Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Átak í atvinnumálum - sumarstörf og uppbygging hjúkrunarheimila

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra, sem tryggir allt að 830 störf fyrir námsmenn í sumar. Ráðherra kynnti einnig á fundinum fjármögnun vegna uppbyggingar 360 hjúkrunarrýma sem mun leiða af sér um 1.200 ársverk.

Um 1.230 sumarstörf tryggð fyrir námsmenn

Undanfarið hefur félags- og tryggingamálaráðuneytið átt samstarf við Atvinnuleysistryggingasjóð, önnur ráðuneyti, opinberar stofnanir og Samband íslenskra sveitarfélaga um átak í atvinnumálum skólafólks. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur nú samþykkt tillögu ráðherra um að verja allt að 250 milljónum króna úr sjóðnum til að styrkja sumarvinnuverkefni námsmanna. Veittir verða styrkir sem nema að hámarki fjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir hvern einstakling og verður þannig kleift að tryggja allt að 830 sumarstörf. Unnið er að frekari frágangi á skipulagi og fjármögnun verkefna með einstökum ráðuneytum og sveitarfélögum. Þessi störf koma til viðbótar þeim 400 sumarstörfum sem þegar hafa verið tryggð með samkomulagi mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar um eflingu Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Áform um uppbyggingu hjúkrunarheimila leiða af sér um 1.200 ársverk

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur tryggt fjármögnun vegna uppbyggingar um 360 hjúkrunarrýma í níu sveitarfélögum. Þetta eru Borgarnes, Mosfellsbær, Garðabær, Reykjanesbær, Kópavogur, Akureyri, Hafnarfjörður, Egilsstaðir og Seltjarnarnes og eru samningar við sveitarfélögin á lokastigi. Þar sem undirbúningur verkefna er lengst kominn geta framkvæmdir geta hafist á næstu mánuðum, en annars staðar á seinni hluta þessa árs eða á næsta ári. Kostnaður vegna framkvæmdanna er áætlaður um 9 milljarðar króna. Íbúðalánasjóður mun veita 100% lán til framkvæmdanna en kostnaður skiptist þannig að ríkið ber 85% áætlaðs byggingarkostnaðar og sveitarfélögin 15%. Fyrirhuguð uppbygging hjúkrunarrýma mun leiða af sér um 1.200 ársverk. Byggingarátakið er liður í endurbótum á hjúkrunarheimilum aldraðra. Um 300 hjúkrunarrými verða tekin úr notkun en átakið leiðir til þess að hjúkrunarrýmum mun fjölga um 60.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira