Hoppa yfir valmynd
12. júní 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ræddu samstarfsfleti á nýtingu jarðhita

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Robert Habeck, efnahags- og loftslagsmálaráðherra og varakanslari Þýskalands.  - myndMarie Staggat

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra átti í dag tvíhliða fund með Robert Habeck, efnahags- og loftslagsmálaráðherra og varakanslara Þýskalands. Á fundinum, sem fram fór í Felleshus í Berlín, ræddu þeir m.a. um mögulega samstarfsfleti ríkjanna þegar kemur að nýtingu á jarðhita.

Í máli sínu á fundinum kom Guðlaugur inn á möguleika Þýskalands þegar kemur að nýtingu lághitasvæða til húshitunar í Þýskalandi en háleit markmið eru þar í landi um að fasa út notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar.

Fundur ráðherranna var haldinn í kjölfar ávarpa þeirra á viðburðinum Our Climate Future sem haldinn var í samstarfi Gænvangs, Íslandsstofu og íslenska sendiráðsins í Berlín, en umfjöllunarefni Our Climate Future var nýting jarðhita.

Í ávarpi sínu þar kom Guðlaugur inn á sérstöðu okkar Íslendinga þegar kemur að nýtingu jarðhita og hvernig aðrar þjóðir geti nýtt sér okkar reynslu og sérþekkingu. Mikill vilji sé hjá íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum að vinna með öðrum þjóðum sem hingað til hafa ekki litið til nýtingar á jarðhita. Víða um Þýskaland sé að finna lághitasvæði og stór hluti Þýskalands geti nýtt sér þennan græna og endurnýjanlega orkukost til húshitunar.

„Samstarf og samvinna eru lykilþættir þegar kemur að því að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir nú. Hvort sem litið er til orkuöryggis eða áskorana í loftslagsmálum. Í þessu samhengi er gott að Ísland og Þýskaland eiga langa og góða sögu af samstarfi og þjóðirnar eru tengdar sterkum böndum. Ég vonast til þess að við getum byggt á þeim góða grunni, styrkt samband ríkjanna og unnið enn meira saman þegar kemur að því að afla grænnar orku og tryggja loftslagsvæna framtíð saman,“ sagði Guðlaugur í ávarpi sínu.

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum