Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Atvinnuþátttaka öryrkja hvergi meiri en á Íslandi

Atvinnuþátttaka fólks með örorku eða langvarandi sjúkdóma er hvergi meiri en á Íslandi, borið saman við ríki OECD, eða rúm 61%, en er að meðaltali um 43% í OECD-ríkjunum. Þetta kemur fram í nýlegri könnun Þjóðmálastofnunar sem gerð var fyrir Landssamtök lífeyrissjóða og örorkumatsnefnd forsætisráðuneytisins.

Könnunin sýnir að flestir þeirra örorkulífeyrisþega sem stunda launaða vinnu eru í hlutastörfum en rúmlega þriðjungur er í fullu starfi. Um 64% öryrkja sem ekki eru í launaðri vinnu hafa áhuga á því að stunda vinnu og flestir þeirra treysta sér til að vinna hlutastörf. Um 84% öryrkja telja mjög mikilvægt að hafa möguleika á launaðri vinnu og segja höfundar skýrslunnar að þetta sýni mikinn vinnuáhuga og vinnuvilja meðal örorkulífeyrisþega á Íslandi. Örorkulífeyrisþegar segja helstu hindranir fyrir atvinnuþátttöku vera takmörkuð tækifæri og takmarkaðan skilning og fordóma á vinnumarkaði (29%), tekjutengingar í lífeyriskerfinu (21%) og eigið heilsufar (15%). Einnig nefna þeir ófullnægjandi stuðning, endurhæfingu og aðgengi og skort á eigin þori, trú og trausti til að taka þátt í atvinnulífinu.

Viðmælendur í könnuninni leggja mikla áherslu á nytsemi starfsendurhæfingar og segja um 80% þeirra að mikilvægt sé að eiga kost á henni. Aðeins um 15% örorkulífeyrisþega sem könnunin tók til hafa fengið skipulagða starfsendurhæfingu en af þeim sögðu um 60% að hún hefði skilað þeim miklum árangri.

Markmið könnunarinnar var að afla nýrra upplýsinga um aðstæður öryrkja og langveikra. Spurt var um orsakir örorku, fjölskylduhagi, menntun, starfsreynslu, endurhæfingu, atvinnuþátttöku og samfélagsþátttöku. Einnig voru könnuð viðhorf viðmælenda til aðgengismála, þjónustu og lífsgæða. Í úrtaki könnunarinnar sem var gerð veturinn 2008–2009 voru 1.500 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, og var þátttakan tæp 60%. Niðurstöður könnunarinnar munu nýtast í vinnu félags- og tryggingamálaráðuneytisins við gerð nýs starfshæfnismats og stefnumótun á sviði starfsendurhæfingar.

Höfundar skýrslunnar eru Guðrún Hannesdóttir, Sigurður Thorlacius og Stefán Ólafsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum