Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Neyðarástand vegna flóða í Suður-Súdan

Ljósmynd: UNHCR/Charlotte Hallqvist - mynd

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hvetur til alþjóðlegs stuðnings við mannúðarstarf í Suður-Súdan, fjórða árið í röð, vegna gríðarlegra rigninga og flóða. Stofnunin segir að einnig sé ástæða til að óttast að loftslagsbreytingar á komandi árum geri aðstæður enn verri.

Vatn þekur nú tvo þriðju hluta landsins. Rúmlega níu hundruð þúsund manns hafa orðið fyrir beinum búsifjum vegna flóðanna. Þau hafa sópað burt heimilum og búpeningur hefur drepist og valdið því að þúsundir hafa orðið að flýja. Afleiðingarnar sjást meðal annars í miklum matarskorti. Vatnsból hafa einnig mengast og aukið hættuna á sjúkdómum og faröldrum.

Í héraðinu Unity State er höfuðborgin Bentiu orðin að eyju. Allir vegir til og frá borginni eru ófærir og aðeins með bátum og flugvélum er unnt að halda úti líflínu mannúðaraðstoðar til að veita hálfri milljón íbúa aðstoð. Búðir flóttamanna í landinu eru undir vatnsyfirborði en varðar með varnargörðum. Fólk vinnur dag og nótt við að dæla vatni með öllum tiltækum ráðum til þess að halda vatninu í skefjum og afstýra því að varnargarðarnir gefi sig.

Í grannríkjum eru rúmlega 2,3 milljónir flóttamanna frá Suður-Súdan og talið er að innanlands séu álíka margir, eða um 2,2 milljónir íbúa á vergangi, auk þeirra 340 þúsunda íbúa sem hafast við í flóttamannabúðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum