Hoppa yfir valmynd
3. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra kallar eftir afnámi niðurgreiðslna á jarðefnaeldsneyti

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Baráttan gegn loftslagsbreytingum og hrein orkuskipti eru á meðal brýnustu verkefna mannkyns í umhverfismálum. Þar er mikilvægt að hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, en fjárfesta þess í stað í hreinni og endurnýjanlegri orku.

Þetta kom fram í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í tilefni af fundi sem haldinn er í Stokkhólmi vegna 50 ára afmælis fyrstu stóru alþjóðlegu umhverfisráðstefnunnar þar í borg. Ráðherra fór í ávarpi sínu yfir þann árangur sem náðst hefði á síðastliðinni hálfri öld og nefndi nokkur forgangsmál í baráttunni framundan fyrir umhverfisvernd og sjálfbærri þróun.

Ráðherra sagði að Stokkhólms-ráðstefnan um umhverfi mannsins árið 1972 hefði markað tímamót í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál. Þar hefði verið lagður grunnur að formlegu samstarfi ríkja heims í umhverfisvernd, en ekki skipti síður máli að í uppleggi ráðstefnunnar hefði vernd umhverfisins verið tengd við lífsviðurværi og velferð mannkyns. Umræðan og markmiðin hefðu þroskast á þeirri hálfu öld sem liðin er, en að við búum enn að arfleifðinni frá Stokkhólmi.

Margt hefði breyst á hálfri öld, sagði ráðherra; mannfjöldi, efnahagur og neysla hefði aukist. Um milljarður manna hefði lyfst upp úr sárri fátækt frá aldamótum, en hætta á hruni á vistkerfum hefði aukist. Það kallaði á aðgerðir til að bægja loftslagsvá og annarri hættu frá.

Guðlaugur Þór nefndi nokkur forgangsmál varðandi aðgerðir til framtíðar. Brýnt væri að halda áfram að draga úr hungri í heiminum. Þar þyrfti til skamms tíma að stöðva stríð sem hamlaði framleiðslu og dreifingu matvæla. Til lengri tíma þyrfti að stöðva landhnignun og tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Mikilvægt væri að vernda villta náttúru, sérstaklega vistkerfi með mikla líffræðilega fjölbreytni og endurheimta sködduð vistkerfi.

Ráðherra sagðist bjartsýnn á að afstýra megi verstu afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Það gerist þó ekki af sjálfu sér heldur kalli á markvissar aðgerðir án tafar. „Lykillinn að lausn loftslagsvandans liggur í orkukerfum okkar. Hrein orkuskipti eru forgangsmál. Ísland hefur sett metnaðarfull markmið, þrátt fyrir að hafa framkvæmt hrein orkuskipti að fullu varðandi rafmagnsframleiðslu og hitun. Mörg önnur ríki hafa sett sér háleit markmið. Það verður hins vegar erfitt að ná þeim ef við sóum fjármunum og tækifærum með gífurlegum niðurgreiðslum á aðgerðum sem skaða loftslagið. Við verðum að hætta niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti og fjárfesta þess í stað í endurnýjanlegri orku.“

 


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum