Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Ferjusmíði boðin út þegar betur árar

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að hætt skuli frekari samningaviðræðum við þýsku skipasmíðastöðina Fassmer um smíði nýs Herjólfs og stöðinni tilkynnt að tilboði hennar yrði ekki tekið. Ástæðan eru aðstæður í efnahagslífi landsins.

Viðræður hafa átt sér stað að undanförnu milli fulltrúa Siglingastofnunar Íslands og skipasmíðastöðvarinnar Fassmer GmbH & Co. í Þýskalandi sem átti hagstæðara tilboð í ferjusmíði af þeim tveimur tilboðum sem bárust. Þær höfðu í aðalatriðum leitt til samkomulags um verð, tilhögun og afhendingartíma ferjunnar. Viðræðurnar hafa farið fram í skugga fjármála- og gengiskreppunnar og hefur fulltrúum skipasmíðastöðvarinnar verið ljóst hvert ástand mála er hérlendis og þeir sýnt því skilning.

Staða málsins var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og ákveðið að tilkynna skipasmíðastöðinni að viðræðum verði hætt og að tilboðinu verði ekki tekið. Smíði nýrrar ferju verði boðin út þegar betur árar.

Haldið verður áfram með framkvæmdir í Landeyjahöfn sem hófust í haust með vegagerð og verður í vetur unnið að gerð grjótvarnargarða. Þar sem nýr Herjólfur mun ekki hefja siglingar síðsumars 2010 eins og ráðgert hafði verið verður leitað annarra lausna til að leysa ferjusiglingar milli lands og eyja.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum