Hoppa yfir valmynd
25. október 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Máli nr. 22/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. október 2006

í máli nr. 22/2006:

Besta ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 9. október 2006 kærir Besta ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um að opna tilboð í rammasamningsútboði nr. 14050 auðkennt sem ,,Hreinlætispappír, hreinlætisefni og áhöld og tæki til hreingerninga“ hinn 5. október 2006 og þá ákvörðun að heimila kæranda ekki að vera meðal þátttakenda.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi útboðið og samningsgerð í kjölfar þess, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að lagt verði fyrir kærða að bjóða út að nýju sömu vörur og í hinu kærða útboði, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Þá er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. og 84. gr. laganna. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laganna.

Með bréfi, dags. 20. október 2006 sem barst kærunefnd útboðsmála 23. sama mánaðar, krafðist kærði þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

           Kærði auglýsti eftir tilboðum vegna kaupa á hreinlætispappír og hreinlætisefnum og tækjum í júlí 2006. Útboðið var opið og var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Útboðinu var hins vegar frestað og breytingar gerðar á útboðslýsingunni í september sama ár. Í lið 1.1.1 í breyttri útboðslýsingu kom fram að fyrirspurnafrestur væri til 26. september 2006, svarfrestur kærða til 29. sama mánaðar og opnunartími tilboða kl. 11:00 hinn 5. október sama ár. Í lið 1.1.4 í útboðslýsingu kom fram að fyrirspurnum verði svarað eigi síðar en sex almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út. Kærði sendi fyrirspurnir sem borist höfðu og svör við þeim til kæranda og annarra þátttakenda með tölvubréfi 3. október 2006. Opnunarfundur fór fram kl. 11:00 hinn 5. október 2006 og bárust tilboð frá þrettán fyrirtækjum. Kærandi skilaði tilboði kl. 15:00 þann dag og var honum þá tilkynnt að opnunarfundur hefði farið fram fyrr um morguninn. Að sögn kærða kvaðst fulltrúi kæranda hafa lent í umferðaróhappi og væri þess vegna svo seinn fyrir. Síðar sama dag barst kærða tölvupóstur frá kæranda þar sem fram kom að litið hefði verið svo á að tilboðsfrestur væri til 9. október 2006.

II.

Kærandi byggir á því að framkvæmd hins kærða útboðs hafi verið ólögmæt. Hann telur í fyrsta lagi að ekki hafi verið réttmætt að halda opnunarfund 5. október 2006 þrátt fyrir að það hafi verið boðað í útboðslýsingu. Hafi fyrirspurnir og svör kærða verið send kæranda tveimur dögum fyrir opnunarfund, en fram komi í lið 1.1.4 í útboðslýsingu að fyrirspurnum verði svarað eigi síðar en sex almanaksdögum áður en tilboðsfrestur renni út. Í 4. mgr. 64. gr., sbr. 41. gr. laga nr. 94/2001, komi fram að ný gögn eða skýringar skuli vera komin til bjóðenda eigi síðar en sex almanaksdögum áður en tilboðsfrestur renni út. Sé háttsemi kærða því augljóst lögbrot, bæði á útboðsskilmálum og lögum nr. 94/2001. Geti réttaráhrif þess ekki verið önnur en að hið kærða útboð sé í heild sinni ólögmætt og ekki unnt að ganga til samninga í kjölfar þess. Þá blasi við að lögbrot kærða höfðu veruleg áhrif á kæranda sem hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að tilboðsfrestur yrði framlengdur vegna nýrra upplýsinga tveimur dögum fyrir áætlaðan opnunarfund. Skipti verulegu máli að kærandi hafi ekki fengið nægilegt svigrúm til að laga tilboð sitt að þeim upplýsingum sem fram komu í svörum við fyrirspurnum. Hafi verið veittur tveggja daga frestur og sé það í andstöðu við skýrt lagaákvæðið og útboðslýsingu. Geti kærunefnd útboðsmála ekki metið huglægt hvort tveir dagar séu nóg í þessu samhengi, heldur verði að líta til þess að lög nr. 94/2001 geri með hlutlægum hætti ráð fyrir sex dögum. Bent er á að þegar um sé að ræða innkaup sem ekki eru boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu sé sambærilegur tímafrestur fjórir dagar, sbr. 41. gr. laga nr. 94/2001. Fari háttsemi kærða í bága við lög, sama hvaða frestur eigi við.

Jafnvel þó talið yrði að meta þyrfti í þessu tilviki hvort tveggja daga frestur dugi til þess, er til þess að líta að ekki hafi aðeins verið um svör við óskýrum atriðum að ræða heldur einnig breytingar á útboðslýsingu. Hafi þannig fyrst verið upplýst í svari við fyrirspurnum 3. október 2006 að krafa um að rotvarnarefni megi ekki vera til staðar væri felld úr gildi. Fái ekki staðist að standa með þessum hætti að breytingum sem skipti verulega máli, en handsápuhluti útboðsins sé verulega stór hluti þess og hafi þetta atriði því verulega þýðingu. Geti kærandi, einn fárra bjóðenda, boðið fram umræddar vörur án rotvarnarefna og hafi þetta atriði því veruleg áhrif á samkeppni bjóðenda í útboðinu. Hafi tveir dagar ekki dugað kæranda til að leggja fram nýtt tilboð að teknu tilliti til þessara breytinga og komi þær að þessu leyti sérstaklega niður á honum. Kærandi vísar einnig til 35. gr. laga nr. 94/2001 þar sem fram kemur að tilboðsfrestur skuli vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð. Sé ljóst að kæranda hafi skort tíma til að grípa til ráðstafana vegna hinna nýju upplýsinga kærða sem fram komu rétt fyrir opnun tilboða.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að útboðið hafi verið ólögmætt vegna þess að kærði hafi breytt útboðslýsingu verulega. Hafi það bæði verið gert með bréfi starfsmanns kærða, dags. 3. október 2006, sem og með breytingum á útboðslýsingu 21. september 2006. Hvað varðar breytingar er í fyrsta lagi bent á að í lið 1.2.1 hafi upphaflega verið gert að skilyrði fyrir þátttöku í útboðinu að bjóðandi hefði á sinni könnu verslun á höfuðborgarsvæðinu sem væri opin alla virka daga, en skilyrðið verið fellt út 21. september 2006. Sé ljóst að brottfall þessa áskilnaðar veiki stöðu kæranda, sem hafi höfuðstöðvar í Reykjavík, en ekki geti allir aðrir þátttakendur uppfyllt þetta skilyrði. Aukist því samkeppni við kæranda með brottfalli skilyrðisins og ívilni það sumum þátttakendum á kostnað hans. Fari niðurfelling skilyrðisins í bága við 11. gr. laga nr. 94/2001 og almenna meginreglu útboðsréttar um jafnræði. Þá er bent á að þessi breyting, svo og allar breytingar sem raktar séu í kærunni, sé án lagastoðar og þegar af þeirri ástæðu ólögmæt, meðal annars með vísan til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í öðru lagi hafi verið felld niður sú valforsenda í lið 3 í útboðsgögnum að litið verði til fjölda/stærðar afgreiðslustaða, opnunartíma, þjónustu við landsbyggðina og neyðarþjónustu. Komi þessi breyting sérstaklega niður á kæranda, þar sem fyrirtækið sé með útibú og þjónustu á fjórum stöðum á landinu og vandséð að aðrir þátttakendur geti boðið upp á sömu þjónustu og kærandi að þessu leyti. Í þriðja lagi hafi útboðslýsingu verið breytt með þeim hætti að tekið var fram að stefnt væri að því að semja við einn til tvo aðila sem byðu fjölbreytt úrval í öllum flokkum að undangengnu útboðinu, en áður hafi komið fram að stefnt væri að því að semja við þrjá aðila sem byðu fram fjölbreytt úrval. Bjóði kærandi allar vörur sem óskað hafi verið eftir og hafi yfir að ráða fjölbreyttu vöruúrvali. Með því að fækka væntanlegum samningsaðilum, sem hafi yfir fjölbreyttu vöruúrvali að ráða, sé gengið á hagsmuni kæranda umfram aðra bjóðendur. Í fjórða lagi er vikið að þeim breytingum sem gerðar voru tveimur dögum fyrir opnun tilboða og raktar voru hér að framan. Lúti þær að niðurfellingu kröfu um að boðin efni skuli vera án rotvarnarefna, auk þess sem gert hafi verið að skilyrði að magn rotvarnarefna væri tilgreint. Raski þessar breytingar grundvelli útboðsins og fari þvert á lög og útboðslýsingu. Í fimmta lagi komi fram ýmsar túlkanir í svörum við fyrirspurnum sem bárust kæranda 3. október 2006 sem ekki eigi sér stoð í útboðslýsingu. Í dæmaskyni er annars vegar bent á túlkun kæranda á hugtakinu ,,mikið“ í lið 2.6 í útboðslýsingu, sbr. svarlið 6, og hins vegar skýringar á framsetningu afsláttar í svarlið 3 sem verði vart taldar eiga sér stoð í útboðslýsingu eða tilboðseyðublaði. Feli þessar túlkanir í raun í sér breytingar á útboðslýsingu og séu því óheimilar. Hefði kærði auðveldlega getað skýrt þessi atriði í útboðslýsingu. Bent er á að 26. gr. laga nr. 94/2001 áskilji að öll atriði sem þýðingu kunni að hafa komi fram í útboðslýsingu, en það hafi ekki verið gert og feli í sér brot á lögunum.

Þar sem framkvæmd hins kærða útboðs hafi bersýnilega verið ólögmæt er þess krafist að það og samningsgerð í kjölfar þess verði stöðvuð án tafar, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001. Með hliðsjón af því að ekki geti orðið af samningsgerð í kjölfar útboðsins sé rétt að það fari fram á ný, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljóst álit sitt á skaðabótaskyldu kærða, sbr. 2. mgr. 81. gr. og 84. gr. laga nr. 94/2001. Þá er krafa um ákvörðun málskostnaðar reist á 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

III.

            Kærði tekur fram að þær breytingar sem gerðar voru á útboðslýsingu í september 2006 hafi verið gerðar vegna fyrirspurna frá þátttakendum, sbr. einnig þær breytingar sem gerðar voru með svörum við fyrirspurnum og athugasemdum, dags. 2. október 2006. Hafi verið haft samband við Landspítala-Háskólasjúkrahús vegna þessara fyrirspurna og niðurstaða skoðunar verið að mögulegt væri að of strangar kröfur hefðu verið gerðar í útboðslýsingu og hugsanlega um ómálefnalegar kröfur að ræða. Hafi tilgangur breytinga þannig verið að koma til móts við þátttakendur, gæta að jafnræði þeirra og auka samkeppni í útboðinu. Hafi hins vegar verið litið svo á að um minniháttar breytingar væri að ræða.

            Byggt er á því að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 94/2001 eða reglum settum samkvæmt þeim og eigi því að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Tekið er fram að megintilgangur laganna sé að ná fram jafnræði bjóðenda og gegnsæi í útboðsferlinu, auk þess að tryggja að litið verið til efnahagslegra forsendna í opinberum innkaupum. Í þessu tilviki hafi þess verið gætt til hins ítrasta að jafnræði bjóðenda væri ekki skert og að útboðsferlið væri allt gegnsætt. Verði að líta til tilgangs reglnanna við meðferð málsins fyrir kærunefnd útboðsmála og við túlkun einstakra ákvæða laga nr. 94/2001.

            Til að stöðva samningsgerð þurfi að líta svo á að verulegar líkur séu á broti gegn lögum nr. 94/2001 sem leitt geti til ógildingar útboðs, enda ljóst að fullkomlega óþarft sé að stöðva samningsgerð ef ekki eru taldar verulegar líkur á þeirri niðurstöðu að ógilda tilboðið. Bent er á að kærunefndin hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að þó hnökrar hafi verið á útboðsferli eigi það ekki að leiða til ógildingar útboðs. Vakin er athygli á því að kærandi kæri ekki þá athöfn að breyta einstökum atriðum í útboðslýsingu og sé þannig svo dæmi sé tekið ekki kærð sú athöfn að fella niður kröfu um rotvarnarefni í handsápu. Geti engu breytt um þetta atriði þó kærði tiltaki í röksemdum að hann telji að framangreindar athafnir hafi verið ólögmætar. Við mat á því hvort stöðva beri samningsgerð verði að líta til þess að lengd frests á milli þess að fyrirspurnum var svarað og loka tilboðsfrests hafi í raun ekki haft áhrif á tilboð kæranda og varði því ekki þá hagsmuni sem ætlun löggjafans hafi verið að vernda með 4. mgr. 64. gr. laga nr. 94/2001. Sé þannig ekki rétt að svör við fyrirspurnum hafi átt að útheimta neinar breytingar á tilboðinu, enda verið hægt að bjóða alla sömu vöru og áður. Ennfremur sé einn megintilgangur þess að kveða á um fresti að gera bjóðendur jafn setta til þátttöku óháð staðsetningu innan Evrópska efnahagssvæðisins þannig að bjóðendur í landi kaupanda hafi ekki forskot á aðra bjóðendur. Eigi ekkert slíkt við hér þar sem kærandi hafi verið jafn vel settur og aðrir til að gera tilboð fyrir gildandi tilboðsfrest. Hafi þannig ekki verið brotið gegn jafnræði bjóðenda að þessu leyti og því engin ástæða til að stöðva samningsgerð af þessari ástæðu.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki eigi að stöðva samningsgerð á þessum grundvelli þar sem kæranda hafi mátt vera ljóst hver tilboðsfrestur var og átt alla möguleika á að skila tilboði fyrir lok frestsins. Hafi þannig legið ljóst fyrir að engar breytingar voru gerðar á þeim lið í útboðslýsingu sem varði tilboðsfrest, hvorki í september né í svörum við fyrirspurnum. Hafi kærandi ekki haft nokkra ástæðu til að ætla að tilboðsfrestur væri breyttur, enda ekkert slíkt tilkynnt til bjóðenda. Þá hafi kærandi líka mátt gera sér grein fyrir því að ákveða beri frestun á opnun tilboða fjórum dögum fyrir hana, sbr. 43. gr. laga nr. 94/2001. Hafi sá frestur verið liðinn og kærandi mátt gera sér grein fyrir því að frestun myndi ekki eiga sér stað. Sé opnun frestað kveði 43. gr. laganna jafnframt á um að halda skuli opnunarfund og skrá hverjir skili inn tilboði, án þess að opna tilboðin. Verði þeim sem skilað hafi inn tilboði svo einum boðin áframhaldandi þátttaka. Geti kærandi ekki borið fyrir sig vanþekkingu á lögunum að þessu leyti, allra síst í ljósi þess að um reyndan bjóðanda í opinberum innkaupum sé að ræða. Hafi kærandi talið að opnun yrði frestað, hefði hann átt að skila inn tilboði á opnunarfundi og tryggja þannig áframhaldandi þátttöku sína. Það hafi hann ekki gert og geti því ekki nú borið fyrir sig að hann hafi talið tilboðsfrest vera til 9. október 2006 og að honum hafi verið heimil þátttaka í útboðinu eftir opnunarfund. Eigi háttsemi kæranda að leiða til þess að fullyrðingar hans að þessu leyti verði ekki lagðar til grundvallar við meðferð málsins.

Tekið er fram að kærandi hafi ekki gert athugasemdir að þessu leyti þegar svör við fyrirspurnum voru send honum 3. október 2006. Verði ekki séð að hann hafi ætlað að skila tilboði sex dögum eftir að fyrirspurnum var skilað og sé þvert á móti óumdeilt að hann hafi skilað tilboði fjórum klukkustundum eftir að opnunarfundur hófst og jafnframt tekið fram að tilboði væri skilað seint vegna umferðaróhapps. Verði því ekki annað séð en að sá frestur sem leið á milli svara við fyrirspurnum og frests til að skila tilboðum hafi verið án afleiðinga fyrir tilboðsgerð kæranda og séu fullyrðingar um annað nú til málamynda. Beri þegar af ofangreindum ástæðum að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar. Ekki sé hægt að stöðva samningsgerð á grundvelli minniháttar hnökra á framkvæmd útboðsins án þess að líta til þess að þessir hnökrar skipti í raun engu máli, meðal annars vegna þess að þeir hafi engin áhrif haft á kæranda. Hafi breytingar á útboðslýsingu þannig ekki útheimt breytingar á tilboði kæranda, enda hafi mátt bjóða sömu vöru og áður. Þá hafi ekki verið tilkynnt um frestun á opnun tilboða og kærandi mátt gera sér grein fyrir að ekki væri um slíkt að ræða. Jafnframt hafi kærandi ekki mætt á opnunarfund 5. október 2006 til að tryggja sér áframhaldandi þátttöku eins og hann hefði átt að gera ef hann taldi að opnun yrði frestað. Þá hafi kærandi í raun skilað tilboði 5. október 2006, en ekki 9. október og sagst skila því seint vegna umferðaróhapps.

Hvað varðar það kæruefni að kæranda hafi ekki verið heimilað að vera meðal þátttakenda í útboðinu er tekið fram að í raun hafi engin ákvörðun verið tekin um það. Tilboði hafi verið skilað eftir að tilboðsfresti lauk og kveði lög nr. 94/2001 á um að óheimilt sé að taka slíku tilboði. Felist engin sérstök ákvörðun í því að benda á þau lagaákvæði sem gildi að þessu leyti og fylgja þeim. Hafi kærði ekki haft heimild til annars en að endursenda tilboðið óopnað sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna og því í raun ekki tekið ákvörðun um réttindi og skyldur kæranda sem hafi verið ákveðin með lögum að þessu leyti. Í ljósi þessa ákvæðis hafi kærandi ekki getað orðið meðal þátttakenda í útboðinu og verði ekki séð að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 94/2001 með því að fara að þessu ákvæði. Verði þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

Tekið er fram að þær röksemdir kæranda sem varði breytingar á útboðslýsingu og hvort þær hafi verið heimilar varði ekki kæruefnin tvö. Til að gæta alls verði þeim röksemdum þó svarað. Byggt er á því að breytingar á útboðslýsingu hafi verið minniháttar og heimilar, einkum þar sem þær þrengdu ekki möguleika bjóðenda á þátttöku í útboðinu. Skipti aðalmáli að útboðsferli sé gagnsætt og hafi því verið fylgt til hins ítrasta. Þá sé rangt að engar breytingar megi gera á útboðslýsingu. Hins vegar megi ekki gera verulegar breytingar á útboðsgrundvelli eftir birtingu útboðslýsingar, til að gætt sé hagsmuna þeirra sem ákveðið hafi að taka ekki þátt í útboði eftir að útboðslýsing var birt og jafnræði þeirra gagnvart þeim sem tóku þátt. Því er mótmælt að það hafi áhrif að kærandi hafi með einhverjum hætti misst forskot sitt við þær breytingar sem hafi verið gerðar. Hafi þær minniháttar breytingar sem gerðar voru verið fyllilega í samræmi við lög nr. 94/2001 og jafnræði bjóðenda verið meira eftir breytingar sem hafi jafnframt verið til þess fallnar að auka samkeppni. Sé það ekki markmið laganna að takmarka samkeppni í opinberum innkaupum eða að einstakir bjóðendur fái eða viðhaldi forskoti á aðra bjóðendur á grundvelli krafna sem mögulegt sé að séu óþarfar. Eigi framangreint sérstaklega við umfjöllun í kæru varðandi niðurfellingu á kröfu um rotvarnarefni í sápu, niðurfellingu á kröfu um verslun á höfuðborgarsvæðinu og niðurfellingu á mati á fjölda og stærð afgreiðslustaða. Þá hafi þessar breytingar ekki haft neinar afleiðingar fyrir kæranda. Hafi hann eftir sem áður getað boðið sömu vöru og verði ekki séð að þessar breytingar hafi í reynd haft áhrif til seinkunar eða röskunar á tilboðsgerð. Minnt er á að handsápa án rotvarnarefna hafi ekki verið hluti verðkörfu í mati samkvæmt útboðslýsingu og standist því ekki fullyrðingar kæranda um að hann hafi þurft að laga tilboð sitt að því leyti. Hvað varðar athugasemd kæranda við þá breytingu sem fólst í því að stefnt var að því að semja við einn til tvo bjóðendur sem væru með fjölbreytt vöruúrval í öllum vöruflokkum, í stað a.m.k. þriggja, er bent á að þessi breyting hafi ekki þrengt möguleika kæranda á þátttöku í útboðinu. Með breytingunni hafi samkeppni í útboðinu verið aukin, enda opni þetta möguleika þátttakenda sem hafi lítið vöruúrval. Auk þess hafi komið fram að einungis væri stefnt að þessu og því ekkert verið ákveðið í þessum efnum. Sé því alls óvíst að um breytingu hafi verið að ræða að þessu leyti.

Vísað er til þess að kærandi geri það að sérstöku umfjöllunarefni að það hafi raskað grundvelli útboðsins að tilgreina ætti magn rotvarnarefna í handsápu. Bent er á að einfalt hafi verið fyrir kæranda að bjóða sömu sápu og hann hugðist bjóða og tilgreina að engin rotvarnarefni væru í henni. Hafi þessi breyting því ekki raskað neinu. Þá sé það gert að umfjöllunarefni að orðið ,,mikið“ hafi verið skýrt undir svarlið 6 í svörum við fyrirspurnum. Sé hér um eðlilega og heimila túlkun á útboðslýsingu að ræða, auk þess sem ekki verði séð að þessi útskýring hafi getað haft nokkur áhrif. Hafi umrædd skýring verið til þess fallin að auka gagnsæi í útboðinu. Loks er tekið fram að líta verði svo á að kærandi hafi í raun ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort útboðslýsing eða breytingar á henni hafi verið heimilar, þegar af þeirri ástæðu að hann hafi ekki skilað tilboði á réttum tíma. Verði því ekki séð að samningsgerð verði stöðvuð á þessum grundvelli.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar útboðs og samningsgerðar í kjölfar þess. Í 80. gr. laga nr. 94/2001 er kærunefnd útboðsmála veitt heimild til stöðvunar samningsgerðar þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í ákvæðinu sjálfu, sbr. og athugasemdir við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 94/2001, er skýrlega tekið fram að skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar sé að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Fyrir liggur að fyrirspurnir og svör við þeim voru send kæranda tveimur dögum fyrir opnun tilboða hinn 5. október 2006. Í 4. mgr. 64. gr. laga nr. 94/2001 kemur fram að viðbótarupplýsingar skv. 41. gr. laganna skuli vera komnar til bjóðenda eigi síðar en sex almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út. Eru að mati kærunefndar útboðsmála verulegar líkur á að brotið hafi verið gegn þessu ákvæði við framkvæmd hins kærða útboðs. Að þessu virtu er fallist á með kæranda að uppfyllt séu skilyrði 80. gr. laga nr. 94/2001 til stöðvunar samningsgerðar þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

 

Ákvörðunarorð:

Útboð Ríkiskaupa nr. 14050 auðkennt sem ,,Hreinlætispappír, hreinlætisefni og áhöld og tæki til hreingerninga“ er stöðvað þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru kæranda.

 

 

                                                               Reykjavík, 25. október 2006.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Stanley Pálsson

                                                               Sigfús Jónsson 

                                                  

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. október 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum