Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2020 Innviðaráðuneytið

Frumkvæðisathugun ráðuneytisins á samstarfssamningum sveitarfélaga lokið

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur lokið frumkvæðisathugun á samstarfssamningum sveitarfélaga, sem stofnað var til með vísan til eftirlitshlutverks ráðuneytisins með stjórnsýslu sveitarfélaga. Tilgangur athugunarinnar var að afla heildstæðra upplýsinga um samstarfssamninga sveitarfélaga og leggja mat á hversu vel samningarnir samræmast þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra samninga í lögum.

Í upphafi árs 2018 var kallað eftir upplýsingum um alla samstarfssamninga sem sveitarfélögin ættu aðild að og starfað væri eftir, sem og afritum af slíkum samningum. Dæmi um slíka samvinnu eru samningar um byggðasamlög, samningar um verkefni sem styðjast við nýtt ákvæði 96. gr. sveitarstjórnarlaga og aðra samstarfssamninga. Samtals bárust upplýsingar um tæplega 200 samninga.

Yfirferð ráðuneytisins leiddi í ljós að töluverðir annmarkar eru á fjölmörgum samningum sveitarfélaga um samvinnu þeirra á milli. Ráðuneytið hefur af því tilefni tekið saman leiðbeiningar til sveitarfélaga um almenn sjónarmið sem gilda um samvinnu þeirra, form samvinnu og lagakröfur sem gerðar eru til slíkra samninga. Ráðuneytið mun fylgja leiðbeiningunum eftir með því að upplýsa sveitarfélög um athugasemdir þess við einstaka samninga en öllum sveitarfélögum landsins mun berast bréf þess efnis á næstu dögum. Sveitarfélögum verður gefinn frestur til að gera úrbætur og af þeim svörum mun ráðast hvort tilefni er til að taka einstaka samninga til frekari umfjöllunar.

Kröfur til samvinnu

Í leiðbeiningum ráðuneytisins til sveitarfélaga segir að á grundvelli núgildandi sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sé sveitarfélögum frjálst að hafa samvinnu sín á milli um starfrækslu ýmissa verkefna. Grundvallarskilyrði fyrir því að sveitarfélögum sé heimilt að vinna saman er að lög eða eðli máls mæli því ekki í mót. Sveitarfélög gætu t.a.m. ekki gert samning um heildarrekstur sveitarfélaga, eða samrekstur þeirra að mjög stórum hluta, enda væri þá brostin forsenda fyrir tilvist sveitarfélagsins sem sjálfstæðs stjórnvalds.

Í leiðbeiningunum er fjallað ítarlega um það í hvaða formi samvinna sveitarfélaga verður að grundvallast og hvaða skilyrði sveitarstjórnarlög gera til samninga um samstarf sveitarfélaga. Jafnframt er nánar fjallað um ýmis álitaefni sem tengjast slíku samstarfi, t.d. samvinnu sveitarfélaga sem byggir á sérheimild í lögum, skv. 92. gr. sveitarstjórnarlaga, og samvinnu sem fer fram í gegnum einkaréttarleg félög.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum