Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Umönnunarbætur, greiðsludreifing og endurgreiðslur umtalsverðs kostnaðar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Velferðarráðuneytið vekur athygli á ýmsum úrræðum sem nýtast munu fólki til að mæta útgjöldum í nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja sem tekur gildi 4. maí næstkomandi. 

Með innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis vegna kaupa á lyfjum er leitast við að auka jafnræði milli einstaklinga óháð sjúkdómum og draga úr lyfjakostnaði þeirra sem þurfa að nota mikið af lyfjum. Nýja kerfið byggist á vinnu nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði árið 2007 til þess að gera tillögur að réttlátari, einfaldari og gagnsærri greiðsluþátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja til að verja fólk gegn háum kostnaði. Til lengri tíma litið er stefnt að því að fella allar greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu inn í sambærilegt kerfi með sama markmið að leiðarljósi.

Greiðsluþátttökukerfi lyfja byggist á þrepaskiptri greiðsluþátttöku þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst innan tólf mánaða tímabils. Fari kostnaðurinn yfir tiltekið hámark á tímabilinu á fólk rétt á lyfjaskírteini og fær lyfin þá sér að kostnaðarlausu. 

Endurgreiðslur vegna umtalsverðs heilbrigðiskostnaðar

Við innleiðingu nýja greiðsluþátttökukerfisins hefur verið leitast við að mæta aðstæðum þeirra sem eru tekjulágir og bera verulegan kostnað vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu. Velferðarráðherra hefur í þessu skyni sett nýja reglugerð um endurgreiðslu vegna mikils kostnaðar við læknishjálp, lyf og þjálfun og tekur hún gildi 4. maí 2013. Með reglugerðinni hækka fjárhæðir og viðmiðunarmörk verulega frá gildandi reglugerð þar sem engar hækkanir hafa verið gerðar frá árinu 2005. Nánari upplýsingar um rétt til endurgreiðslu má sjá hér á vef Tryggingastofnunar ríkisins.

Umönnunarbætur vegna barna

Umönnunarbætur eru greiddar foreldrum þegar umönnun barna er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu íþyngjandi. Samtök sykursjúkra hafa lýst áhyggjum af því að kostnaður þeirra sem nota ekki önnur lyf en insúlín muni í nýju kerfi aukast, meðal annars vegna kostnaður af hjálpartækjum vegna insúlíntöku. Í þessu sambandi er rétt að benda á að foreldrar sykursjúkra barna að 18 ára aldri fá í gildandi kerfi greiddar 34.053 krónur á mánuði í umönnunarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins til að mæta þessum kostnaði og verður svo áfram í nýju kerfi.

Samspil lyfja og hjálpartækja

Velferðarráðherra hefur óskað eftir því að Sjúkratryggingar Íslands skoði hvort einhverjir hópar fullorðinna muni verða fyrir óhæfilegri kostnaðaraukningu í nýja greiðsluþátttökukerfinu vegna samspils lyfja og hjálpartækja, líkt og Samtök sykursjúkra hafa bent á og skoði möguleika þess að bregðast við slíkum aðstæðum.

Greiðsludreifing

Sjúkratryggingar Íslands hafa boðið lyfsölum aðild að samningi um dreifingu lyfjakostnaðar vegna greiðsluerfiðleika. Rammasamningurinn er afrakstur viðræðna við fulltrúa lyfsala sem hafa bent á  nauðsyn þess að dreifa lyfjakostnaði þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Samkvæmt honum munu einstaklingar sem eiga í erfiðleikum með að greiða lyf vegna lágra tekna eða óvænts lyfjakostnaðar geta dreift greiðslum. Kostnaðardreifingin verður einstaklingum að kostnaðarlausu. Nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum