 2022, lögð fyrir nefndina.

Með tölvupóstum kærunefndar 18. nóvember 2022 óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum frá gagnaðila og afstöðu til málatilbúnaðar álitsbeiðanda. Engin svör bárust frá gagnaðila og ítrekaði kærunefnd því erindin með tölvupósti 2. desember 2022. Með bréfi gagnaðila, dags. 8. desember 2022, bárust svör og gögn frá gagnaðila sem birt voru álitsbeiðanda í vefgátt nefndarinnar 9. desember 2022. Með bréfi, dags. 9. desember 2022, bárust athugasemdir og gögn frá álitsbeiðanda sem voru send gagnaðila með tölvupósti kærunefndar 12. desember 2022. Frekari athugasemdir bárust frá gagnaðila með bréfi, dags. 13. desember 2022, og voru þær birtar álitsbeiðanda í vefgátt nefndarinnar 15. desember 2022. Frekari athugasemdir bárust frá álitsbeiðanda með bréfi, dags. 15. desember 2022, og voru þær sendar gagnaðila með tölvupósti kærunefndar 21. desember 2022. Enn frekari athugasemdir bárust frá gagnaðila með bréfi, dags. 22. desember 2022, og voru þær birtar álitsbeiðanda í vefgátt nefndarinnar 2. janúar 2023.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 19. janúar 2023.

 

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi frístundahúss á Frístundasvæði B en gagnaðili er Frístundafélag B. Ágreiningur er um fundarboð á aðalfundi gagnaðila sem og hvort heimilt sé að halda árlega flugeldasýningu og brennu á kostnað gagnaðila um verslunarmannahelgar.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að aðalfundir sem haldnir voru árin 2021 og 2022 séu ólögmætir.
  2. Að viðurkennt verði að stjórn hafi í leyfisleysi greitt fyrir og staðið að flugeldasýningu og brennu árin 2016 til 2022.

Í álitsbeiðni kemur fram að vegna seinni kröfu álitsbeiðanda þá hafi ekki verið farið eftir 11. gr. samþykkta gagnaðila. Þá hafi ekki verið boðað til aðalfundar með réttum hætti þar sem fundarboð hafi ekki verið send á lögheimili félagsmanna, þ.e.a.s. til þeirra sem hafi ekki upplýst stjórnina um netföng. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir því að stjórnin myndi gera það fyrir fundinn árið 2022 en ekki hafi verið farið eftir því.

Í mörg ár hafi fjármunum félagsmanna verið ráðstafað í brennu og flugeldasýningu um verslunarmannahelgar. Ekki sé heimild fyrir því í samþykktum gagnaðila. Aðeins hafi verið kosið um það í eitt skipti frá árinu 2016 svo álitsbeiðandi viti til, en það hafi verið árið 2021. Álitsbeiðandi viti ekki til þess að auglýst hafi verið eða að kosning þar um hafi verið kynnt í aðalfundarboði. Þá geti það ekki staðist að stjórnin greiði fyrir atburði sem vitað sé að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir.

Stjórn gagnaðila hafi upplýst að henni þyki það of mikil vinna og ekki í sínum verkahring að senda bréfpóst til þeirra félagsmanna sem stjórnin hafi ekki staðfest netföng hjá.

Það sé ólöglegt að skjóta upp flugeldum og ekki umhverfisvænt. Það sé ekki í verkahring frístundafélags að vera með skemmtanir fyrir hluta félagsmanna. Þá þurfi að koma fram í fundarboði kosning um umframkostnað, sbr. 11. gr. samþykkta gagnaðila.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að málatilbúnaði álitsbeiðanda sé mótmælt að öllu leyti og því haldið fram að hann sé rangur og ekki studdur neinum haldbærum gögnum. Stjórn gagnaðila hafi í störfum sínum farið í öllu eftir þeim lögum og reglum sem um hana gildi.

III. Forsendur

Í 2. mgr. 20. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, segir að aðalfund skuli boða bréflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Þá skuli geta þeirra mála sem eigi að ræða og meginefni tillagna þeirra sem leggja eigi fyrir fundinn.

Í 7. gr. í samþykktum gagnaðila segir að boða megi fund með tölvubréfi á það póstfang sem forráðamaður hefur látið stjórninni í té og telst það fullnægjandi svo fremi að ekki komi boð um það til sendanda að tölvubréfið hafi ekki komist til skila.

Álitsbeiðandi telur að aðalfundir áranna 2021 og 2022 séu ólögmætir þar sem ekki hafi verið boðað til þeirra með póstsendingu bréfs á lögheimili þeirra félagsmanna sem ekki hafi gefið stjórninni upp netföng sín.

Í framangreindu lagaákvæði segir að aðalfund skuli boða bréflega en nefndin telur það engu breyta í þessu tilliti hvort fundarboð sé sent félagsmönnum með tölvupósti á þau netföng sem félagsmenn hafa gefið upp eða með póstsendingu á lögheimili félagsmanna. Gagnaðili kveður álitsbeiðanda hafa sent upplýsingar um netfang sitt og leggur fram tölvupóst með fundarboði sem sent var á það netfang 27. október 2021. Einnig bendir gagnaðili á að álitsbeiðandi hafi verið aðili að gagnaðila frá árinu 2009 og ekki gert athugasemdir fyrr en í desember 2021 um að hafa ekki móttekið fundarboð. Þá liggur fyrir að með tölvupósti gagnaðila 24. ágúst 2022 fékk álitsbeiðandi sent fundarboð fyrir aðalfund sem haldinn var 6. september 2022 og var sá tölvupóstur sendur á það netfang sem hann gaf gagnaðila upp 25. desember 2021. Álitsbeiðandi kveður upphaflegar upplýsingar gagnaðila um netfang hans vera rangar og að hann hafi fyrst haft samband við gagnaðila með tölvupósti 22. desember 2021.

Kærunefnd fær ekki annað ráðið en að gagnaðili hafi verið í góðri trú þegar fundarboð var sent á það netfang sem skráð var á álitsbeiðanda í október 2021. Í því tilliti verður ekki litið fram hjá athafnaleysi álitsbeiðanda sem hefur, að því er virðist, athugasemdalaust greitt félagsgjöld frá árinu 2009 og engar athugasemdir gert vegna fundarboðunar fyrr en seint á árinu 2021. Þá liggur ekki fyrir að aðrir hafi gert athugasemd við þann hátt sem hefur verið viðhafður á boðun aðalfunda. Telur kærunefnd því að ekki sé tilefni til að fallast á ólögmæti aðalfundanna.

Seinni krafa álitsbeiðanda er að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila hafi í leyfisleysi greitt fyrir og staðið að flugeldasýningum og brennum árin 2016 til 2022. Samkvæmt rekstrarreikningum gagnaðila fyrir árin 2016 til 2021 hefur verið talið til gjalda kostnaður vegna brennu og flugelda á bilinu 90.000 til 192.850 kr. Af gögnum málsins má einnig ráða að skorað var á stjórnina á aðalfundi 7. júní 2016 að annast um brennu og flugeldasýningu um komandi verslunarmannahelgi. Ekki voru haldnir aðalfundir í félaginu á árunum 2017 til 2020, en á aðalfundi 10. nóvember 2021 var kosið um hvort félagið ætti að halda brennu og flugeldasýningu um verslunarmannahelgar. Af þeim sem voru mættir á aðalfundinn voru 22 því samþykkir en sjö voru á móti. Á aðalfundi 6. september 2022 var bókað að umræður hafi átt sér stað um kostnað vegna þessa. Einnig kom fram að um væri að ræða árlegan viðburð frá stofnun félagsins og að oft hafi verið kosið um það á aðalfundi hvort halda ætti því áfram og það hafi ávallt verið samþykkt með miklum og löglegum meirihluta atkvæða. Bókaðar voru athugasemdir þriggja félagsmanna við viðburðinn. Einnig kom fram að tekin yrði ákvörðun á aðalfundi árið 2023 um það hvort breyting yrði á í framtíðinni.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki hægt að taka undir með álitsbeiðanda að stjórnin hafi „í leyfisleysi“ greitt fyrir og staðið að flugeldasýningum og brennum árin 2016 til 2022, enda hefur umrætt málefni borið á góma á aðalfundum og samþykki meirihluta fundarmanna hefur verið fyrir því að halda þessum viðburði áfram. Á hinn bóginn telur kærunefnd að brennur og flugeldasýningar af þessu tagi falli ekki undir lögmælt hlutverk félags í frístundabyggð, eins og það er skilgreint í 19. gr. laga nr. 75/2008. Í því sambandi verður að hafa í huga að um er að ræða skylduaðildarfélag samkvæmt 17. gr. laganna, en slík skylduaðild felur í sér undantekningu frá svokölluðu neikvæðu félagafrelsi samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Slík félög geta eingöngu sinnt þeim hlutverkum sem eru nauðsynleg til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með skylduaðildinni. Brennur og flugeldasýningar falla ekki þar undir og er því viðurkennt að gagnaðila sé óheimilt að standa fyrir slíkum viðburðum á kostnað félagsins. Vegna kröfugerðar álitsbeiðanda og valdsviðs nefndarinnar er ekki tekin afstaða til þess hvort álitsbeiðandi kunni að eiga rétt á endurgreiðslu eða bótum vegna þessa, en það getur til dæmis farið eftir sjónarmiðum um tómlæti og fyrningu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 635/2016.

 


IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðanda, en viðurkennt er að gagnaðila sé óheimilt að standa fyrir brennum og flugeldasýningum á kostnað félagsins.

 

 

Reykjavík, 19. janúar 2023

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Víðir Smári Petersen                                                 Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum