Hoppa yfir valmynd
28. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr Loftslagssjóði

Loftslagssjóður auglýsir til umsóknar styrki til nýsköpunar og kynningar- og fræðslu á loftslagsmálum. Rannís hefur umsjón með sjóðnum, sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Þetta er í fjórða skipti sem úthlutað verður úr Loftslagssjóði og getur styrkfjárhæðin numið allt að 230 m.kr. Við úthlutun þessa árs verður lögð áhersla á verkefni sem skila samdrætti í losun og stuðla að sjálfstæðu landsmarkmiði Íslands um að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um 55% (miðað við árið 2005) fyrir 2030, sem og hagnýta grunnþekkingu sem þegar er til staðar og getur gagnast við að draga úr losun sem víðast í samfélaginu.

12 verkefni hlutu styrk við úthlutun síðasta árs, en Loftslagssjóður hefur frá fyrstu úthlutun veitt styrki að upphæð 412 milljónum króna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Loftslagssjóður er mikilvægur liður í aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Ísland ætlar sér að vera í fremstu röð ríkja við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Þess vegna er við styrkveitingar þessa árs lögð áhersla á verkefni sem skila samdrætti í losun, en til að það markmið náist þurfum við margvíslegar lausnir og þar getur nýsköpun skipt miklu máli.“

Umsóknarfrestur er til 6. desember 2022.

Á heimasíðu Rannís má nálgast allar nánari upplýsingar um Loftslagssjóð, úthlutunarreglur og aðgang að umsóknarkerfi. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum