Hoppa yfir valmynd
10. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnsýsluúrskurður - leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 10. júní 2016
Tilv.: FJR16050012/16.2.1

Efni: Stjórnsýsluúrskurður í máli [A] og [B].

Vísað er til stjórnsýslukæru [A], kt. […], og [B], […], sem móttekin var með tölvupósti hinn 3. maí sl., þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun ríkisskattstjóra frá 22. janúar sl., um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Málavextir og málsástæður
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 22. janúar 2016

Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að einstaklingum hafi verið heimilað skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, að sækja um leiðréttingu á lánum sem lögin tóku til. Umsóknartímabil vegna leiðréttingar á verðtryggðum fasteignaveðlánum hafi verið 15. maí til 1. september 2014 skv. 4. gr. sömu laga og bar einstaklingum að beina umsókn sinni til ríkisskattstjóra á rafrænu formi í gegnum þjónustusíðuna leidretting.is. Fram kemur að leiðrétting lána hafi byggst á því að einstaklingar sem eftir henni óskuðu áttu að eiga frumkvæði að því að koma þeirri ósk á framfæri við ríkisskattstjóra með þeim hætti sem umrædd lög og útfærsla þeirra kvað á um og innan lögfestra tímamarka.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra er umsóknarferilinn rakinn. Þar greinir að innskráning á þjónustusíðuna leidretting.is hafi hvort tveggja verið möguleg með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum. Í ferlinu hafi einstaklingar einnig veitt upplýsingar um tölvupóstfang sitt. Á forsíðu þjónustusíðunnar hafi einstaklingar getað sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána, ráðstöfun á séreignarsparnaði eða bæði úrræðin. Fram kemur að við umsókn um leiðréttingu hafi einstaklingar átt kost á að yfirfara þær upplýsingar sem lagðar yrðu til grundvallar við afgreiðslu umsókna þeirra. Þá greinir að til þess að umsókn yrði gild og skil á henni myndi eiga sér stað þurfti annars vegar að staðfesta að viðkomandi lánveitendum væri heimilað að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra og hins vegar að senda umsókn.

Fram kemur að öll gögn varðandi umsóknir um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána sem og annað á vefnum leidretting.is hafi verið sótt til umsóknarkerfis leiðréttingarinnar með vefþjónustum og að allar færslur á vefnum hafi verið skráðar af umsjónarkerfinu. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingar framkvæmdu á vefnum verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins af vefnum sjálfum ásamt því að hafa verið skráðar í umsóknarkefið sem lagði til upplýsingarnar. Því hefði verið til staðar tvöföld atvikaskráning til viðbótar við vistun á viðeigandi gögnum í gagnagrunni. Allar tilraunir einstaklinga til auðkenningar/innskráningar hafi verið skráðar í atvikaskráningarkerfi embættisins hvort sem þær báru árangur eða ekki. Þá hafi allar aðgerðir sem einstaklingur framkvæmdi á vefnum eftir að hann hafði auðkennt sig verið skráðar með sama hætti.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að samkvæmt athugun embættisins í umsóknarkerfi leiðréttingarinnar og atvikaskráningarkerfi þess hafi kærendur skráð sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is þann 23. júlí 2014 þegar umsókn um ráðstöfun séreignarsparnaðar var skilað en umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána hafi ekki verið opnuð. Fram kemur að slík umsókn hafi fyrst verið opnuð hinn 10. nóvember 2014. Því hafi kærendur ekki sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2014, og að ríkisskattstjóra hafi skort lagaheimild til að taka við umsóknum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána að útrunnu umsóknartímabili.

Stjórnsýslukæra, móttekin 3. maí 2016
Í kærunni er niðurstöðu ríkisskattstjóra mótmælt. Því er haldið fram að umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána hafi verið send embætti ríkisskattstjóra innan hins lögbundna frests. Þá greinir að kærendum hafi verið tjáð af starfsmanni embættisins að það sæist að umsókn hafi verið fyllt út „en það vanti að haka í síðasta boxið til að samþykkja umsóknina“. Þær upplýsingar hafi aftur á móti verið dregnar til baka í bréfi ríkisskattstjóra frá 22. janúar 2016. Þessu hafna kærendur og telja sig hafa sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána enda hafi þeim verið tjáð af starfsmanni ríkisskattstjóra að það væru „spor“ í kerfi ríkisskattstjóra.

Umsögn ríkisskattstjóra, móttekin 9. maí 2016
Með tölvupósti frá 6. maí sl. óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattsjóra um framkomna stjórnsýslukæru. Umsögn barst ráðuneytinu með tölvupósti hinn 9. maí sl.

Í umsögninni greinir að samkvæmt skráningu í umsjónarkerfi leiðréttingarinnar og atvikaskráningarkerfi ríkisskattstjóra hafi fyrsta innskráning kærenda á þjónustusíður þeirra á leidretting.is verið framkvæmd hinn 23. júlí 2014 þegar sótt var um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Fram kemur að umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána hafi hins vegar fyrst verið opnuð hinn 10. nóvember 2014 eða eftir að umsóknartímabil um leiðréttingu rann út. Hinn 11. nóvember 2014 hafi ríkisskattstjóri móttekið tölvupóst frá kærendum sem svarað var degi síðar. Þá greinir að umrædd „spor“ í kerfi ríkisskattstjóra hafi orðið til þegar kærendur opnuðu umsóknina hinn 10. nóvember 2014.

Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort að kærendur hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána innan lögbundins umsóknartímabils.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að við skoðun embættisins í umsóknarkerfi leiðréttingarinnar og atvikaskráningarkerfi þess hafi kærendur skráð sig inn á þjónustusíðuna leidretting.is þann 23. júlí 2014 og sótt um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaverðlán hafi hins vegar ekki verið opnuð fyrr en 10. nóvember 2014 eða að lokum lögbundnum umsóknarfesti. Kærendur hafi því ekki sótt um leiðréttingu innan lögákveðins umsóknartímabils, sbr. 4. gr. laga nr. 35/2014, og að ríkisskattstjóra hafi skort lagaheimild til að taka við umsóknum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána að útrunnu umsóknartímabili.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2014 var umsóknartímabil fyrir leiðréttingu verðtryggða fasteignaveðlána frá 15. maí til 1. september 2014. Í 2 mgr. er tilgreint hverjum er heimilt að sækja um leiðréttingu verðtryggra fasteignaveðlána og í 3. mgr. 4. gr. er tilgreint að umsókn skuli beint til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skuli málsmeðferðin vera rafræn. Þá skuli umsækjandi staðfesta að hann heimili viðkomandi lánveitanda að miðla nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til ríkisskattstjóra um viðkomandi fasteignaveðlán. Í 5. mgr. 4. gr. er tilgreint að ef umsækjandi veitir ekki þær upplýsingar eða leggur ekki fram þau gögn sem óskað er eftir í rafrænu umsóknarferli skuli hafna umsókn.

Með lögunum var ríkisskattstjóra falið að annast móttöku umsókna um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána og afgreiðslu þeirra. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána er undirstrikað að framkvæmd leiðréttingar skuli háð frumkvæði einstaklinganna sjálfra. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra fengu umsækjendur sem sóttu um leiðréttingu senda tilkynningu þess efnis að umsókn um leiðréttingu hefði verið móttekin um leið og ýtt hafði verið á hnappinn „Senda umsókn“. Jafnframt var hægt að nálgast staðfestingu undir flipanum „Samskipti“ á vefsvæði umsækjenda á leidretting.is.

Fram hefur komið að kærendur inn á vef ríkisskattsjóra hinn 23. júlí 2014 og sóttu um ráðstöfun séreignarsparnaðar en umsókn um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlán var fyrst opnuð hinn 14. nóvember 2014 að lögbundnu umsóknartímabili liðnu. Ríkisskattstjóri móttók því ekki umsókn um leiðréttingu frá kærendum og því voru forsendur til leiðréttingar ekki til staðar.

Líkt og áður greinir var frumkvæði að umsókn um leiðréttingu á ábyrgð og forræði einstaklinganna sjálfra. Hin lögbundnu skilyrði sem tilgreind eru m.a. í 4. gr. laga nr. 35/2014 eru ófrávíkjanleg og einstaklingar sem ekki sóttu sannanlega um leiðréttingu á vef ríkisskattstjóra innan þess umsóknartímabils sem lögin kveða á um teljast ekki eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Með vísan til framangreinds er það því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.

Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkisskattstjóra er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum