Hoppa yfir valmynd
13. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 521/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 521/2022

Þriðjudaginn 13. desember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 31. október 2022, kærði B hjúkrunarfræðingur, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. apríl 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta honum örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn 7. janúar 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. apríl 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hann hefði ekki fengið nægjanlega mörg stig samkvæmt örorkustaðli til þess að uppfylla skilyrði til greiðslu örorkulífeyris. Kæranda var metinn örorkustyrkur fyrir tímabilið 1. febrúar 2022 til 31. janúar 2025.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið í þjónustu geðsviðs Sjúkrahússins á C frá því að hann hafi flutt E árið 2020. Hann eigi að baki þrjár innlagnir á Sjúkrahúsinu á C, auk margra innlagna á Landspítala og á sjúkrahúsi í D. Vandi kæranda sé aðallega geðhæðarlotur með geðrofseinkennum sem virðist í seinni tíð koma fram þegar hann sé undir álagi. Kærandi sé í flókinni lyfjameðferð, sem dæmi hafi lyfið Olanzapin, sem hann geti ekki verið án, þau áhrif að hann verði þungur og sljór daginn eftir. Hann sé því algjörlega ófær til allra starfa.

Í læknisvottorði sem fylgt hafi umsókn kæranda um örorku komi fram að veikindi kæranda séu alvarleg, illviðráðanleg og ófyrirsjáanleg. Síðustu innlagnir á geðdeild Sjúkrahússins á C megi rekja til þess að kærandi hafi verið í endurhæfingu og hafi verið að reyna sig áfram á vinnumarkaði líkt og endurhæfingin geri ráð fyrir. Það álag sem fylgi því að stunda vinnu til að geta framfleytt sér sé álag sem kærandi virðist ekki ráða við. Hann sé í þjónustu á göngudeild geðdeildar Sjúkrahússins á C.

Kærandi taki lyf sem geti haft áhrif á getu hans til að stunda reglulega vinnu þar sem þau séu slævandi og geti haft áhrif á hann daginn eftir að þau séu tekin. Mikilvægt sé að taka lyfin þá daga sem líðan sé ekki góð þar sem hætta sé á geðrofi sé það ekki gert.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri en samþykkja greiðslu örorkustyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega sjö mánuðir frá kærðri ákvörðun, dags. 6. apríl 2022, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2022. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 6. apríl 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í upplýsingum meðfylgjandi kæru til úrskurðarnefndar greinir umboðsmaður kæranda frá því að vegna mistaka ritara hafi farist fyrir að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar í júní 2022 en sjá megi af gögnunum að kæran hafi verið undirbúin þá.

Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að gögn málsins bendi ekki til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkulífeyri að nýju.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum